þriðjudagur, 29. janúar 2008

Í tilefni Óskarsverðlaunanna

Í kvikmyndunum um Austin Powers lék Mike Myers mörg af aðalhlutverkunum. Þetta hefur gerst í þónokkrum öðrum myndum og vekur yfirleitt gífurlega lukku meðal bíógesta og gagnrýnenda. Þess vegna spái ég því, að einhvern tíma muni verða gerð frábær mynd þar sem einn leikari fer með öll hlutverkin og hlýtur Óskarsverðlaunin í öllum átta flokkum.

John Travolta er ömurlegur. Ég skrifa það aftur: ömurlegur.



Hvað er hann að gera við aumingja Kirk Douglas? Skemmtileg tilviljun (?) að Kirk var sá sem kom því í tísku að vera með rassgat í hökunni, en Travolta hefur hagnast mikið á því. Það er kannski þess vegna sem þeir eru að vefja tungum?

Steven the Seagal er hins vegar svalur. Í hvert sinn sem ég geng edrú inn á bar, rembist ég við að herma eftir þessari senu, en fæ aldrei réttu viðbrögðin. Það fer sérstaklega í taugarnar á fólki þegar ég fer aftur fyrir barinn og byrja að hrinda barþjónunum.

Er það ímyndun í mér, eða fer hann inn á bar og lemur helling af fólki í hverri einustu mynd? Fyrir utan Under Seagal, en hún fjallar um mann sem á ekki efni á hægindastól, heldur lemur þess í stað fólk og sest á það.


föstudagur, 25. janúar 2008

Framtíðin...


...er handan við hornið.

Ringo vs. Paul

Í tilefni af því að George Harrison lést fyrir skömmu, þá varð mér hugsað til hinna tveggja eftirlifandi meðlima The Beatles. Hvor skyldi deyja fyrst, Paul McCartney eða Ringo Starr?



Ég myndi persónulega veðja á þann fyrrnefnda. Ringo hefur verið hamingjusamlega kvæntur Barböru Bach í fleiri áratugi. Paul er hins vegar ekkill, en það minnkar lífslíkur hans talsvert. Síðan hefur hann verið að standa í einkastríði við siðblindan kvendjöful. Það er ekki hollt fyrir mann á hans aldri. Þrátt fyrir grænmetisfæðið og dópleysið, þá er lífsstíll hans ekkert sérlega heilbrigður. Hann er alltaf á tónleikaferðum og að taka upp plötur, en það verður enginn gamall af þess háttar iðju.



Ringo slappar hins vegar bara af, borðar fisk og franskar, heldur partý stöku sinnum og nýtur vímuefna í hófi eins og gamalmenni yfirleitt. Ég spái því þess vegna að Ringo verði seinasti eftirlifandi bítillinn og að máttur, spilageta og vinsældir hinna bítlanna muni flytjast yfir í hann.

Hann mun gefa út sólóplötu sem selst í fleiri eintökum en nokkur bítlaplata og breytir nafni sínu í Ringo the Star. Platan mun bera hið viðeigandi nafn There can be only one.



Þessum nýfengnu hæfileikum mun hins vegar fylgja sá löstur, að Ringo stækkar ekki bara sem listamaður, heldur einnig líkamlega. Það verður til þess að hann verður fljótlega á stærð við Big Ben og þjóðir heimsins sjá sig tilneyddar til að lóga honum þar sem hann étur mat á við lítið Afríkuland. Þessi harmsaga endar svo á því að Ringo the Star reynir að stökkva undan flugskeytaárásum en lendir þá óvart á sporbraut um jörðina. Þar mun hann svífa, frosinn í myrkri himingeimsins og bíða þess að snúa aftur til að hefna sín á mannkyninu.

Hvað haldið þið? Ringo eða Paul?

fimmtudagur, 24. janúar 2008

Hoffman - örlítill viðauki

Var bara að muna eftir einum Simpson-þætti, þar sem Hoffman lék gestahlutverk. Þar lék hann afleysingakennara Lísu. Einhvern veginn tókst handritshöfundunum með snilli sinni að gera það trúverðugt, að kennarinn sé í kúrekafötum í kennslustofunni.



