laugardagur, 27. október 2007

Merkilegt fólk

Ég var að koma frá tónleikum þar sem hljóðfæraleikarar á aldrinum 7-14 ára léku listir sínar. Það er svo sem ekkert í frásögur færandi, krakkarnir stigu á stokk hver af öðrum og spiluðu eftir bestu getu.

Þegar langt var liðið á tónleikana þurfti ég að bregða mér á salernið. Þegar ég kom fram á gang blöstu við mér tveir þéttskipaðir bekkir þar sem sátu hágrátandi börn með foreldrum sínum. Mér fannst þetta ansi merkileg sýn, en í þann mund sem ég var að smeygja mér inn á salernið bar ég kennsl á einn krakkann og fattaði, að þetta væru allt krakkar sem voru búnir að stíga á svið. Mér fannst blessuð börnin taka þessu fullalvarlega. En það þarf náttúrulega lítið til eyðileggja veröld viðkvæmra sála. Ef þau bara vissu, hversu lítinn áhuga fullorðna fólkið hafði á þeirra getu...

Þegar ég var svo á leiðinn til baka í sætið, varð mér hins vegar litið ofan í stílabók sem einn af fullorðnu gestunum hafði í fanginu. Þar hafði hann skrifað:

Nr 11 (klarinett)
Framkoma: Viðvaningsleg
Spilageta: Hlægileg
Klæðnaður: Viðeigandi

Nr 12 (píanó)
Framkoma: Barnaleg
Spilageta: Fyrir neðan allar hellur (verstur af sjö ára krökkunum)
Klæðnaður: Eins simpansi í smókingjakka

Nr 13 (píanó)
Framkoma:
Spilageta:
Klæðnaður: Dræsulegur, mjög óviðeigandi

(Hann var að skrifa eitthvað í spilagetu á sömu stundu og ég gekk framhjá)

Hver gerir svona? Og hvers vegna? Var þetta kannski blaðamaður?

Hann minnti mig á annan furðufugl sem ég rakst á í matvöruverslun hér um daginn. Það var músagrár, úfinn, miðaldra maður með augabrúnir eins og tvö lítil fuglshreiður. Hann er týpan sem gengur um með málband í vasanum öllum stundum og notar bílinn sinn sem einn stóran verkfærakassa. Dóttir hans kemur til hans með tvo geisladiska og réttir honum án þess að segja neitt. Þá tekur hann upp málband (aha!) og mælir lengd, breidd og hæð á báðum geisladiskum áður en hann segir: Ókei.

Ég hef aldrei séð neitt jafn merkilegt allt mitt líf. Þetta voru ósköp venjuleg geisladiskahulstur. Í nákvæmlega sömu hlutföllum og öll önnur geisladiskahulstur. Af hverju, af hverju, af hverju þurfti hann að mæla þau? Og hvers vegna þurfti hann að mæla þau hvert fyrir sig? Hann hlýtur að hafa séð að þetta voru jafnstór hulstur. Eða er þetta spurning um millimetra? Mig langar svo að vita það. Ég hefði átt að spyrja hann. Þetta heldur fyrir mér vöku.

Sem minnir mig á þriðja merkilega atburðinn. Ég stend í biðröð. Fyrir framan mig stendur ungt par á mínum aldri. Strákurinn talar í síma:
Hann: Já, já, allt í lagi, bless
(Leggur á)
Hún: Var þetta Marie?
Hann: Já.
Hún: Bað hún að heilsa mér?
Hann: Nei.
Hún: Hún vissi samt að ég stend við hliðina á þér.
Hann: Já, ég minntist á það strax í byrjun.
Hún: Týpískt.

???

þriðjudagur, 23. október 2007

Leyndardómar himingeimsins

Það skiptir ekki máli hversu lengi þú þarft að vinna, vertu viss um að eyða tíma með fjölskyldunni. Góð stund í faðmi hennar læknar allt.

Það er göfugt að halda sig við áætlun - nema þegar hún er hreint og beint heimskuleg. Sem betur fer ertu sveigjanlegur og vitur.

Þú sendir frá þér skilaboð. Gerir þú þér grein fyrir hver þau eru? Dagurinn færir þér dýpri skilning á sjálfum þér. Það má alltaf breyta skilaboðunum.

Þú ert hamingjusamur hvar sem þú ert. Það að dvelja veldur þér vandræðum. Skipuleggðu þig heima fyrir og haltu áfram að vinna.
Þetta eru allt dæmi úr stjörnuspá dagsins af mbl.is.

Lengi vel velti ég því fyrir mér hver læsi eiginlega stjörnuspána (og tæki mark á henni). Það hlýtur að vera talsverður fjöldi fólks, enda hefur þetta verið fastur liður í Mogganum síðan ég man eftir mér. Spáin þykir nógu mikilvæg til að eiga fastastað á netsíðunni, þótt hún sé morandi í stafsetningarvillum.

En í dag spurði ég sjálfan mig:

Hver semur stjörnuspána?

Ég sé höfundinn fyrir mér sem úfinn prófessor sem situr við risavaxinn stjörnukíki tímunum saman og hrópar svo allt í einu upp yfir sig:

Jeremías mildi!
Svo klifrar hann í hasti niður stigann og hleypur að skrifborði þar sem hann byrjar að hamast á mors-sendi:

Ljón: Forðastu að taka stórar ákvarðanir sem gætu haft langtímaáhrif á þig og fjölskyldu þína. Það gæti haft alvarlegar afleiðingar. Ég endurtek: Alvarlegar afleiðingar!
Lukkutölur: 4, 76 og 342.
Segjum sem svo að forstjóri einhvers fyrirtækis réði stjörnufræðing sem rekstrarráðgjafa. Með hliðsjón af spánni fyrir fiskana í dag,

Hugur þinn skýtur myndum og minningum út í loftið á milljón kílómetra hraða. Þú þarfnast penna og blaðs stöðugt til að koma snilli þinni niður á blað.
myndi stjörnuspekingurinn ráðleggja forstjóranum að setja alla sem fæddir eru í fiskamerkinu saman í eitt herbergi þar sem þeir ættu að breinstorma nýjar hugmyndir fyrir rekstur fyrirtækisins? Væri það ekki frekar lógískt?

En ég spyr aftur: Hver semur þetta? Trúir hann/hún þessu sjálf(ur)? Getur hann/hún séð í stjörnukortinu að allir þeir sem eru fæddir milli 20. janúar og 18. febrúar ættu að hugleiða að taka sér pásu frá sambandinu?

Ég endurtek: Allir þeir sem fæddir eru í vatnsberamerkinu ættu að hugleiða að taka sér frí frá maka sínum. Af hverju? Jú vegna þess að:

Gerður er úlfaldi úr mýflugu.
Þótt ekki sjáist til botns í gruggugum pollum, er ekki þar með sagt að þeir séu djúpir.

Plastpoki segir meira en þúsund orð

Plastpoki frá matvörukeðjunni ICA:



Athugum þetta aðeins nánar:


Og hvað skyldi vera í pokanum?

Frosin pizza...


... og flaska af Farris (sódavatn).

Við lifum á merkilegum tímum þegar plastpokar geta hæðst að lífi okkar og fyllt okkur sjálfshatri.

sunnudagur, 21. október 2007

Saman gegn siðblindu

Hér er sjaldséð auglýsing sem berst gegn siðblindu. Mæli með því að fólk taki boðskapinn til sín.

Ljótt og merkingarlaust málfar?

Geggjuð hárgreiðsla, félagi!

Takk, melur. Ég fékk hana á Rakarastofu Egils og Arnar.

Hún hlýtur að hafa kostað sinn skildinginn, kumpáni.

Nei, brósi. Hún kostaði skít á priki.
Hversu oft höfum við ekki heyrt táninga taka svona til orðs? Við notum svona málfar jafnvel sjálf án þess að hugsa okkur tvisvar um. Þess vegna er löngu orðið tímabært að einhver spyrji:

Hvaðan er orðatiltækið skítur á priki komið?

Þótti það einhvern tíma við hæfi að greiða fyrir vörur eða þjónustu með því að skíta á prik?

Í hverju felst notagildi skíts á priki? (Fjölnota áburður sem hægt væri að flytja milli blómapotta?)

Hver er munurinn á skít á priki og kúk og kanel?

Erum við að tala um einn kúk og eina dós af kanel, eða er kanelnum stráð yfir kúkinn?

Af hverju myndi einhver strá kanel yfir kúk? Af hverju?!

Mig langar að komast til botns í þessu máli. Það þýðir ekki að slengja svona ljótu málfari kringum sig án þess að það hafi einhverja þýðingu. Hversu mikils virði er skítur á priki? Er hann dýrari eða ódýrari en kúkur og kanell?

Hvar er hægt að fá svar við þessum spurningum?

Svar: Á Ebay. Ef einhver er tilbúinn að gera þessa tilraun mun sá/sú hljóta æðsta virðingarvott þessarar vefsíðu: Ég mun hneigja mig á (einstaklega) þýðingarmikinn hátt, sérsniðnum að einstaklingnum.

Afsökunarbeiðni

Ég biðst velvirðingar á fjarveru minni frá þessu bloggi, en ég hef verið önnum kafinn við hitt og þetta í nýja húsinu mínu. Ég mun reyna að vera virkari héðan í frá, síðan það versta er yfirstaðið.

miðvikudagur, 10. október 2007

Af köttum og kossum

Mest lesna fréttin á mbl.is ber yfirskriftina: Vakin með kossi fimm að morgni. Ég smellti á hana og komst að því að þetta var grein um konu sem er víst vakin af nágrannakettinum á hverjum morgni. Eða, reyndar er hún alltaf komin á fætur þegar kötturinn kemur í heimsókn og gefur henni koss. Þannig að fyrirsögnin á með öðrum orðum engan rétt á sér.

Ég las nú ekki lengur en fyrstu efnisgreinina, en ég efast einhvern veginn um að fréttin hafi orðið bitastæðari eftir því sem á leið. Er virkilega svona lítið í fréttum?

Það sem er fáránlegast við þetta allt saman er sú einfalda staðreynd, sem virðist gjörsamlega fara fram hjá fréttamanni Morgunblaðsins, að kettir geta ekki kysst. Eingöngu dýr sem hafa varir (eins og menn og dvergar) geta kysst.

Fyrir nokkrum árum sannreyndi ég þessa tilgátu á Ingólfstorginu. Þá gekk ég upp að körlum og konum og kyssti þau fyrirvaralaust á kinnina. Viðbrögðin sem ég fékk voru nánast alltaf þau sömu:

Hættu að kyssa mig, ógeð.

Eftir rúman klukkutíma af kossaflensi prófaði ég að kyssa án þess að nota varirnar. Sá fyrsti sem varð fyrir þeirri upplifun var, af einskærri tilviljun, Guðlaugur Þór Þórðarson (en hann þykir vera einstaklega kyssilegur í mínum vinahópi). Þegar ég nuddaði samanherptum vörunum að honum gretti hann sig og spurði:

Hvað ertu eiginlega að gera?

Ég er að kyssa þig, sagði ég.

Þetta var ekki koss, svaraði hann á móti. Þetta er koss, sagði hann og skellti einum rennblautum beint á túlann. Það fór um mig fiðringur.

Þegar ég set á laggirnar mína eigin stjórn eftir byltinguna mun Guðlaugur vera munúðarráðherra, en hann verður þá fyrst að skipta um nafn. Hann mun heita Kyssinger.

mánudagur, 8. október 2007

The Master, það er ég.

Ég hef verið syndsamlega fjarverandi undanfarið, en geri mitt besta til að bæta úr því. Einn helsti tímaþjófurinn þessa dagana er minn eiginn lærlingur í vinnunni. Hann er átján ára og, líkt og jafnaldrar hans, finnst ekki ein sjálfstæð hugsun í kollinum á blessuðum drengnum. Hann er ágætur, ég vil ekki vera vondur við hann enda hefur hann hjartað á réttum stað, en déjoð getur verið þreytandi að segja sömu fimm-sex hlutina mörgum sinnum á dag.

Ég veit hversu leiðinlegt það er að lesa um annarra manna vinnu, þannig að ég ætla ekki að drepa ykkur úr leiðindum með smáatriðum, heldur birta nokkra samtalsbúta í algebruformi:

Fyrsta dæmi:

Ég: Ekki gera B, C eða D. Gerðu A.
Strákur: Allt í lagi.

(Fimm mínútur líða. Strákurinn gerir B.)

Ég: Nei, ekki gera B. Gerðu A.
Strákur: Allt í lagi.

(Fimm mínútur líða.)

Strákur: Á ég að gera C?
Ég: Nei. A. Bara A. Ekki gera neitt annað en A.
Strákur: Á ég alltaf að gera A?
Ég: Já, alltaf. Ekki hugsa um hitt. Gerðu bara A.

Daginn eftir kem ég í vinnuna hálftíma eftir stráknum og þá er hann búinn að gera B, C, D og Q (!) af fullum krafti allan morguninn.

Annað dæmi:

(Ég reyni að einbeita mér að einhverju, strákurinn eirðarlaus í bakgrunninum.)

Strákur: Hvað viltu að ég geri núna?
Ég: Þú þarft ekki að gera neitt, við erum alveg að verða búnir. Ég þarf bara að ganga frá þessu...
Strákur: Get ég ekki hjálpað þér eitthvað?
Ég: Nei takk, þetta er að klárast.

(35 sekúndur líða)

Strákur: Viltu að ég hjálpi þér með eitthvað?
Ég: Nei takk, vinurinn.
Strákur: Hvað með C? Viltu að-
Ég (á barmi þolinmæðismissis): Allt í lagi, þú getur tekið C og flokkað í stórt annars vegar og smátt hins vegar.
Strákur: Jibbí!

(Nokkrum andartökum síðar)

Strákur: Á ég að flokka þetta í stórt og smátt?
Ég: Já.
Strákur: Hvað á ég að setja það í marga bunka?
Ég: Andvarp.
Strákur: Ha?
Ég: Ekkert, var bara að tala smá íslensku. Tvo bunka, vinurinn. Einn fyrir stórt og einn fyrir smátt.
Strákur: Allt í lagi.

(Mínútu síðar)

Strákurinn: Er þetta hérna stórt eða lítið?
Ég: ...
Strákurinn: ?
Ég: Þér er alvara?
Strákurinn: Ha? Hvað sagðirðu?
Ég: Andvarp.
Strákurinn: Heyrðu, ég skil eiginlega ekki íslensku.

Þriðja dæmi:

Strákurinn: Fáum við borgað aukalega fyrir yfirvinnu?
Ég (þreyttur eftir 11 tíma vinnudag): Ertu að kalla mig hálfvita?

Svona var seinasta vika í hnotskurn. Svo ég sé nú ekki algjör vondikall, þá verð ég að taka það fram, að undir lokin var hann farinn að skilja að maður eigi alltaf að gera A, aldrei B.

(Sumum finnst kannski skrýtið að ég skuli segja andvarp þegar ég andvarpa. Þeim finnst sennilega enn skrýtnara að ég skuli segja rooop þegar ég ropa og hnerr! þegar ég hnerra. Ég hef lengi reynt að segja geisp þegar ég geispa, en það er nánast ómögulegt.)

sunnudagur, 7. október 2007

Fyrir þau sem hafa yndi af góðu bloggi

Vil bara mæla snöggvast með þessu bloggi. Tvímælalaust næstskemmtilegasta bloggið á internetinu (fjórða skemmtilegasta í öllum flokkum).