miðvikudagur, 10. október 2007

Af köttum og kossum

Mest lesna fréttin á mbl.is ber yfirskriftina: Vakin með kossi fimm að morgni. Ég smellti á hana og komst að því að þetta var grein um konu sem er víst vakin af nágrannakettinum á hverjum morgni. Eða, reyndar er hún alltaf komin á fætur þegar kötturinn kemur í heimsókn og gefur henni koss. Þannig að fyrirsögnin á með öðrum orðum engan rétt á sér.

Ég las nú ekki lengur en fyrstu efnisgreinina, en ég efast einhvern veginn um að fréttin hafi orðið bitastæðari eftir því sem á leið. Er virkilega svona lítið í fréttum?

Það sem er fáránlegast við þetta allt saman er sú einfalda staðreynd, sem virðist gjörsamlega fara fram hjá fréttamanni Morgunblaðsins, að kettir geta ekki kysst. Eingöngu dýr sem hafa varir (eins og menn og dvergar) geta kysst.

Fyrir nokkrum árum sannreyndi ég þessa tilgátu á Ingólfstorginu. Þá gekk ég upp að körlum og konum og kyssti þau fyrirvaralaust á kinnina. Viðbrögðin sem ég fékk voru nánast alltaf þau sömu:

Hættu að kyssa mig, ógeð.

Eftir rúman klukkutíma af kossaflensi prófaði ég að kyssa án þess að nota varirnar. Sá fyrsti sem varð fyrir þeirri upplifun var, af einskærri tilviljun, Guðlaugur Þór Þórðarson (en hann þykir vera einstaklega kyssilegur í mínum vinahópi). Þegar ég nuddaði samanherptum vörunum að honum gretti hann sig og spurði:

Hvað ertu eiginlega að gera?

Ég er að kyssa þig, sagði ég.

Þetta var ekki koss, svaraði hann á móti. Þetta er koss, sagði hann og skellti einum rennblautum beint á túlann. Það fór um mig fiðringur.

Þegar ég set á laggirnar mína eigin stjórn eftir byltinguna mun Guðlaugur vera munúðarráðherra, en hann verður þá fyrst að skipta um nafn. Hann mun heita Kyssinger.

3 ummæli:

Jói Ben sagði...

Kannski renndi hann einum frönskum kossi á konuna? Kettir hljóta að geta það.

Annars er ég sammála þér með Guðlaug. Hann kveikir í mér losta (þ.e. munúðarfallar varir hans).

Jói Ben sagði...

Kannski renndi hann einum frönskum á konuna? Kettir hljóta að geta gert það.

Annars er ég sammála þér með Guðlaug. Hann kveikir í mér losta (eða öllu heldur munúðarfullar varir hans).

Guðmundur Jón sagði...

Góður punktur með franska kossinn. En það væri nú bara eins og að stinga tungunni upp í Guðlaug (eða einhvern annan) án þess að varirnar snertust. Er það koss? Lélegur punktur.

p.s. Ég er búinn að laga kommentakerfið þannig að nú munu kommentin birtast jafnóðum.