Þetta var eina myndin sem ég fann á netinu, en ég man vel eftir þessum þætti. Þessi maður er eitthvað sjúkur.

miðvikudagur, 23. janúar 2008

Marilyn Manson í viðtali hjá Bill O´Reilly

Hefði haldið að Bill yrði árásargjarnari, en Manson hefur greinilega mjög róandi áhrif á hann. Fannst O´Reilly koma úr hörðustu átt þegar hann setti út á útlit og klæðaburð Mansons. Það er samt greinilegt að hann er bara með fyrirfram ákveðnar spurningar sem hann fylgir ekkert eftir. Það kalla ég lélega fréttamennsku. Hann er samt ekki siðblindur. Og ekki Manson heldur. Þannig að þetta verður ekki lengra í bili.

Sumarið



Ég sakna fallegu augnanna þinna.

þriðjudagur, 22. janúar 2008

Spurning til þess er veit.



Það er eitt sem ég hef verið að velta svolítið lengi fyrir mér. Þegar Jesú fæddist, afmeyjaði hann þá móður sína? Fyrst hún var hrein mey þegar getnaðurinn átti sér stað, þá hlaut meyjarhaftið að vera ósnortið þar til frelsarinn kom í heiminn og rauf sér leið gegnum það, eða hvað? Mig langar eiginlega að vita svarið en ég efast um að það standi skrifað í Biblíunni og ég þori ekki að spyrja prest.

Ég vil taka það fram að það er ekki mér að kenna, að svona spurningar leita á mig. Þær bara gera það. Fyrirgefðu, Guð.

mánudagur, 21. janúar 2008

Frægt fólk og siðblinda. Undantekning eða regla?

Þið sem fylgist með heimsmálunum vitið vel að siðblinda fer vaxandi á vesturlöndum. Nýlegar greinar mínar um rotnar stórstjörnur sýna, svo ekki verður um villst, að risafjölmiðlar heimsins taka þátt í þessu samsæri siðvillunnar. Frægt fólk hefur miklu meiri áhrif á hegðun almennings en stjórnmálamenn (sem eru sjaldnast frægir), samt fá stjörnurnar nánast enga gagnrýna umfjöllun. Þær eru settar á stall og hvert þeirra orð er meðhöndlað sem heilög opinberun.

Það dylst engum sem hefur séð hljómsveitina U2 á tónleikum, að Bono gerir miskunnarlaust grín að þroskaheftum með sviðsframkomu sinni. Samt er þessi maður yfirlýstur snillingur og mannvinur af mikilsvirtu fólki. Ég held meira að segja að Nelson Mandela hafi kysst hann einu sinni (á kinnina reyndar, en samt...).


Hér sést Bono herma eftir öllu því sem Wyclef Jean segir með þroskaheftri röddu.

Það er engin skömm að því að láta blekkjast af glitrinu og glamúrnum. Þessar stjörnur eru yfirleitt umkringdar myndavélum sem dynja á þeim með blikkandi ljósum, en það er ein af mörgum leiðum sem notaðar eru til að dáleiða fólk við yfirheyrslur. Þetta ljósaáreiti verður til þess að grunlaus áhorfandinn heima í stofu trúir því skyndilega að þessi stjarna sé mikilvægari en allt annað í lífi sínu, að hann myndi glaður skipta út lífi sínu fyrir líf þessarar stjörnu. Þannig verður til kúltúr, gegnum fjöldadáleiðingu, þar sem ekkert er mikilvægara en að vera frægur. Áður fyrr voru svipaðar aðferðir notaðar við trúarathafnir og þá sérstaklega þegar nýir biskupar eða páfa voru skipaðir til að undirstrika heilagleika þeirra í hugum fólks.

Nú eru eflaust margir sem lesa þetta sem hugsa sem svo:

Nei, honum getur ekki verið alvara. Vissulega er augljóst að Bono er viðbjóðslegur, en þetta er upp til hópa ágætis fólk.

Er það já? Hvernig væri að taka lítið dæmi úr raunveruleikanum?

Richard Gere er þekktur hjartaknúsari frá Hollywood.



Hann er einna þekktastur fyrir myndir eins og Pretty Woman, An Officer and a Gentleman og American Gigolo. Það vekur strax athygli mína að tvær þessara frægustu mynda hans varpa rómantísku ljósi á vændi, en það var ekki hvatinn að þessum greinarskrifum. Við skulum athuga hvaða mann þessi leikari hefur að geyma og leyfum honum sjálfum að segja frá í eigin orðum.

Richard Gere er yfirlýstur búddisti og einn frægasti búddisti í heiminum. Það er mjög mikilvægt fyrir búddista að vera frægir og mætti lýsa honum sem einum valdamesta búddista heims, en ég læt það liggja milli hluta. Almenningur gerir sjálfkrafa ráð fyrir því að fyrst hann er búddisti, þá hljóti hann sjálfkrafa að vera hið mesta gæðaskinn. Lítum aðeins á það, hvaða skilning Richard Gere leggur í það að vera búddisti:
Búddismi og þjóðernissósíalismi eiga sér marga snertifleti, það er öllum ljóst sem hafa lesið Mein Kampf. Ég meina, virkilega lesið hana með opnu hugarfari.

Ég er ekki rasisti. Ég hata ekki aðra kynþætti, enda er ég búddisti. Ég bara elska hinn aríska kynstofn mjög heitt og vil varðveita hreinleika hans.



Dalai Lama er náttúrulega skáeyg rotta eins og aðrir Asíubúar, en ég virði hann samt. Það mætti eiginlega segja að hann sé heiðursaríi.

Nýnasistar raka af sér hárið. Búddistamunkar raka af sér hárið. Tilviljun?

Hitler var grænmetisæta. Ég er grænmetisæta. Það er bara tilviljun. Eða hvað?
Ég ætla ekkert að leggja út af þessum orðum, læt þau bara standa sem vitnisburð sjúkrar sálar.

Hafið það í huga, að þessum manni er hampað sem mannvini, góðgerðafrömuði og almennt séð frábærum gaur af vestrænum fjölmiðlum. Ég held meira að segja að Nelson Mandela og Dalai Lama hafi einu sinni kysst hann á sitt hvora kinnina.

Þeir kysstu siðblindan mann.

fimmtudagur, 17. janúar 2008

Hvað hét hann nú aftur?

Heyrði skemmtilegan samræðubút í dag:

A: ... og svo dreymdi mig svo skrítinn draum í nótt.

B: Nú?

A: Já, hann var í honum þarna söngvarinn í þarna hljómsveitinni þú veist.

B: Hvaða hljómsveit?

A: Æ, þú veist, hún var rosa vinsæl, gerði Hey Jude og She loves you, yeah, yeah, yeah.

B: ... Þú ert hálfviti.

Cuba Gooding jr.

Ég ætla nú ekki að tjá mig mikið um þennan vægast sagt ofmetna leikara. Það er bara eitt sem kitlar mig svo rosalega varðandi þetta fáránlega nafn hans: Cuba Gooding jr.

Junior.

Pabbi hans hét sem sagt Cuba Gooding og fannst það bara fínt nafn handa syni sínum.

Ég sé skírnina fyrir mér:
Prestur: Og hvað á barnið að heita?

C. G. senior: Hann á að heita það sama og ég.

Prestur: ...ertu viss?

C. G. senior: Já. Ég hata hann.

OMFG! It´s Shaq! Quick, take my picture!

Þrátt fyrir þetta fáránlega nafn, hef ég ekki fundið nein merki þess að hann sé siðblindur. Þess vegna hef ég þetta ekki lengra.

En, í alvöru, hvers vegna er hann að árita körfubolta?

miðvikudagur, 16. janúar 2008

The Hoffer

Ég hef fundið enn eina aðferðina til að koma auga á hálfvita. Þessi aðferð er óskeikul og er einhvern veginn á þessa leiðina:

Þú kíkir inn á myndbandaleigu og stendur þar kyrr í dálítinn tíma. Reyndu að blanda þér sem mest inn í umhverfið (þú getur t.d. lesið Myndir mánaðarins) og hleraðu samtöl fólksins kringum þig. Fyrr en síðar muntu heyra eitthvað þessu líkt:

A: Hvað segirðu um þessa?
B: Kannski. Hverjir eru í henni?
A: Nigel Cunningsforth, Rachel Bloner og Henry Aceton.
B: Hmm ... ég veit ekki...
A: Já, og svo er Dustin Hoffman líka í henni.
B: Nú, er það? Hoffman er alltaf góður.

Ef þú heyrir þessa síðustu línu, þá ertu búinn að finna hreinræktaðan hálfvita. Dustin Hoffman er nefnilega ekki alltaf góður. Hann er vondur og hefur verið það frá blautu barnsbeini.



Hoffman sló í gegn í myndinni The Graduate árið 1967. Það fór lítið fyrir honum í upphafi ferilsins en í kjölfar þess að hann var tilnefndur til Óskarsverðlauna fyrir hlutverk sitt í Midnight Cowboy tveim árum seinna, fóru sögur að kvisast út um hans skítlega eðli.

Midnight Cowboy átti upprunalega að fjalla um spastískan einbúa sem hefur einangrað sig frá umheiminum en kynnist góðhjörtuðum farandsölumanni sem lýsir upp eymdarlega tilveru hans. Jon Voight átti upprunalega að leika einbúann, en Hoffman farandsölumanninn. Það var hins vegar hið rotna innræti Hoffarans sem varð til þess að myndinni var breytt svo gjörsamlega. Jon Voight segir svo frá:

"Ég hafði æft mig í því að leika spastískan einstakling í marga mánuði, fór meira að segja í sérstakar þjálfunarbúðir til að búa mig undir hlutverkið. Ég hélt að ég væri vel undirbúinn. Síðan hófust tökur og ég hitti The Hoffer í fyrsta sinn. Hann virti mig varla viðlits, horfði ekki framan í mig meðan hann talaði við mig.

Svo, þegar ég byrjaði að leika í mínum fyrstu atriðum, þar sem ég var einn í íbúð öryrkjans, þá varð ég var við einhverja hreyfingu út undan mér. Það var Hoffman. Hann stóð þarna í myrkrinu bak við myndavélarnar og var að herma eftir mér. Það var eins og hann væri að gera grín að mér. Þetta truflaði mig alveg rosalega, sérstaklega hvað hann brosti djöfullega, honum fannst þetta svo rosa fyndið, að trufla mig.

Ég sagði John (leikstjóranum) frá þessu og í næstu töku fylgdist hann með Hoffman. En John varð svo hrifinn af frammistöðu Hoffmans, að hann gaf honum hlutverkið mitt! Ég varð náttúrulega öskureiður enda búinn að æfa mig lengi fyrir þetta hlutverk. Það var boðað til neyðarfundar þar sem ég, John, framleiðendurnir, handritshöfundarnir og helvítis Hoffman áttum að ræða framhaldið.

Fundurinn var ekki einu sinni hafinn, við vorum bara nýsestir og vorum að hella kaffi í bolla og svona, þegar Hoffman leggur það til að ég verði látinn leika karlhóru. Og öllum fannst það bara frábær hugmynd! Ég hélt það væri verið að grínast eitthvað í mér en þeir sökktu sér strax í það að endurskrifa handritið og hugmyndirnar flugu manna á milli. Ég þaut hins vegar út og skellti á eftir mér.

Ég mætti á settið daginn eftir enda hafði ég ekki efni á því að ganga frá þessu verkefni. Þá var komið splunkunýtt handrit. Hoffman hafði krafist þess að ég gengi í kúrekafötum! Í New York! Um miðjan vetur!

Ég hef aldrei fyrirgefið honum þetta. Hann hló og gerði grín að mér allan tökutímann. Líf mitt var algjört helvíti. Mér var farið að líða eins og ég væri í raun karlhóra, aðhlátursefni heimsins. Við vorum báðir tilnefndir til Óskarsverðlaunanna og ég segi það satt, hefði hann unnið þau, þá hefði ég drepið hann. Ég hefði hlaupið upp á svið og barið hann til dauða með Óskarsstyttunni.

Vissulega fékk myndin Óskarinn sem mynd ársins og þetta varð grundvöllurinn fyrir mínum ferli, en ég mun bera þess merki alla ævi að hafa leikið á móti þessum mannandskota."



Í kjölfarið lék Hoffman í fleiri vinsælum myndum, t.d. All the President´s Men (1976) og Kramer vs. Kramer (1979). Í þeirri síðarnefndu leikur hann föður sem stendur í skilnaði. Mestan hluta myndarinnar lék hann á móti hinum barnunga Justin Henry. Sá treysti sér ekki út á leiklistarbrautina eftir þessa mynd, enda lagði Hoffman hann í vægðarlaust einelti meðan á tökum stóð. Meryl Streep minntist á það í framhjáhlaupi í viðtali árið 1995, þegar liðin voru nákvæmlega tíu ár frá því að Justin Henry svipti sig lífi:

"The Hoffer var alltaf að endurtaka allt sem strákurinn sagði. Ef hann fór rangt með línurnar, þá hló Hoffman hátt og klappaði. Síðan var hann alltaf að setja út á klæðnaðinn á stráknum. Fékk því meira að segja framgengt að hann yrði klæddur í kúrekabúning hluta myndarinnar. Sá hluti var reyndar klipptur út, en þetta hafði mikil áhrif á barnið, það fór ekki á milli mála.

Hann mætti yfirleitt þrútinn og rauður á tökustað hvern morgunn, greinilega búinn að gráta alla nóttina. Mér blöskraði náttúrulega meðferðin á drengnum, en ég held að Hoffman hafi gert þetta til þess að hjálpa mér að setja mig í spor móðurinnar, sem svínvirkaði náttúrulega. Í myndinni var ég nefnilega að berjast fyrir forræði yfir stráknum og þetta gaf mér nauðsynlega tengingu við veruleikann. Við fengum bæði Óskarsverðlaun og strákurinn var tilnefndur, bara átta ára gamall. Þetta kallar maður ekki illsku, heldur snilligáfu."



The Hoffman hlaut sín næstu Óskarsverðlaun fyrir kvikmyndina Rain man (1988). Sú mynd átti upprunalega að vera létt gamanmynd um tvo vitleysinga í anda Dumb & dumber og átti hún að heita Idiot & Idiot-savant. Handritið gekk undir stórfelldar breytingar meðan á tökum stóð, enda neitaði Hoffman að fara með sínar línur, heldur endurtók bara línurnar hans Tom Cruise og hermdi eftir honum. Byrjaði hann þá hverja línu yfirleitt á orðunum "Sjáið mig, ég heiti Tom Cruise og ..." og svo fylgdi línan í kjölfarið.

Þetta gekk mjög nærri Tom, sem sá sér ekki fært að hella sér út í gamanhlutverk. Honum fannst Hoffman hafa drepið í sér barnslegu einlægnina, sakleysið. Þá var myndinni breytt í drama og fjallaði hún nú af nærgætni um mann sem þjáist af Asperger-heilkenni. Hoffman hlaut Óskarsverðlaunin fyrir frammistöðu sína, en Tom Cruise beið þess aldrei bætur.

Í upprunalegu útgáfu myndarinnar voru þónokkrar nektarsenur en þær voru allar klipptar út vegna þess að enginn hafði hemil á háðsglósum Hoffmans. Hann skemmdi nánast hverja einustu töku með framíköllum og hljóp iðulega á eftir Cruise með blautt handklæði. Þetta andlega og líkamlega ofbeldi (þá sérstaklega háðsglósurnar) leiddi til þess að Tom Cruise fór í sína fyrstu punglyftingu, þá aðeins 26 ára gamall.

Kvikmyndin Outbreak (1995) átti upprunalega að fjalla á nærgætinn hátt um dauðvona alnæmissjúkling sem nýtur stuðnings af góðhjörtuðum lækni leiknum af Hoffman. Skoðanir hans á samkynhneigðum og alnæmi urðu þó til þess að handritinu var breytt daglega og undir lokin var myndin orðin óþekkjanleg. Alnæmissjúklingurinn samkynhneigði var nú orðinn að litlum, veirusýktum apa frá Afríku sem Hoffman lagði allt í sölurnar til að klófesta og drepa. Hann barðist lengi fyrir lokaatriði þar sem hann klæddist kúrekafötum og riði með flokki vopnaðra vísindamanna á eftir apanum þar sem hundahópur myndi loks góma hann og rífa í sundur. Það atriði var hins vegar klippt út úr endanlegu útgáfunni í óþökk Hoffmans.

Það vita það ekki margir, en í upphafi tíunda áratugarins gaf Hoffman frá sér plötu sem hét The Hoffman Cometh. Þar rappaði hann á fornensku og það dylst engum sem les lagalistann, að hér er sjúk sál á ferð. Þar gefur að líta titla á borð við: Darest thou say no, woman?, Up thine, Pope John Paul, auk eina lagsins sem naut einhverra vinsælda, Do the Hoffman. Texti þess lags er með öllu óskiljanlegur, þótt hann sé sá eini sem ekki er saminn á fornensku. Smá brot:
Livin is the flippin, trippin, clippin and the snippin
chippin in the true spot blowjob, quickrob
ribbin in the tripjob, trippin in the slipknot, buying up the cruise - NOT!
rubble in the bubble, I´m down in the trouble
with a couple for the double, don´t be a tubble
pitch off man
ditch cough man
do the Hoffman!
Ef einhverjum tekst að grafa einhverja merkingu upp úr þessari vitleysu, látið mig vita.



Svo við snúum okkur aftur að upprunalegu samræðunum:

A: Já, og svo er Dustin Hoffman líka í henni.
B: Nú, er það? Hoffman er alltaf góður.
C: Nei! Hann er vondur!

Hann er raðníðingur.

Hann er eineltari.

Hann er með kúreka á heilanum.

Hann er búinn að vera lengi á mínum lista.

Hann er siðblindur!

sunnudagur, 13. janúar 2008

Clint Eastwood



Hvað hefur þessi maður eiginlega gert til að vera kallaður frábær? Athugum aðeins málið.

Hann lék í spagettívestrunum (1964-66). Þar var hann vissulega svalur. Góður leikari? Nei, eiginlega ekki. Þessi hlutverk kröfðust núll leikhæfileika. Það þurfti bara mann með rétta lúkkið.

Svo lék hann í einhverjum vestrum næstu árin. Vestrar eru sjálfkrafa afskrifaðir enda eru þeir allir hundleiðinlegir.

Árið 1971 leikur hann svo Dirty Harry í myndinni Dirty Harry. Hún fjallar ekki um barnaperra, heldur löggu sem er svaka töffari. Hún átti upprunalega að heita Dirty Boy, en þeir breyttu nafninu á seinustu stundu í óþökk Clints (!). Ekkert gáfulegt við það.
Sýnir hann leikhæfileika? Er þessi karakter að einhverju leyti frábrugðinn kúrekanum í spagettívestrunum? Nei, Clint bara pírir augun og fer með línurnar eins og rosa hörkutól. Eru það hæfileikar eða færni? Það væri hægt að setja vélmenni í þetta hlutverk, búa til Clint Eastwood búning handa því og enginn myndi sjá muninn.

Árið 1978 leikur hann í sinni skástu mynd, en það er Every which way but loose þar sem hann leikur á móti órangútan-apa. Og apinn er trúverðugri sem manneskja en Clint.

Ári seinna lék hann í Escape from Alcatraz. Ég hef ekki séð hana enda er frekar augljóst hvað gerist í myndinni. Tilfinningalaust vélmenni flýr frá Alcatraz-fangelsi. Þarf ekki að eyða tíma í að glápa á þannig vitleysu.

Síðan leikur hann í helling af myndum þar til, loksins, árið 1989, þegar hann breytir til og tekur að sér hlutverk samkynhneigðs leigubílstjóra í myndinni Pink Cadillac. Eastwood sá þó fljótt eftir að hafa tekið að sér hlutverkið og lét breyta handritinu þannig, að karakterinn hans var ekki lengur hommi heldur einkaspæjari sem átti harma að hefna (og var dauður í sálinni og brosti bara sálarlausu brosi sem varð til þess að börn hlupu úr bíó, hágrátandi). Þess í stað tókst þeim að breyta kádiljáknum í homma. Ekkert smá afrek það.



Síðan lék hann kúrekann Wild Bill Unforgiven í myndinni Unforgiven árið 1992. Það er vestri og þar af leiðandi hef ég ekki séð mér fært að sjá hana ennþá. Clint leikur þar kúreka sem er gamall. Punktur.

Í In the Line of Fire leikur hann lífvörð forsetans sem vorkennir sjálfum sér rosa mikið, en er að öðru leyti eins og kaldur þorskur vafinn í saltar þangtægjur.

