Þau ykkar sem aldrei hafa séð kvikmyndina Highlander frá árinu 1986 eruð heppin. Ykkur gefst færi á því að sjá hana í allra fyrsta sinn. Ég öfunda ykkur virkilega af því, enda er Highlander (ekki Highlander 3 eða Highlander: Endgame og alls alls alls ekki Highlander 2) sennilega mín uppáhaldskvikmynd.
Hvers vegna?
Jú, einfaldlega vegna almenns frábærleika. En svona til að brjóta þetta niður á skýran og skilmerkilegan máta, hef ég gert lítinn lista af öllu því sem er frábært við þessa mynd (þó ekki megi gleyma þeim undirliggjandi frábærleika sem tengir þessa þætti saman).
Sagan í stuttu máli:
Um allan heim finnast ódauðlegir menn. Sumir eru hundrað ára, aðrir mörg þúsund ára gamlir. Það eina sem getur svipt þá lífi, er að missa höfuðið í bardaga. Að öðru leyti bítur ekkert á þá. Þegar sagan hefst, árið 1985, eru þeir fjórir seinustu komnir saman í New York þar sem þeir munu berjast þar til aðeins einn stendur eftir. Eða eins og þeir segja sjálfir:
There can be only one!
1. Upphafstextinn
Þessu er slengt framan í okkur á allra fyrstu sekúndu myndarinnar. Blóðrauður texti fyllir skjáinn og James Bond les:
From the dawn of time we came, moving silently down through the centuries. Living many secret lives, struggling to reach the time of the gathering, when the few who remain will battle to the last. No one has ever known we were among you ... until now.
Strax á fyrstu sekúndunum er tónninn sleginn. Inngangsorðin skipta engu máli fyrir söguna, heldur er tilgangur þeirra fyrst og fremst að vera kúl.
Og svo hverfur textinn...
2. Byrjunarstefið
... og Queen sprengir í manni heilann með rokkslagara með því eitursvala nafni Princes of the Universe. Þess má geta að Queen samdi alla tónlistina við myndina.
Á sama tíma fylgjumst við með Connor MacLeod þar sem hann situr í áhorfandaskara og fylgist með fjölbragðaglímu. Glímukapparnir eru einstaklega skemmtilega fáránlegir þar sem þeir hæðast hver að öðrum í slómósjon. Inn á milli fær Connor (sem er frábærlega leikinn af Christopher Lambert) flassbakk til Skotlands á miðöldum þar sem hann sjálfur er staddur í miðjum bardaga.
Ótrúlega svalt.
3. Fyrsti bardaginn
Í bílastæðahúsinu undir glímuhöllinni hittir Connor eldri mann með sólgleraugu. Hann heitir Faziel. Sá dregur upp sverð og Connor dregur sitt eigið sverð innan úr frakkanum sínum. Síðan skylmast þeir. Þetta er svo sem ekkert í frásögur færandi, enda er þetta allt í anda hins gegnumgangandi svalleika sem þessi mynd býr yfir. Það er samt tvennt sem ég hef alltaf sérstaka unun af þegar ég horfi á þetta atriði.
Í fyrsta lagi eru það skórnir hans Connors. Hann er allur mjög dempaður í klæðnaði, í gráum rykfrakka og bláum gallabuxum. Hann lítur út eins og venjulegur gaur. Og svo er hann í skjannahvítum strigaskóm.
Þetta stingur svolítið í stúf við restina af klæðnaðnum, sem er einstaklega lágstemmdur og er þetta eiginlega stílbrot. En við nánari umhugsun spyr maður sig: hvernig skó myndi ég velja mér ef ég ætti von á því að ráðist yrði á mig hvert sinn sem ég færi úr húsi? Jú, auðvitað myndi ég velja bestu íþróttaskóna sem völ væri á. Skór sem væru góðir til hlaupa, auk þess að vera hljóðlátir. Og ef þeir fást bara í hvítu, verður bara að hafa það. Þannig að það er í rauninni óhjákvæmilegt að hann skuli ganga í skjannahvítum strigaskóm.
Það eru svona smáatriði sem gera það að algjörri unun að sjá þessa mynd aftur og aftur.
Hitt atriðið er þegar Faziel hörfar undan Connor á handahlaupum. Hann hefði alveg eins geta hlaupið (og sennilega komist hraðar yfir) en hann ákvað að gera það sem svalara þótti.
4. Í yfirheyrslu á lögreglustöðinni
Garfield: You talk funny Nash. Where you from?
Connor (sem gengur undir nafninu Russell Nash): Lots of different places.
Garfield (rannsóknarlögga): Are you a faggot, Nash?
Connor: Why, Garfield? Cruisin' for a piece of ass?
Garfield: I'll tell you what happened, Russell. You went down to that garage for a blow job. But you didn't want to pay for it.
Connor: You´re sick. Wanna hear another theory?
Frank Moran (líka rannsóknarlögga): Uh-huh.
Connor: This Faziel was so upset about the lousy wrestling tonight, that he went down to the garage and in a fit of depression cut off his own head.
5. Sean Connery í seinasta góða hlutverkinu sínu.
Sean Connery er án efa einn ofmetnasti leikari samtímans. Hann var góður sem James Bond. Hann var góður í The Man who would be King og The Name of the Rose. Og loks í þessari frábæru mynd. Síðan þá hefur hann verið fastur í sama sporinu seinustu tuttugu árin. Það er sama í hvaða mynd hann er, hann er annaðhvort aldraður James Bond, eða skoskur ofurhönk með siginn gamlakarlapung. Oftast hvort tveggja.
En í Highlander er hann lærimeistari Connors MacLeods. Hann fræðir Connor um eigin hæfileika og kennir honum að skylmast í dramatískri skoskri náttúru. Hann kynnir Connor líka fyrir sverðinu sem mun einn góðan veðurdag verða hans. Ótrúlega svalt 2000 ára gamalt japanskt samúræjasverð með fílabeinsskafti.
En hvers vegna er hann að þjálfa Connor? Væri ekki best að drepa hann bara strax. Nei, vegna þess að Ramirez (Sean Connery) er að undirbúa hálendinginn undir að berjast við...
6. The Kurgan!
Það er einungis einn vondi karl í allri kvikmyndasögunni sem á skilið titilinn Svalasti og vondasti vondikall allra tíma. Darth Vader, Freddy Kruger, Hannibal Lecter og Bono eru eins og ljúfir kettlingar með keleríáráttu í samanburði við konung illskunnar. Hvorki fyrr né síðar hefur jafn illt eintak prýtt hvíta tjaldið. Sannkallaður trúboðasleikjari.
Enginn veit hvað hann heitir. Hann kemur frá rússnesku steppunum, stríðsmaður úr ætt Kurgana. Í þorpi hans henti fólkið ungabörnum fyrir úlfa sér til skemmtunar. Þegar leiðir hans og hálendingsins mætast í fyrsta sinn er The Kurgan málaliði sem ferðast um heiminn í leit að fólki til að slátra.
Topp þrjár ástæður fyrir því að Kurgan er besti vondikall allra tíma:
a) Lúkkið hæfir persónunni fullkomnlega.
Við kynnumst The Kurgan fyrst á miðöldum. Þá er hann stoltur yfir getu sinni í bardaga og er upptekinn af því að hræða líftóruna úr andstæðingnum með klæðnaði sínum, enda er algjör óþarfi fyrir hann að vera íklæddur brynju, hann lifir allt af.
En þvílíkur hjálmur!
Síðan fylgjumst við með því hvernig útlitinu hrakar með árunum, hann verður náhvítur, klæðist leðurlörfum og geislar einhverri fornri, ódauðlegri illsku.
b) Sverðið
Einn af grunnþáttum þessara myndar eru sverðin. Þau eru hvert öðru svalara. En sverðið hans Kurgans hlýtur óneitanlega vinninginn.
c) Hann er svo algjörlega vondur.
Kurgan varð ekki vondur vegna þess að pabbi hans kitlaði hann á óviðeigandi stöðum þegar hann var krakki. Hann fæddist vondur og var alinn upp af vondu fólki. Hann hatar ekki fólk. Fólk eru maurar í hans augum. Myndbrotið hér fyrir neðan útskýrir kannski eitthvað. Þarna hittast MacLeod og Kurgan í kirkju. Eina reglan sem hinir ódauðlegu fylgja, er sú, að bannað er að slást á heilagri grund.
Þvílík illska. Þvílík rödd. Þvílíkur töffari. Ég vil vera eins og hann ef líf mitt fer einhvern tíma til fjandans og ég ákveð að snúa mér að fólskuverkum.
7. Sagan hefur fallegan boðskap.
Boðskapur þessarar myndar er einfaldur og auðvelt að meðtaka: Ef vondur karl nauðgaði konunni þinni fyrir 400 árum síðan og ætlar að höggva af þér hausinn, þá skaltu passa þig.
8. Tónlistin.
Engin önnur mynd hefur jafn mikið af Queen tónlist (fyrir utan Flash!!! A-aaa!!! Saviour of the Universe!!! að sjálfsögðu). Hér ber helst að nefna lög eins og áðurnefnt Princes of the Universe, Gimme the Prize, One Year of Love, Don´t Lose Your Head, A Kind of Magic og síðast en þó allra síst Who Wants to Live Forever. Síðan taka þeir líka sína útgáfu af New York, New York. Án tónlistarinnar væri myndin hvorki fugl né fiskur, enda setur hún virkilega tóninn fyrir töffaraskapinn og svalleikann.
Ég held ég láti þetta nægja. Eitthvað verð ég að skilja eftir fyrir ykkur sem eruð þegar komin í skóna á leið ykkar út á myndbandaleiguna.
Þið hin sem enn eruð efins, getið skoðað þetta og látið sannfærast: