sunnudagur, 9. nóvember 2008

Til hamingju, Bandaríkjafólk!



Þið hafið kosið ykkur einkar glæsilegan forseta. Þessi maður er svo myndarlegur og svalur, að ég fyllist lotningu. Þetta er eins og að hafa glansandi sportbíl sem forseta. Ég hef verið að lesa seinni bókina hans (hef verið svolítið lengi að því fyrst ég týndi henni og gleymdi að ég væri að lesa hana og byrjaði að lesa aðra bók) og myndin á forsíðunni fannst mér ekki nógu góð. Hann hefði átt að vera með sólgleraugu.


Talk to the hand, bitch!

þriðjudagur, 21. október 2008

Nöfn

Flestum er eflaust kunnugt að mér hefur fæðst sonur. Sá er enn nafnlaus og ekki að ástæðulausu. Það hefur gengið heldur brösulega að finna viðeigandi nafn fyrir svo myndarlegan dreng. Þrátt fyrir það hef ég verið óþrjótandi uppspretta magnaðra nafna sem hafa umhugsunarlaust verið skotin í kaf. Þess vegna hef ég ákveðið að deila nokkrum tillögum með ykkur, svo þau falli ekki í ónot.

Í fyrstu reyndi ég að selja nöfn sem bera með sér mikilmennsku og gerfileik en voru að sama skapi alþjóðleg:

Maximillian Antonius Guðmundsson
Æschylos Guðmundsson
Kreator Guðmundsson
Wolfgang Herbert von Djupvik Guðmundsson

Þetta þótti víst of útlenskt, þannig að ég sneri mér til norrænnar hefðar og skeytti lýsingum inn í nöfnin:

Grímur hinn grái Guðmundsson
Reginn loðni Guðmundsson
Svarti-Hrólfur Guðmundsson
Brynjar eineygði Guðmundsson

Svo var Dagmar líka úr sögunni, enda er það kvenmannsnafn. Ég fékk það endanlega staðfest þegar ég kynnti mér sögu þess, en það varð til í Danmörku einhvern tíma á miðöldum. Þá hafði danski kóngurinn kvænst tékkneskri prinsessu sem hét Dragomir (sem ég hefði haldið að væri karlmannsnafn). Danska hirðin og almenningur gátu hins vegar ekki borið fram þetta nafn, slátruðu því gjörsamlega, þannig að úr varð: Dagmar. Þá varð Dragomir reið:



Annars voru það ótal flott nöfn sem féllu í valinn. Snákaþemað kom einhvern veginn aldrei til greina þannig að eitursvöl nöfn eins og Cató Cobra Guðmundsson og Anaconda Guðmundsdóttir munu aldrei líta dagsins ljós. Önnur þemu sem ekki komu til greina:

Klassísk Rokklög (Eina lagið sem ég þekki sem tengist mínu nafni er Gvendur á eyrinni-hversu glatað er það? Hversu svalt væri að eiga sitt eigið lag sem bæri frábærum smekk foreldrana vitni? Suzanne Guðmundsdóttir, Vera Lynn Guðmundsdóttir, Eliza Day Guðmundsdóttir, Layla Guðmundsdóttir, Cocaine Guðmundsson, Sgt. Pepper's Lonely Hearts Club Band Guðmundsson)

Vélmenni
(G-Unit 2.0)

Manowar
(Son of Steel Guðmundsson)

Það verður spennandi að sjá hvað loksins hlýtur náð fyrir þessum dómstólum meðalmennskunnar. Ætli Jón Jónsson Guðmundsson sé of róttækt?

Annars dreymdi mig reyndar fyrir nokkrum vikum, að nafnið ætti að vera Malastnenín. Ég held að það myndi passa jafn vel fyrir stráka og stelpur. Kannski ekki jafn vel fyrir lesblinda.

Aukapæling: Hvernig skyldi það vera að leita að myndum af "ugly woman" á Google og sjá kærustuna sína birtast meðal fimm fyrstu niðurstaðnanna?

Aukaaukapæling: Niðurstöðurnar fallbeygjast asnalega.

föstudagur, 17. október 2008

Enn ein uppgötvun

Uppáhaldslagið mitt þessa dagana er slagarinn I am a Rock með Simon & Garfunkel, betur þekktum sem Simon & the Garfunkels. Gleðin og sakleysið í tónlist þeirra félaga hefur alltaf höfðað til mín, þannig að mér var brugðið þegar ég raulaði með textanum.

Þetta lag er nefnilega ekkert jákvætt, því er frekar öfugt farið. Eftir á að hyggja er titillinn frekar þunglyndur: I am a Rock (sem er enska og þýðir Ég er steinn). Ég hafði alltaf haldið að lagið fjallaði um mann (annað hvort Simon eða Garfunkel, sennilega báða) sem væri búinn að rokka svo mikið, að hann hefði bókstaflega breyst í stein.

Textinn gefur hins vegar allt annað til kynna:

A winters day
In a deep and dark December;
I am alone,
Gazing from my window to the streets below
On a freshly fallen silent shroud of snow.
I am a rock,
I am an island.
Ive built walls,
A fortress deep and mighty,
That none may penetrate.
I have no need of friendship; friendship causes pain.
Its laughter and its loving I disdain.
I am a rock,
I am an island.

Dont talk of love,
But Ive heard the words before;
Its sleeping in my memory.
I wont disturb the slumber of feelings that have died.
If I never loved I never would have cried.
I am a rock,
I am an island.

I have my books
And my poetry to protect me;
I am shielded in my armor,
Hiding in my room, safe within my womb.
I touch no one and no one touches me.
I am a rock,
I am an island.

And a rock feels no pain;
And an island never cries.

Af þessu að dæma, ætti lagið frekar að heita I am a Goth.

Þetta er samt uppáhaldslagið mitt (þessa dagana). Svo er myndbandið líka töff. Leikstjórinn beindi bara að þeim myndavélinni og sagði þeim að gera eitthvað, hvað sem var. Þarna sjást því Simon og Garfunkel ganga um og tala um hvað leikstjórinn sé mikið fífl:

föstudagur, 3. október 2008

Hann(es) á afmæli í dag

Hver á afmæli í dag? Þýskaland! Og Tommy Lee og Gwen Stefani (hún er 39 ára(!) og ekki enn kominn með brjóst, ég fer að gefa upp vonina bráðum). Svo á Hannes líka afmæli.

Í tilefni dagsins vil ég hvetja Jóhannes til að ganga upp að ljótum húsvegg, illa máluðum og skemmdum, og hrópa að honum: Der Mauer muss weg! Hannes uber alles!

Til hamingju með daginn, Hannes.

sunnudagur, 28. september 2008

Sofia Coppola og T-2

Margir klóra sér eflaust í hausnum yfir fyrirsögninni á þessari grein. Heiðurinn að henni á Hannes, betur þekktur undir poppnafni sínu, Rock Kid, enn betur þekktur undir uppistandsnafninu Rock Chris, jafnvel betur þekktur undir sprengjunafninu H-Bomb, enn fleiri þekkja hann undir nördanafninu LHC (Large Hannes Collider).

Þegar H-Man stakk upp á þessu umfjöllunarefni, var ég vægast sagt efins. Hvað gætu kvikmyndin Terminator 2: Judgment Day og leikkonan/leikstýran Sofia Coppola: Judgment Daughter átt sameiginlegt? Mér til mikillar furðu tókst mér að grafa upp heilan helling af fróðleik sem IMDb hefur reynt að halda frá almenningi. Það sem á eftir fylgir, eru staðreyndir. Miklu hefur verið fórnað til að færa þessar staðreyndir fram í dagsljósið, en það er mitt verkefni í lífinu að uppljóstra siðblindu, uppræta illsku og uppfræða almenning.



Árið 1990 voru kvikmyndafrömuðir og ímyndarmógúlar Amblin Entertainment á kafi í því, að búa til framhald hinnar geysivinsælu kvikmyndar, The Terminator frá 1984. Allir voru tilbúnir, Arnold hafði nýlokið upprifjunarkúrsi í ensku og Linda Hamilton hafði ekkert borðað nema glerbrot og gaddavír seinustu þrjá mánuði. Þá handleggsbrotnaði James Cameron skyndilega þegar hann féll ofan af bílskúr.

"Það var ógeðslega vont," sagði hann á blaðamannafundi daginn eftir.

Áður en framleiðendurnir náðu að bregðast við, bauðst sjálfur Francis Ford Coppola til að stíga í skarðið. Hann var þá nýbúinn að ljúka tökum á Godfather 3 og framleiðendurnir hugsuðu sér gott til glóðarinnar. Maðurinn var jú viðurkenndur snillingur. Hvers vegna entist hann þá bara í einn dag sem leikstjóri T2? Hvers vegna samþykkti James Cameron að leikstýra 137 mínútna kvikmynd með handlegginn í gifsi?

Nú hrópa flest ykkar á tölvuskjáinn: "Vegna þess að hann vildi láta Sofiu Coppola leika Söruh Connor!"

Það er vissulega rétt í sjálfu sér, en þetta gerðist áður en Godfather 3 kom út og mannkynið hafði ekki enn orðið fyrir leikhæfileikum Sofiu. Nei, það var Francis Ford sem var vandamálið.

Fyrsta tökudaginn mætti FFC nefnilega með nýtt handrit undir arminum. Hér eru nokkrir úrdrættir sem eflaust útskýra ákvörðun mógúlanna:

(Myndin hefst á því að Arnold kíkir út gegnum rimlagluggatjöld.)

Arnold (hugsar):

The future. Shit. I´m still only in the future.

Every time I think I'm going to wake up back in the past. When I was home after my first tour, it was worse. I'd wake up and there'd be nothing. I hardly said a word to my wife until I said yes to a divorce. When I was here I wanted to be there. When I was there, all I could think of was getting back into the past.

I've been here a week now. Waiting for a mission, getting softer. Every minute I stay in this room I get weaker. And every minute John Connor squats in the past he gets stronger. Each time I look around the walls move in a little tighter.

Everyone gets everything he wants. I wanted a mission, and for my sins they gave me one. Brought it up to me like room service.

Framleiðendurnir urðu strax mjög skeptískir eftir þessar allra fyrstu línur. Á spássíuna skrifuðu þeir tvær spurningar:

Hefurðu séð fyrri myndina?

og

Hefurðu séð Apocalypse Now?

En það átti bara eftir að versna:



John Connor: This is weird. The other robot sent me fish in the mail.

Arnold: Your fosterparents are dead.


Spássíurnar eru útkrotaðar af athugasemdum og spurningum fram að síðu 30, en þá virtust þeir hafa gefist upp.

Póstmaður: I´ve got a delivery for Mr John Connor from Mr T-1000.

John Connor: What is it?


Póstmaður: It´s a freezer box full of fish.


Arnold (þrífur í Póstmanninn): What kind of fish?


Póstmaður: Halibut.

Arnold (snýr sér að John Connor): Your fosterparents are dead.

John Connor: I know.


Seinna:



Arnold: What is wrong with your eyes?

John Connor (með tárvot augu): Nothing.


Arnold: They are malfunctioning. Let me squeese them out of your skull and replace them with small rocks.

John Connor: No, don't. I´m just crying. Don´t terminators ever cry?


Arnold: Negative. We tuhminate.


John Connor: Then what do you do when you feel blue and just want to crawl up under a blanket and watch a sad movie.


Arnold: I tuhminate.


John Connor (öskrar): What kind of a machine are you? Don´t you have any feelings at all?


Arnold: You seem to be experiencing psychological problems. Let me squeese out your brain and replace it with a rock.


T-1000 (vonda) vélmennið er álíka vel gefið og brauðrist og JC og Arnold tekst að tefja það með því að stilla því fyrir framan spegil.

T-1000: What´re you looking at? Talkin' to me? I said, are you talkin' to me? I don't see anyone else here. You talkin to me, huh?



Seinna:

Sarah Connor (Sofia Coppola): He´s the terminator, too.

John Connor: I know.

Seinasta atriðið:

Arnold: I know now why humans cry.

Sarah Connor (grátandi): You do?


Arnold: Affirmative. It has something to do with smell.


Sarah Connor: Why do you say that?


Arnold: Because your acting stinks.

(Arnold og John Connor háfimma hvorn annan.)


Francis Ford hefur ávallt staðið vörð um frammistöðu Sofiu í Godfather 3 og sagt hana vera vanmetna og að hún hafi betri skilning á persónunni en almenningur og gagnrýnendur. Hér er þó sjaldséð heimild um gremju Francisar í garð dóttur sinnar.

Framleiðendurnir hringdu umsvifalaust í James Cameron og lásu nokkrar línur fyrir hann. James beið ekki boðanna, heldur var hann mættur í vinnuna daginn eftir. Handritinu var fleygt ofan í djúpan pytt þar sem það lá óhreyft í 18 ár. Francis snéri sér hins vegar að heillavænlegra verkefni, en það var Bram Stoker´s Dracula.

Það er þó ekki þar með sagt, að sagan endi hér. Árið 2002 tókst Sofu Coppola að lauma sér bakdyramegin upp í leikstjórasætið við myndina Terminator 3: Rise of the Machines. Nokkrum dögum seinna var hún vinsamlega beðin um að hypja sig. Í staðinn fékk hún að leikstýra Lost in Translation, en þessar myndir voru báðar frumsýndar 2003.



Hvers vegna vildu framleiðendurnir ekki Sofiu við taumana? Kíkjum aðeins á handritið:

John Connor og Claire Danes sitja í aftursæti bíls meðan Arnold keyrir. Þau eru á flótta undan vonda vélmenninu. JC og CD stara út um bílrúðurnar, borgir og náttúra líða hjá.

Claire Danes: Do all robots have the same haircut?

John Connor: That´s a good question.

Tíminn líður og þau reyna að drepa tímann í aftursætinu. John Connor tekur fram ferðaskáksett (með segulmögnuðum taflmönnum).

John Connor: Sometimes I wish my feet were magnetic, so I could stay still for one moment.

Claire Danes: I know what you mean.



Eftir að hafa keyrt alla nóttina staldra þau við á bensínstöð. Arnold dælir á bílinn meðan hin teygja úr sér. Arnold sest inn í bílinn.

John Connor: Come on, we have to keep moving.

Claire Danes: I don´t think I can come with you.

John Connor (hikar): I understand what you mean.

Claire Danes: I know you do.

Þau kveðjast ekki, heldur standa þögul og stara á hvort annað í hálfa mínútu. Arnold ræskir sig á vélrænan hátt. John Connor sest upp í bílinn og þeir keyra af stað. Við sjáum hvar Claire Danes fjarlægist inn í myrkrið þar til hún er alveg horfin og John Connor horfir á næturljósin sem líða framhjá, eitt af öðru.


Þeim sem efast um að þetta hefði orðið afar leiðinleg hasarmynd, er bent á, að þetta var ekki úrdráttur.

Þetta var handritið í heild sinni.

fimmtudagur, 25. september 2008

Hvernig eyðum við eyðimörkinni? Svar: Með nýjum degi.

Ég nýt þess virkilega að vera í sumarfríi. Þó mér líki ágætlega við vinnuna mína, finnst mér ég samt ekki vera herra míns tíma (Lord of Time), nema ég eigi langt frí án nokkura skuldbindinga.

Seinasta sumarfrí fór hins vegar fyrir lítið. Ég hafði unnið mikið fram að fríinu og álagið var orðið jafnmikið og álagið á Batman í lok seinustu Batman-myndar. Þegar ég loksins komst í frí, tók við meiri vinna. Ég þurfti að halda upp á sama brúðkaupið þrisvar sinnum, ferðast til Íslands (Klakann (Skerið (Frón))) þar sem ég þurfti að sinna landkynningum og hitta nokkurn veginn öll skyldmenni og flestalla vini mína á örfáum dögum. Þegar fríinu var lokið, var ég gjörsamlega uppgefinn, þannig að ég ráðfærði mig við dagatalið. Mér varð heldur betur brugðið.

Hvít, rúðustrikuð eyðimörk.

Ekki einn einasti frídagur fram að jólum. Fimm mánuðir af púli framundan og hvað svo? Fullorðnir fá ekki einu sinni almennilegt jólafrí, það tekur því varla að setjast við jólatréið. Flestir opna pakkana sína í bílnum á leiðinni í vinnuna og taka með sér samloku með hangiáleggi og grænum baunum sem þau slafra í sig, rennsveitt og titrandi af stressi. Í skólanum er börnunum kennt að sækja um greiðslufrest og hvernig eigi að fá sem hæsta yfirdráttarheimild. Þannig eru jólin orðin á flestum heimilum. Engu að síður eru þrír mánuðir lagðir undir þessa hátíð, sem tekur í mesta lagi eina viku. Jólalög, jólasveinar, jólaskreytingar, jólanammi og jólaauglýsingar allan sólarhringinn.

Þetta er orðið allt of mikið.