Til að útkljá veðmál ákvað hann að gera myndina A Perfect World (1993) þar sem almenningur gat gert það upp við sig hvor væri ömurlegri, hann eða Kevin Costner. Hann hafði reynt slíkt hið sama nokkrum árum áður með myndinni The Rookie (1990), þar sem hann lék á móti Charlie Sheen, en enginn sá þá mynd.
Af titlinum að dæma er þetta mynd sem fjallar um aldraðan garðyrkjumann sem ákveður að láta æskudrauminn rætast og gerast lögga áður en hann deyr. Hann kemst gegnum inntökuprófin og lögregluskólann með hjálp vina og stera og þarf því næst að kljást við nýja félaga sinn. Sá er heitur tappi sem gengur illa að vinna með öðrum. Sá er illa leikinn af Charlie Sheen sem deyr næstum því í lok myndarinnar en verður þess í stað betri manneskja. Í stuttu máli sagt: ömurleg mynd. Held ég.

Árið 1995 krossvendur Clint kvæði sínu og tekur að sér hlutverk ungrar konu í myndinni Bridges of Madison County. Eftir það missti hann sitt svala viðurnefni The Clint og var því breytt í Clint með óákveðnum greini, eða A Clint. Sumir gengu svo langt að kalla hann The Clit, en þar sem snípurinn er miðstöð örvunar og sælu væri varla hægt að hugsa sér fáránlegra rangnefni.
Til þess að afgreiða Bridges of Madison County nægir að segja, að Clint var gjörsamlega ótrúverðugur sem kvenmaður. Meryl Streep hefur viðurkennt það, að hún hafi verið svo djúpt á kafi í dópinu, að hún hafi haldið að hana hefði dreymt þetta allt. Þetta hafi bara verið ein löng martröð. Þegar hún sá myndina loks í bíó dró hún sprautuna úr innanverðu augnlokinu og ákvað að leita sér hjálpar.



Blað brotnaði í leiklistarsögu Clints með þessari mynd. Honum tókst að kreista fram nokkur krókódílatár þegar það var augljóst hversu mikið botnlaust helvíti þessi ræma yrði. Hann hafði ekki lesið handritið þegar hann samþykkti að leikstýra henni. Hann hélt að hún fjallaði um hóp bandarískra hryðjuverkamanna sem ákveða að sprengja allar brýrnar í Madison-sýslu til að tefja framgang breska nýlenduhersins. En svo var ekki.

Í Absolute Power (1997) leikur hann gamlan kall sem brýst inn í Hvíta húsið í upphafi myndarinnar. Það er svo heimskulegt að mér líður eins og ég sé uppdópaður þegar ég reyni að ímynda mér hvað gerist í restinni af myndinni.

Í True Crime (1999) leikur þessi has been leikari has been blaðamann sem er á seinasta sjens hjá yfirmanni sínum, James Woods. Það er bara einn góður punktur í allri myndinni. Þá er James Woods að skamma Clint. Segir að borgarstjórinn vilji fá rassinn hans Clint:

Look, if he comes to me for your ass, I'm going to have to give it to him. Then you'll just be a hole, with no ass around it.


Clint ákvað svo að fagna árinu 2000 með því að leika kúreka enn eina ferðina. Kúreka í geimnum. Með kúrekavinum sínum, Donald Sutherland, Tommy Lee Jones og gaur sem ég gæti flett upp á IMDb, en enginn þekkir hann hvort eð er, þannig að ég ætla að spara mér ómakið. Hét þessi mynd einhverju fyrirsjáanlegu eins og Cowboys in Space? Nei, hún hét Space Cowboys. Eyði ekki fleiri orðum í þetta.



Og svo seinast lék hann í Million Dollar Baby árið 2004. Þessi mynd ber sennilega ábyrgð á fleiri dvd-diskum á öskuhaugum heimsins en allar Police Academy myndirnar samanlagt. Í þessari mynd þjálfar hann konu til að boxa, beitir svona tough love, svo hálsbrotnar hún og hann hjálpar henni að deyja. Hann hefði getið stytt myndina um tvo klukkutíma með því að taka upp mynd af sjálfum sér þar sem hann segir áhorfendunum um hvað sagan fjallar. Svo gæti Morgan Freeman komið inn í myndina og faðmað Clint og sagt eitthvað krúttlegt og verið sætur eins og alltaf. Þegar hann hverfur af skjánum, hvíslar Clint til áhorfendanna: Hann er alnæmissjúkur.



Þetta er semsagt leikferill Clints Eastwood í hnotskurn. Leikstjórnarferill hans hefur verið með þvílíkum eindæmum slappur að ég hef ákveðið að myndirnar hans munu héðan í frá heita Fíaskó 1, 2, 3, ... 30. Ég tek glaðlega á móti hverjum þeim mótrökum sem lesendur hafa fram að færa, þó þeim fylgi náttúrulega sá sleggjudómur að viðkomandi hljóti að vera blindur og heyrnarlaus auk þess að þjást af sníkjudýrum í heila.

Hvaða niðurstöður má draga af þessari upptalningu?

The Eastwood hefur ekki leikið í góðri mynd seinustu fjörutíu árin.

Hann hefur jafn fjölbreytt litróf svipbrigða og manneskja sem er að jafna sig eftir heilablóðfall.

Hvað myndi gerast ef hann félli í beljandi stórfljót? Myndi hann hrópa á hjálp? Hefur hann einhvern tíma hrópað? Getur hann hrópað? Myndi hann kannski bara píra augun og hvísla hásum rómi: I´m over here, dammit.

Nei, það vefst engum sem hefur smávægilegan vott af mannlegum tilfinningum og innsæi, að The Clintster er siðblindur. Hann notar sennilega Óskarsstytturnar sínar sem líflausa áhorfendur í brengluðum kynlífsleikjum með sebrahestum, mormónum, Charlize Theron, Cuba Gooding jr., Faye Dunaway og öðrum leikurum sem heita asnalegum nöfnum.

Clint, þú ert kominn á listann minn.

mánudagur, 7. janúar 2008

Bókasafnsfyrirbæri


Þá er ég kominn aftur úr útlegðinni og hafði með mér fulla tösku af íslenskum bókum. Þær eru nú komnar í einn svakalegan sarp bóka sem ég ætla mér að lesa. Til þess að ná utan um óreiðuna hef ég leitað á náðir Librarything.com, en það er heimasíða sem heldur utan um bókasöfn fólks. Þar hef ég nú þegar sett inn nokkrar bækur og dæmt þrjár þeirra.

Á næstu dögum ætla ég svo að skrásetja þær bækur sem ég á eftir ólesnar í bókasafni mínu og vinna svo markvisst á þessu bókfelli. Þið sem hafið einhvern perverskan áhuga á lestrarvenjum mínum, getið skoðað bókasafnið mitt. Ég bið ykkur þó að athuga að ég les í skorpum, þannig að bið gæti orðið á nýjum bókadómum.

Ef þið þurfið nauðsynlega álit mitt á bókum eða öðru sem viðkemur smekk, sendið mér línu og ég skal kíkja á þetta. Smekklaust fólk þarfnast nefnilega leiðsagnar, það hef ég alltaf sagt. Það mætti eiginlega segja að ég sé nokkurs konar andlegur og líkamlegur leiðtogi smekkfólks. Ekki rugla mér saman við tískulöggur, þær koma og fara. Góður smekkur varir að eilífu. Speki mín er einföld: Það sem mér finnst, er.

Dæmi:

Mér finnst asnalegt að lesa Lord of the Rings bókina eftir að hafa séð myndirnar. Hvers vegna? Jú, vegna þess að það er ekki sjens, ekki minnsti möguleiki, að bækurnar gætu verið jafngóðar og myndirnar. Eins og atriðið í mynd þrjú þegar Orlando Bloom sveiflar sér upp á fílsbak og drepur alla og drepur síðan fílinn, svona atriði er ekki hægt að skrifa í bók. Það segir mér enginn maður. Þetta finnst mér og þess vegna er það svo. Þeir sem eru á móti mér eru, eftir atvikum, afturhaldsmenn, afturhaldskonur, spreðgosar, varmenni, ómenni, durtar og dusilmenni.

Annað dæmi:

Mér finnst Highlander einstaklega góð mynd. Ef hún væri sett á heimsmælikvarða, myndi hún sprengja þann kvarða. Að bera hana saman við hinar svokölluðu stórmyndir kvikmyndasögunnar, væri jafn fáránlegt og að bera saman Miss World og Miss Universe. Þar af leiðandi er Highlander góð mynd.

Ef þú ert ekki sammála, hefurðu annað hvort rangt fyrir þér eða ert leiksoppur illra afla. Kannski búa í þér einhverjar annarlegar hvatir sem hafa blindað þig. Kannski gengurðu erinda stórfyrirtækja, mógúla og gúrúa úr kvikmyndabransanum. Ég veit ekkert um það.

En þú hefur rangt fyrir þér, það vefst engum.