mánudagur, 8. október 2007

The Master, það er ég.

Ég hef verið syndsamlega fjarverandi undanfarið, en geri mitt besta til að bæta úr því. Einn helsti tímaþjófurinn þessa dagana er minn eiginn lærlingur í vinnunni. Hann er átján ára og, líkt og jafnaldrar hans, finnst ekki ein sjálfstæð hugsun í kollinum á blessuðum drengnum. Hann er ágætur, ég vil ekki vera vondur við hann enda hefur hann hjartað á réttum stað, en déjoð getur verið þreytandi að segja sömu fimm-sex hlutina mörgum sinnum á dag.

Ég veit hversu leiðinlegt það er að lesa um annarra manna vinnu, þannig að ég ætla ekki að drepa ykkur úr leiðindum með smáatriðum, heldur birta nokkra samtalsbúta í algebruformi:

Fyrsta dæmi:

Ég: Ekki gera B, C eða D. Gerðu A.
Strákur: Allt í lagi.

(Fimm mínútur líða. Strákurinn gerir B.)

Ég: Nei, ekki gera B. Gerðu A.
Strákur: Allt í lagi.

(Fimm mínútur líða.)

Strákur: Á ég að gera C?
Ég: Nei. A. Bara A. Ekki gera neitt annað en A.
Strákur: Á ég alltaf að gera A?
Ég: Já, alltaf. Ekki hugsa um hitt. Gerðu bara A.

Daginn eftir kem ég í vinnuna hálftíma eftir stráknum og þá er hann búinn að gera B, C, D og Q (!) af fullum krafti allan morguninn.

Annað dæmi:

(Ég reyni að einbeita mér að einhverju, strákurinn eirðarlaus í bakgrunninum.)

Strákur: Hvað viltu að ég geri núna?
Ég: Þú þarft ekki að gera neitt, við erum alveg að verða búnir. Ég þarf bara að ganga frá þessu...
Strákur: Get ég ekki hjálpað þér eitthvað?
Ég: Nei takk, þetta er að klárast.

(35 sekúndur líða)

Strákur: Viltu að ég hjálpi þér með eitthvað?
Ég: Nei takk, vinurinn.
Strákur: Hvað með C? Viltu að-
Ég (á barmi þolinmæðismissis): Allt í lagi, þú getur tekið C og flokkað í stórt annars vegar og smátt hins vegar.
Strákur: Jibbí!

(Nokkrum andartökum síðar)

Strákur: Á ég að flokka þetta í stórt og smátt?
Ég: Já.
Strákur: Hvað á ég að setja það í marga bunka?
Ég: Andvarp.
Strákur: Ha?
Ég: Ekkert, var bara að tala smá íslensku. Tvo bunka, vinurinn. Einn fyrir stórt og einn fyrir smátt.
Strákur: Allt í lagi.

(Mínútu síðar)

Strákurinn: Er þetta hérna stórt eða lítið?
Ég: ...
Strákurinn: ?
Ég: Þér er alvara?
Strákurinn: Ha? Hvað sagðirðu?
Ég: Andvarp.
Strákurinn: Heyrðu, ég skil eiginlega ekki íslensku.

Þriðja dæmi:

Strákurinn: Fáum við borgað aukalega fyrir yfirvinnu?
Ég (þreyttur eftir 11 tíma vinnudag): Ertu að kalla mig hálfvita?

Svona var seinasta vika í hnotskurn. Svo ég sé nú ekki algjör vondikall, þá verð ég að taka það fram, að undir lokin var hann farinn að skilja að maður eigi alltaf að gera A, aldrei B.

(Sumum finnst kannski skrýtið að ég skuli segja andvarp þegar ég andvarpa. Þeim finnst sennilega enn skrýtnara að ég skuli segja rooop þegar ég ropa og hnerr! þegar ég hnerra. Ég hef lengi reynt að segja geisp þegar ég geispa, en það er nánast ómögulegt.)

Engin ummæli: