Það sem fólk kvartar næst mest yfir varðandi þetta blogg, er hinn hrópandi skortur á ljóðum sem tröllríður öllum greinum sem ég hef skrifað. Hér með geri ég bót á því, og hef stofnað nýjan greinaflokk þar sem rjóminn af mínum skáldskap mun fá að njóta sín.
Ég hef ákveðið að kalla þennan flokk ljóðatilraunir, vegna þess að það hljómar eins og ég sé kominn lengra en hefðbundin skáld. Búinn að slíta mig lausan frá hömlum hins staðlaða og er farinn að skálda á ystu nöf.
Fyrsta ljóðið heitir: RE: texti við sönglag
Sæll, vinur
þakka þér fyrir línurnar sem þú sendir mér um daginn
svarið er frekar síðbúið
þú verður að fyrirgefa mér það.
Þú baðst mig um að skrifa fyrir þig texta
við lag sem þú samdir
en þú manst ekki um hvað
það minnti þig á Famous Blue Raincoat
sem vekur hjá mér spurningar
hljómaði það kanadískt?
hljómaði það eins og bréf lesið yfir gítarstef?
var það samið klukkan fjögur um nóttu?
Ég sé að Jane er vöknuð
hún biður að heilsa
Fjallar lagið kannski um mann sem rifjar upp knattspyrnuleik
þar sem hann tapaði fyrir bróður sínum
þurfti að lúta í gras
eina skiptið sem hann tapaði fyrir litla bróður
Nú stendur maðurinn á hinum forna vígvelli
og rifjar upp þetta eina tap sem skyggði á alla sigrana
en bróðir hans er ekki lengur keppinautur
hann fékk krabbamein
og tapaði
hann er dáinn
og eldri bróðirinn sparkar frá sér boltanum
en enginn sparkar honum tilbaka
Var stemmningin eitthvað á þessa leiðina?
Var það þess vegna sem þú nefndir lagið
Tears on my balls?
Eða fjallar það um líf í fangelsi?
Hver er eiginlega tilfinningin í laginu?
Ég hef lesið lýsinguna tíu sinnum:
Phil Collins mínus trommur plús úkúlele
Þetta segir mér ósköp lítið
Ég veit ekki einu sinni hvað úkúlele er
er það einhvers konar sjúkdómur?
Er lagið eins og lítill, sjúkur karl
sem kann ekki á hljóðfæri
og er sköllóttur?
Þetta eru allt mikilvægar spurningar
finnst mér
sendu mér endilega svar sem allra fyrst
og hættu að senda okkur hár í póstinum
við viljum það ekki
það er frekar ógeðslegt
Í einlægni,
G. Arason
fimmtudagur, 26. febrúar 2009
Gerast áskrifandi að:
Færslur (Atom)