mánudagur, 11. ágúst 2008

Í þessari bloggfærslu mun ég segja frá stærsta leyndarmál lífs míns. Í alvöru, ég er ekki að djóka! Þetta byrjaði árið 1997 og fyrst um sinn...

...afneitaði ég því. Svo tók ég sjálfan mig í sátt og hef lifað með leyndarmálinu síðan þá. Hér kemur leyndarmálið: Stundum klæði ég klaufdýr (þá aðallega hesta og kýr) í nærföt af sjálfum mér og læt eins og þau séu ég og ávarpa þau með nafninu mínu og spyr hvað í veröldinni þau séu að gera hér í fjósinu um miðjan dag og hvers vegna þau séu ekki í vinnunni. Oseisei, oseisei... - Vá hvað mér líður vel að hafa loksins létt af hjarta mínu! Ég er loksins frjáls! Loksins!! Takk Allah :)

Þessa fyrirsögn samdi Jóhannes á hálftíma hér um daginn. Eins og flestum ætti að vera augljóst, er hann borgarbarn, alinn upp á mölinni, var látinn éta möl í morgunmat á hverjum degi í uppvexti sínum, velti sér upp úr mölinni í frímínútum og safnaði mölflugum. Tilvera hans var grá og eymdarleg, hann bjó í steinsteypublokk sem var ekki einu sinni máluð, hún var bara steinsteypugrá og gluggalaus. Það voru ekki einu sinni herbergi í henni, þetta var í raun bara einn stór, steyptur kubbur sem hafði verið plantað í sandkassa.

Þess vegna er það ekki svo skrítið að Jóhannes haldi að hestar séu klaufdýr. Eini hesturinn í lífi hans var mynd af einhyrningi sem hékk yfir skrifborði hans í gluggalausri skrifstofubyggingu þar sem hann stritaði við að framleiða einhæfar vaxlitamyndir af fjölskyldu sinni og gæludýrum. Á mölinni kallast slíkur vinnustaður leikskóli. Þessi einhyrningur hafði fjólublátt glimmerfax og klofna hófa. Jóhannes gaf honum nafnið Falluspóní.

Þessi langi titill minnti mig á bókina Saga af sæháki sem rak í tíu daga á fleka, án matar og drykkjar, var lýstur þjóðarhetja, kysstur af fegurðardísum, auglýsingamennskan auðgaði hann, en svo var hann fyrirlitinn af stjórnvöldum og gleymdist um aldur og eilífð eftir Gabríel Garcia Marquez. Ekki er leiðum að líkjast, enda var Gabríel Garcia (eða Gabe, eins og vinir hans kölluðu hann) meistari hinna lokkandi titla. Þekktastir þeirra eru án efa Hundrað ára einsemd, Ástin á tímum kóleru og Hershöfðinginn í völundarhúsi sínu. Allt eru þetta mjög lokkandi bókanöfn. Maður vill umsvifalaust vita meira.

Það er hins vegar ekki hægt að segja um titil þessarar greinar.

Eiginlega er því öfugt farið. Maður vill helst ekki lesa meira. Þess vegna hef ég þetta ekki lengra og óska Jóhannesi til hamingju með sigurinn, sem honum er frjálst að gorta af í eitt ár og einn dag. Það verður árið 1989 og dagurinn verður næsti aðfangadagur.

6 ummæli:

Guðný gúlla sagði...

Jei þessi þriðjudagsgáta er skemmtileg! hlakka til á morgun. Kann samt ekki að sjá spilunarlistann á þessari síðu, ætla að reyna að finna út úr því:)

kveðja Guðný

Guðný gúlla sagði...

ó djók...búin að fatta það og það er rosalega einfalt hehe

týpiskt ég að fara flóknu leiðina fyrst;)

Nafnlaus sagði...

næsta blogg á að heita 0.0 og Sofia Coppola....og á að vera aðallega um terminator 2 með smá innskoti um frammistöðu Sofiu í Godfather 3

Jói Ben sagði...

Ég sé að þú hefur staðist gáfnapróf mitt. Hestur er að sjálfsögðu ekki klaufdýr. Til hamingju með árangurinn, ég mun óhikað mæla með þér ef þú kemur einhvern tímann til með að sækja um starf á dýraspítala.

Sjálfur er enn að klóra mér í kollinum yfir gáfnaprófinu þínu:

[...] óska Jóhannesi til hamingju með sigurinn, sem honum er frjálst að gorta af í eitt ár og einn dag. Það verður árið 1989 og dagurinn verður næsti aðfangadagur.

wtf?

Nafnlaus sagði...

Þú mátt gorta í eitt ár, það er er 1989 og þú mátt gorta í einn dag, það er aðfangadagur. Ekki flókið.

Jói Ben sagði...

Til hamingju Kristján. Ég sé að þú hefur staðist hitt gáfnaprófið mitt. Ég mun óhikað mæla með þér ef þú kemur einhvern tímann til með að sækja um starf á dýraspítala.