Múrarnir sem skilja okkar veröld frá botnlausa hyldýpinu, eru gamlir og hrörnandi. Á stöðum sést inn í steypujárnið, kaldur dragsúgur hvín í gegn og myrkrið leitar inn. Myrkur sem þefar uppi sálar, vill gleypa allt sem þykir yndislegt og fagurt. Á þess konar stöðum er vinsælt að reisa kvikmyndahús.
Það er ekki svo erfitt að sjá tengsl bíóhúsa við myrku hliðina. Þar eru engir gluggar. Ljósin eru einatt slökkt nema rétt á meðan fórnarlömbum er smalað inn og út úr salnum. Flestar kvikmyndirnar eru augljóslega gerðar af djöfladýrkendum (meira um það í annarri grein) og þar eiga sér stað táknrænar bókabrennur þegar miðinn (hið eina ritaða mál sem finnst í allri byggingunni) er rifinn sundur af einkennisklæddum verði.
Þessi illska endurspeglast svo í fólkinu sem stígur inn fyrir dyr bíósins. Dula er dregin fyrir andlit þeirra og þau siðblindast í myrkrinu. Þegar þau yfirgefa salinn eru gólfin klístruð og poppkornspokar og sælgætisbréf liggja á víð og dreif. Út úr myrkrinu lympast náhvítir draugar sem píra augun í dagsljósinu.
Já, í bíó á sér stað mikil illskumessa, sannkölluð siðblinduorgía.
Það sem ég hef þó einna helstan meinbug á varðandi bíóferðir, er fólkið sem (í tímabundinni siðblindu) finnur hjá sér yfirþyrmandi löngun til að gefa frá sér hljóð. Þetta fólk hef ég flokkað eftir demonum:
-Fólk sem svarar í farsíma meðan á sýningunni stendur (og tilbiðja þar með Mobilox, hinn myrka prins pirrandi hringitóna og skapara Crazy Frog).
Helst grunaðir:
Táningar.
Siðblindir slökkviliðsmenn á bakvakt.
-Fólk sem þjáist af allt of algengum sálrænum kvilla sem verður til þess að það ruglar saman kvikmyndahúsum og kaffihúsum.
Þetta lýsir sér fyrst og fremst í því, að viðkomandi finnur hjá sér þörf til að spjalla um daginn og veginn, ræða stjórnmál og heimspeki, án þess að láta Dolby/THX græjurnar trufla sig. Þetta fólk tilbiður Linguon, demon hinnar iðandi tungu.
Helst grunaðir:
Táningar.
Blint og heyrnarlaust fólk sem hefur aldrei stigið fæti inn á kaffihús.
Fólk sem situr beint fyrir aftan mig.
-Fólk sem hlær vitlaust (Amusikon, hinn myrki fursti fimmaurabrandarans og hornsófi Spaugstofunnar).
Undirflokkar:
Fólk sem hlær hátt og endurtekur línuna sem þeim fannst svo fyndin (HAHAHA! Would you like some shut the fuck up with your coffee? HAHAHA!).
Helst grunaðir:
Fólk sem situr beint fyrir aftan mig.
Handritshöfundurinn.
Fólk sem hlær augljósum gervihlátri.
Helst grunaðir:
Ungmenni á stefnumóti.
Þessi leikstjóri er akkúrat á minni bylgjulend. Þess vegna finnst mér þessi tiltekni brandari (sem hefði einungis valdið hinum vægasta kipp í munnvikinu hefði hann komið fram í einhverri annarri mynd) svo stórkostlegur, ég fattaði hann betur en allir hinir í salnum, að ég verð bara að hlæja örlítið hærra en venjulega. HAHAHA. Ég er jafn svalur og persóna úr Tarantino-mynd. -týpan.
(Þeir sem vilja sýnishorn af þessari týpu, er bent á að sjá Grindhouse-myndirnar í bíó)
Skáld sem hefur af einskærri forvitni villst inn á bandaríska gamanmynd og þjáist undan þeirri hrópandi mótsögn, að það sé ætlast til þess að hann hlæi að einhverri lágkúru sem hreyfir ekki við sálinni, minnir ekki á gleði og léttleika æskunnar. Í örvæntingu sinni gefur hann frá sér holan, vélrænan hlátur sem smámsaman magnast í grátur og hleypur svo skælandi út úr salnum. Seinna um kvöldið, þegar hann hefur kíkt á kaffihús til að rétta sig við, semur hann ljóð til heiðurs hinum sanna hlátri, hinni sönnu gleði trúðsins. Nákvæmlega tíu árum seinna kaupir hann sér jeppa.
Niðurstöður:
Kvikmyndahús eru musteri villimennskunnar. Ef það væri leyfilegt að hafa með sér hunda í bíó, myndu eigendurnir þrífa upp eftir þá? Ég held ekki. Það myndi frekar leiða til þess að aðrir bíógesti gengju örna sinna undir sætunum. Það er mín kenning.
En hvað getur maður gert þegar maður verður fyrir svo vægðarlausri siðblindni? Einfalt. Þú snýrð þér umsvifalaust að þeim sem truflar þína bíóupplifun og segir: Ég elska þig.
Við högum okkur nefnilega alltaf betur kringum þau sem elska okkur. Það er staðreynd.
þriðjudagur, 4. september 2007
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
1 ummæli:
Thú ert allveg búinn ad gleyma sú sem fer fyrst i rödin inn í Helvíti: Fólk sem er med svo hálátid nammi ad thad sé ekki hægt ad heyra myndina. Thad er tveir adalflokkar, og oft er fólkid flokkad i bædi:
1) Fólk sem finnst kartöfluflögur og einstaklega pökkudu karamellur vera passandi nammi í bíó.
2) Fólk sem finnst thad i lagi ad tyggja med munnin opinn, samt thau munti ekki gera thad annars. "Thetta er jú ekki matur - thetta er nammi. Thad er leyflegt ad borda nammi med munnin opinn. Og af hverju á ég ad loka? Thad er engin sem sér andlítid á mér hérna í myrkrinu."
Skrifa ummæli