mánudagur, 7. janúar 2008

Bókasafnsfyrirbæri


Þá er ég kominn aftur úr útlegðinni og hafði með mér fulla tösku af íslenskum bókum. Þær eru nú komnar í einn svakalegan sarp bóka sem ég ætla mér að lesa. Til þess að ná utan um óreiðuna hef ég leitað á náðir Librarything.com, en það er heimasíða sem heldur utan um bókasöfn fólks. Þar hef ég nú þegar sett inn nokkrar bækur og dæmt þrjár þeirra.

Á næstu dögum ætla ég svo að skrásetja þær bækur sem ég á eftir ólesnar í bókasafni mínu og vinna svo markvisst á þessu bókfelli. Þið sem hafið einhvern perverskan áhuga á lestrarvenjum mínum, getið skoðað bókasafnið mitt. Ég bið ykkur þó að athuga að ég les í skorpum, þannig að bið gæti orðið á nýjum bókadómum.

Ef þið þurfið nauðsynlega álit mitt á bókum eða öðru sem viðkemur smekk, sendið mér línu og ég skal kíkja á þetta. Smekklaust fólk þarfnast nefnilega leiðsagnar, það hef ég alltaf sagt. Það mætti eiginlega segja að ég sé nokkurs konar andlegur og líkamlegur leiðtogi smekkfólks. Ekki rugla mér saman við tískulöggur, þær koma og fara. Góður smekkur varir að eilífu. Speki mín er einföld: Það sem mér finnst, er.

Dæmi:

Mér finnst asnalegt að lesa Lord of the Rings bókina eftir að hafa séð myndirnar. Hvers vegna? Jú, vegna þess að það er ekki sjens, ekki minnsti möguleiki, að bækurnar gætu verið jafngóðar og myndirnar. Eins og atriðið í mynd þrjú þegar Orlando Bloom sveiflar sér upp á fílsbak og drepur alla og drepur síðan fílinn, svona atriði er ekki hægt að skrifa í bók. Það segir mér enginn maður. Þetta finnst mér og þess vegna er það svo. Þeir sem eru á móti mér eru, eftir atvikum, afturhaldsmenn, afturhaldskonur, spreðgosar, varmenni, ómenni, durtar og dusilmenni.

Annað dæmi:

Mér finnst Highlander einstaklega góð mynd. Ef hún væri sett á heimsmælikvarða, myndi hún sprengja þann kvarða. Að bera hana saman við hinar svokölluðu stórmyndir kvikmyndasögunnar, væri jafn fáránlegt og að bera saman Miss World og Miss Universe. Þar af leiðandi er Highlander góð mynd.

Ef þú ert ekki sammála, hefurðu annað hvort rangt fyrir þér eða ert leiksoppur illra afla. Kannski búa í þér einhverjar annarlegar hvatir sem hafa blindað þig. Kannski gengurðu erinda stórfyrirtækja, mógúla og gúrúa úr kvikmyndabransanum. Ég veit ekkert um það.

En þú hefur rangt fyrir þér, það vefst engum.

Engin ummæli: