laugardagur, 8. september 2007

Móðir Teresa



Hvað var eiginlega svona merkilegt við Móður Teresu? Hún hlaut friðarverðlaun Nóbels fyrir að helga líf sitt því, að hjálpa götubörnum í Calcutta. Það er gott og blessað, en hvernig gat hún gefið líf sem hún hafði þegar gefið Guði?

Þegar hún gerðist nunna gaf hún alla rokkstjörnudrauma sína upp á bátinn, sagði skilið við veraldlegar eigur og holdlega ást. Var það svo mikil fórn að hjálpa einhverjum öðrum í leiðinni? Þessi kvöld sem hún vann frameftir á skrifstofunni án þess að fá borgað, skiptu þau í rauninni einhverju máli? Hún átti engin börn sem biðu eftir mömmu sinni, það var ekkert annað á dagskránni, nema kannski bænastund fyrir svefninn. Að hvaða leyti er hennar gjöf meiri og betri en fórn hinnar venjulegu nunnu? Með hliðsjón af Móður Teresu hlýtur maður að spyrja sig: af hverju eru ekki allar nunnur eins og hún? Er ekki eigingjarnt af þeim að nýta sinn tíma til annars en að hjálpa öðrum?
Svarið er: kannski.

Þeirra tími er nefnilega ekki þeirra eigin. Það er Guðs tími. Hinn himinborni kvennabúrsstjóri er nefnilega mjög gamaldags.
Guð má eiga eins margar konur og honum sýnist.
Þær verða að klæða sig samkvæmt hans óskum.
Þær mega ekki nota farða.
Þær mega ekki fá sér vinnu.
Þær mega ekki eignast börn.
Þær mega ekki eiga sér neitt veraldlegt líf.
Og, já, þær verða að þakka honum fyrir mörgum sinnum á dag.

Hvaða þýðingu hefur það þá, að Móðir Teresa skuli hafa hlotið friðarverðlaun Nóbels? Ég hef tvær kenningar:

1) Nóbelsnefndin vildi skamma nunnur heimsins, fá þær til að gera eitthvað raunverulegt gagn í stað þess að kveikja kerti og ... allt hitt sem nunnur taka sér fyrir hendur. Þetta hafi sem sagt verið alvarleg áminning.

2)Nefndin vildi gefa Guði verðlaunin og Móðir Teresa var eini fulltrúi hinnar einu sönnu kirkju sem hafinn er yfir gagnrýni. Í augum margra er grein eins og þessi jafngildi þess að löðrunga ömmu sína með blautri gólftusku. Svo heilög er hún orðin í hugum fólks. En á Guð skilið að hljóta friðarverðlaun Nóbels? Eftir að hafa lesið nokkra úrdrætti úr Biblíunni er ég vægast sagt skeptískur.

Mín niðurstaða er þessi: Móðir Teresa gaf ekki neitt sem hún hafði ekki kastað frá sér mörgum árum áður. Hennar fórn var engu stærri en fórn þeirra þúsunda kvenna sem ganga í klaustur. Hún hjálpaði ekki fólki af gjafmildi. Hún var bara að drepa tímann milli bænastunda. Sem þjónn hinnar kaþólsku kirkju hefði hún vissulega getið drepið tímann á annan hátt. Hún hefði getað staðið fyrir mótmælagöngum gegn hjónaböndum samkynhneigðra. Barist gegn innrás smokksins í Afríku.

Nú er unnið að því að koma henni í dýrlingatölu, sem ýtir bara stoðum undir mínar grunsemdir varðandi hennar fyrirætlanir. Á okkar tímum hafa bara tvö önnur verið nefnd við dýrlingastatus: Díana prinsessa og Bono. Ég mun taka þau skötuhjúin fyrir í komandi færslum.

Ímynd nunnunar er kerfisbundið fegruð af siðblindum prestum innan kaþólsku kirkjunnar.

Það eru eflaust ófáir sem spyrja: Ef Móðir Teresa var ekki góð, hver er þá raunverulega góður? Nefndu einhvern sem hefur gefið meira.
Ekkert mál.
Bruce Wayne.

Á daginn vinnur milljónamæringurinn Bruce Wayne hörðum höndum við að safna peningum í sjóði sem nýtast til að bæta lífið í Gotham-borg auk þess sem hann veitir þúsundum manna atvinnu. Á næturna (í sínum frítíma) leggur hann líf sitt að veði svo íbúarnir geti gengið óhultir um götur borgarinnar án þess að óttast bófa, þrjóta, þorpara og aðra kóna.

Í stað þess að nota frítímann í að keyra flotta bíla, tæla súpermódel, sniffa kókaín, kaupa stærsta smoothie-blandara í heimi, fylla hann af kavíar, sushi og hárlausum dvergum og allt hitt sem venjulegir milljónamæringar taka sér fyrir hendur, nýtir hann sinn einkatíma til að þjálfa sig andlega og líkamlega til að berjast gegn siðblindustu þorpurum plánetunnar. Bruce Wayne er, ólíkt Móður Teresu, frjáls maður. Frjálsari en flestir, þökk sé peningunum. Engu að síður er hann...

BATMAN!


Og enginn hefur lagt til að gefa honum friðarverðlaunin eða taka hann í dýrlingatölu.

Sanngjarnt?

Engin ummæli: