Sýnir færslur með efnisorðinu Tungumál. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu Tungumál. Sýna allar færslur

þriðjudagur, 21. október 2008

Nöfn

Flestum er eflaust kunnugt að mér hefur fæðst sonur. Sá er enn nafnlaus og ekki að ástæðulausu. Það hefur gengið heldur brösulega að finna viðeigandi nafn fyrir svo myndarlegan dreng. Þrátt fyrir það hef ég verið óþrjótandi uppspretta magnaðra nafna sem hafa umhugsunarlaust verið skotin í kaf. Þess vegna hef ég ákveðið að deila nokkrum tillögum með ykkur, svo þau falli ekki í ónot.

Í fyrstu reyndi ég að selja nöfn sem bera með sér mikilmennsku og gerfileik en voru að sama skapi alþjóðleg:

Maximillian Antonius Guðmundsson
Æschylos Guðmundsson
Kreator Guðmundsson
Wolfgang Herbert von Djupvik Guðmundsson

Þetta þótti víst of útlenskt, þannig að ég sneri mér til norrænnar hefðar og skeytti lýsingum inn í nöfnin:

Grímur hinn grái Guðmundsson
Reginn loðni Guðmundsson
Svarti-Hrólfur Guðmundsson
Brynjar eineygði Guðmundsson

Svo var Dagmar líka úr sögunni, enda er það kvenmannsnafn. Ég fékk það endanlega staðfest þegar ég kynnti mér sögu þess, en það varð til í Danmörku einhvern tíma á miðöldum. Þá hafði danski kóngurinn kvænst tékkneskri prinsessu sem hét Dragomir (sem ég hefði haldið að væri karlmannsnafn). Danska hirðin og almenningur gátu hins vegar ekki borið fram þetta nafn, slátruðu því gjörsamlega, þannig að úr varð: Dagmar. Þá varð Dragomir reið:



Annars voru það ótal flott nöfn sem féllu í valinn. Snákaþemað kom einhvern veginn aldrei til greina þannig að eitursvöl nöfn eins og Cató Cobra Guðmundsson og Anaconda Guðmundsdóttir munu aldrei líta dagsins ljós. Önnur þemu sem ekki komu til greina:

Klassísk Rokklög (Eina lagið sem ég þekki sem tengist mínu nafni er Gvendur á eyrinni-hversu glatað er það? Hversu svalt væri að eiga sitt eigið lag sem bæri frábærum smekk foreldrana vitni? Suzanne Guðmundsdóttir, Vera Lynn Guðmundsdóttir, Eliza Day Guðmundsdóttir, Layla Guðmundsdóttir, Cocaine Guðmundsson, Sgt. Pepper's Lonely Hearts Club Band Guðmundsson)

Vélmenni
(G-Unit 2.0)

Manowar
(Son of Steel Guðmundsson)

Það verður spennandi að sjá hvað loksins hlýtur náð fyrir þessum dómstólum meðalmennskunnar. Ætli Jón Jónsson Guðmundsson sé of róttækt?

Annars dreymdi mig reyndar fyrir nokkrum vikum, að nafnið ætti að vera Malastnenín. Ég held að það myndi passa jafn vel fyrir stráka og stelpur. Kannski ekki jafn vel fyrir lesblinda.

Aukapæling: Hvernig skyldi það vera að leita að myndum af "ugly woman" á Google og sjá kærustuna sína birtast meðal fimm fyrstu niðurstaðnanna?

Aukaaukapæling: Niðurstöðurnar fallbeygjast asnalega.

fimmtudagur, 10. júlí 2008

Erum við dæmd til að vera hallærisleg?

Hvað er svalt? Geta Íslendingar nokkurn tíma verið raunverulega svalir? Ég hef aldrei heyrt Íslending viðurkenna að sér þætti annar Íslendingur svalur. Þegar ég heyri íslenskan lagatexta þar sem söngvarinn reynir að sannfæra mig um að hann sé harður karl og svaka töff, ranghvolfi ég augunum. Sumt er ekki hægt að segja nema í kaldhæðnistón. Þetta virðast flestir gera sér grein fyrir.

Móri var fyrsti íslenski glæparapparinn. Hans textar fjölluðu ekki um erfiðan uppvöxt í gettói efra Breiðholts, heldur grínaðist hann með línur eins og:
Aldrei framar mun ég bera hlekki
Ég einfaldlega get það ekki
Hvað myndi gerast ef raunverulegir glæpamenn myndu fjalla um sína glæpi á opinskáan hátt, án nokkurar kímni eða kaldhæðni? Hvað myndi gerast ef Franklín Steiner, Sólbaðsstofuræninginn og Kalli Bjarni hefðu gert eitthvað á þessa leið:



Myndi fólk gera í buxurnar af hræðslu?

Einhverjir myndu sennilega hneykslast og heimta ritskoðun.

En myndu ekki flestir hlæja sig máttlausa?

Af hverju eru N.W.A. þá svona ótrúlega svalir? Liggur það í tungumálinu? Er íslenskan ófær um að tjá nokkuð svalt? Er það þess vegna sem táningar slá um sig með bandarísku gettóslangri (dæmi: no doubt, word up to tha spites, bling in tha zimzallabim, flipz 'n slipz, okeydokey wit da hokeyblokey og ýmislegt í þeim dúr)?

Hér er forvitnilegt samtal þar sem Stephen Fry tekur fyrir svipaða spurningu: Ef Hitler hefði verið enskur, hefði honum þá tekist að æsa upp Englendinga með lýðskrumi sínu? Býður enskan upp á dramatík af hans sort, eða er hún of kaldhæðin?

sunnudagur, 21. október 2007

Ljótt og merkingarlaust málfar?

Geggjuð hárgreiðsla, félagi!

Takk, melur. Ég fékk hana á Rakarastofu Egils og Arnar.

Hún hlýtur að hafa kostað sinn skildinginn, kumpáni.

Nei, brósi. Hún kostaði skít á priki.
Hversu oft höfum við ekki heyrt táninga taka svona til orðs? Við notum svona málfar jafnvel sjálf án þess að hugsa okkur tvisvar um. Þess vegna er löngu orðið tímabært að einhver spyrji:

Hvaðan er orðatiltækið skítur á priki komið?

Þótti það einhvern tíma við hæfi að greiða fyrir vörur eða þjónustu með því að skíta á prik?

Í hverju felst notagildi skíts á priki? (Fjölnota áburður sem hægt væri að flytja milli blómapotta?)

Hver er munurinn á skít á priki og kúk og kanel?

Erum við að tala um einn kúk og eina dós af kanel, eða er kanelnum stráð yfir kúkinn?

Af hverju myndi einhver strá kanel yfir kúk? Af hverju?!

Mig langar að komast til botns í þessu máli. Það þýðir ekki að slengja svona ljótu málfari kringum sig án þess að það hafi einhverja þýðingu. Hversu mikils virði er skítur á priki? Er hann dýrari eða ódýrari en kúkur og kanell?

Hvar er hægt að fá svar við þessum spurningum?

Svar: Á Ebay. Ef einhver er tilbúinn að gera þessa tilraun mun sá/sú hljóta æðsta virðingarvott þessarar vefsíðu: Ég mun hneigja mig á (einstaklega) þýðingarmikinn hátt, sérsniðnum að einstaklingnum.

sunnudagur, 16. september 2007

Elsku enska dóp

It is better to have loved and lost than to never have loved at all.

Þessi enski málsháttur hefur í gegnum aldirnar verið notaður til að réttlæta hin ýmsu mistök hjartans. En hefur fólk einhvern tíma krufið hann, komist að raunverulegri merkingu hans? Þessi málsháttur hvetur nefnilega til eiturlyfjaneyslu.

Hvernig?

Jú, vegna þess að það er betra að byrja í dópinu og hætta en að hafa aldrei prófað. Þinn reynsluheimur stækkar og þú finnur hamingju um stund. Svo hættirðu í dópinu og gengur gegnum fráhvarfseinkenni. Af og til fellurðu í sama gamla farið, en eftir því sem þú þroskast, skilurðu að dópið/konan gerir þér ekkert gott og að þú munir aldrei finna þessa hamingju sem þú upplifðir í upphafi.

En þetta bara stenst ekki. Að sprauta sig með dópi er eins og að dæla siðblindu beint inn í æðarnar og er á engan hátt sambærilegt því að vera ástfanginn.

Betra væri að útrýma þessum ljóta málshætti og notast frekar við þennan:

It is better to have loved and lost than to be a junkie scumbag.


Orð okkar eru eins og múrsteinar sem nýtast jafnt til að byggja heimili og sundrungarmúra. Gætum þess vegna tungu okkar. Hún getur verið helsta vopn hins illa.