Ég nýt þess virkilega að vera í sumarfríi. Þó mér líki ágætlega við vinnuna mína, finnst mér ég samt ekki vera herra míns tíma (Lord of Time), nema ég eigi langt frí án nokkura skuldbindinga.
Seinasta sumarfrí fór hins vegar fyrir lítið. Ég hafði unnið mikið fram að fríinu og álagið var orðið jafnmikið og álagið á Batman í lok seinustu Batman-myndar. Þegar ég loksins komst í frí, tók við meiri vinna. Ég þurfti að halda upp á sama brúðkaupið þrisvar sinnum, ferðast til Íslands (Klakann (Skerið (Frón))) þar sem ég þurfti að sinna landkynningum og hitta nokkurn veginn öll skyldmenni og flestalla vini mína á örfáum dögum. Þegar fríinu var lokið, var ég gjörsamlega uppgefinn, þannig að ég ráðfærði mig við dagatalið. Mér varð heldur betur brugðið.
Hvít, rúðustrikuð eyðimörk.
Ekki einn einasti frídagur fram að jólum. Fimm mánuðir af púli framundan og hvað svo? Fullorðnir fá ekki einu sinni almennilegt jólafrí, það tekur því varla að setjast við jólatréið. Flestir opna pakkana sína í bílnum á leiðinni í vinnuna og taka með sér samloku með hangiáleggi og grænum baunum sem þau slafra í sig, rennsveitt og titrandi af stressi. Í skólanum er börnunum kennt að sækja um greiðslufrest og hvernig eigi að fá sem hæsta yfirdráttarheimild. Þannig eru jólin orðin á flestum heimilum. Engu að síður eru þrír mánuðir lagðir undir þessa hátíð, sem tekur í mesta lagi eina viku. Jólalög, jólasveinar, jólaskreytingar, jólanammi og jólaauglýsingar allan sólarhringinn.
Þetta er orðið allt of mikið.
En hvað er til ráða? Það er ekki hægt að banna fólki að nauðga jólunum, það eru margar verslanir sem lifa á jólunum. Þær eru reknar með tapi restina af árinu. Björgvin Halldórsson þarf líka að eiga fyrir salti í grautinn. En eitthvað verður að gera. Ég þekki engan sem þykir þetta viðunandi ástand.
Þetta er mín tillaga:
Við búum til nýja hátíð milli sumars og jóla, einhvern tíma í seinni hluta október. Hátíðin heitir Dagur sverðsins og nær hápunkti á seinasta sunnudegi í október. Hátíðinni fylgja tveir frídagar: föstudagurinn fyrir og mánudagurinn eftir, þannig að úr verður fjögurra daga helgi í miðri dagatalseyðimörkinni.
Hvað er eiginlega Dagur sverðsins?
Á degi sverðsins höldum við upp á bardagalistir og helst þær sem hafa með sverð að gera. Þannig yrði hátíðin nauðsynlegt mótvægi við hátíð ljóss og friðar. Umgjörðin er ennþá frekar óljós og býður upp á fjölbreytileika og mismunandi fjölskylduhefðir. Auðvitað mun markaðurinn stýra því hvernig hátíðin þróast gegnum árin, en það eru ótal möguleikar í stöðunni.
Mér hefur lengi þótt vanta alþjóðlega hátíð sem krefst grímubúninga á sama hátt og Hrekkjavaka, sem er eiginlega of bandarísk til að ná að slá í gegn á Íslandi. Ekki veit ég hvað ég myndi gera ef einhverjir krakkaormar kæmu heim til mín og heimtuðu nammi. (Ætli ég myndi ekki lemja þá og hringja svo á lögguna, sem myndi koma og berja þá og ég myndi saka þá um að hafa stolið af mér nammi þannig að þeir yrðu að gefa mér allt nammið sitt. Það væru alla vega mín fyrstu viðbrögð. Svo eru ansi margir klikkhausar í umferð. Þeir eru til alls líklegir.) Á Degi sverðsins væri þess vegna hægt að klæða sig eins og samúræji, riddari, hálendingur, sjóræningi eða hvern þann sem berst með sverði.
Það gæti líka orðið hefð að gefa fólki teiknimyndir og teiknimyndasögur og yrði til þess að þessir geirar gætu stækkað sína markaði. Þessar sögur og myndir þyrftu ekki nauðsynlega að fjalla um sverð, ekki frekar en jólagjafir þurfa að tengjast jólunum.
Sjónvarpsstöðvar myndu sýna heimildarmyndir um stríðssögu og kvikmyndir eins og Lord of the Rings, Highlander, Kill Bill og The Sword & the Sorcerer. Möguleikarnir eru óendanlegir. Sverðadagsmatur? Sverðfiskur. Sverðadagsnammi? Sleikjó sem væri í laginu eins og sverð. Sverðadagstónlist?
Ólíklegustu fyrirtæki gætu komið ár sinni vel fyrir borð og markaðssett sína vöru sem Sverðadagsvöru á svipaðan hátt og Coca-Cola markaðssetti kólasveininn rauða og hvíta.
Mikilvægast væri þó að við fengjum langa helgi milli sumars og jóla. Fullorðna fólkið, ekki börnin og alls ekki kennararnir. Þau yrðu náttúrulega að vera í skólanum til að bæta upp fyrir jólafríið.
Hvað finnst ykkur? Það væri auðvitað hægt að hafa öðruvísi hátíð. Eitthvað sem tengist Batman (en það væri kannski of einhæft og of svalt til að láta hálfvita eyðileggja það) eða H. P. Lovecraft eða tímaferðalögum eða gagnkynhneigð. Einhverjar tillögur?
fimmtudagur, 25. september 2008
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
3 ummæli:
Næsta innlegg verður verðlaunainnlegg Hannesar, það kemur vonandi á morgun eða hinn.
En hvað með hátíð þar sem fólk setur upp spænskar wrestling-grímur, sbr. http://images.buycostumes.com/mgen/merchandiser/21037.jpg
og
http://www.tubafrenzy.org/weblog/archives/FinishedMasks.JPG
Væri það ekki svoldið töff?
Svona grímur eru vissulega svalar, en verður það ekki fljótt ansi þreytt?
Skrifa ummæli