En hvað er til ráða? Það er ekki hægt að banna fólki að nauðga jólunum, það eru margar verslanir sem lifa á jólunum. Þær eru reknar með tapi restina af árinu. Björgvin Halldórsson þarf líka að eiga fyrir salti í grautinn. En eitthvað verður að gera. Ég þekki engan sem þykir þetta viðunandi ástand.

Þetta er mín tillaga:



Við búum til nýja hátíð milli sumars og jóla, einhvern tíma í seinni hluta október. Hátíðin heitir Dagur sverðsins og nær hápunkti á seinasta sunnudegi í október. Hátíðinni fylgja tveir frídagar: föstudagurinn fyrir og mánudagurinn eftir, þannig að úr verður fjögurra daga helgi í miðri dagatalseyðimörkinni.

Hvað er eiginlega Dagur sverðsins?

Á degi sverðsins höldum við upp á bardagalistir og helst þær sem hafa með sverð að gera. Þannig yrði hátíðin nauðsynlegt mótvægi við hátíð ljóss og friðar. Umgjörðin er ennþá frekar óljós og býður upp á fjölbreytileika og mismunandi fjölskylduhefðir. Auðvitað mun markaðurinn stýra því hvernig hátíðin þróast gegnum árin, en það eru ótal möguleikar í stöðunni.

Mér hefur lengi þótt vanta alþjóðlega hátíð sem krefst grímubúninga á sama hátt og Hrekkjavaka, sem er eiginlega of bandarísk til að ná að slá í gegn á Íslandi. Ekki veit ég hvað ég myndi gera ef einhverjir krakkaormar kæmu heim til mín og heimtuðu nammi. (Ætli ég myndi ekki lemja þá og hringja svo á lögguna, sem myndi koma og berja þá og ég myndi saka þá um að hafa stolið af mér nammi þannig að þeir yrðu að gefa mér allt nammið sitt. Það væru alla vega mín fyrstu viðbrögð. Svo eru ansi margir klikkhausar í umferð. Þeir eru til alls líklegir.) Á Degi sverðsins væri þess vegna hægt að klæða sig eins og samúræji, riddari, hálendingur, sjóræningi eða hvern þann sem berst með sverði.



Það gæti líka orðið hefð að gefa fólki teiknimyndir og teiknimyndasögur og yrði til þess að þessir geirar gætu stækkað sína markaði. Þessar sögur og myndir þyrftu ekki nauðsynlega að fjalla um sverð, ekki frekar en jólagjafir þurfa að tengjast jólunum.

Sjónvarpsstöðvar myndu sýna heimildarmyndir um stríðssögu og kvikmyndir eins og Lord of the Rings, Highlander, Kill Bill og The Sword & the Sorcerer. Möguleikarnir eru óendanlegir. Sverðadagsmatur? Sverðfiskur. Sverðadagsnammi? Sleikjó sem væri í laginu eins og sverð. Sverðadagstónlist?





Ólíklegustu fyrirtæki gætu komið ár sinni vel fyrir borð og markaðssett sína vöru sem Sverðadagsvöru á svipaðan hátt og Coca-Cola markaðssetti kólasveininn rauða og hvíta.



Mikilvægast væri þó að við fengjum langa helgi milli sumars og jóla. Fullorðna fólkið, ekki börnin og alls ekki kennararnir. Þau yrðu náttúrulega að vera í skólanum til að bæta upp fyrir jólafríið.

Hvað finnst ykkur? Það væri auðvitað hægt að hafa öðruvísi hátíð. Eitthvað sem tengist Batman (en það væri kannski of einhæft og of svalt til að láta hálfvita eyðileggja það) eða H. P. Lovecraft eða tímaferðalögum eða gagnkynhneigð. Einhverjar tillögur?

mánudagur, 22. september 2008

Staða þessa bloggs

Seinasta þriðjudagsgáta var ansi slöpp, og verður hún þ.a.l. seinasta þriðjudagsgátan.

Þrátt fyrir að hafa rúman mánuð til að svara, stóð Hannes (sem einnig gengur undir rappnafninu Heinouz Krimz) uppi með flesta rétta, eða fimm.

Vonandi fer að kvikna aftur eitthvert lífsmark í þessu bloggi. Ég hef verið fáránlega upptekinn undanfarið, en er vonandi kominn yfir það versta. Ég skulda His Heinousness nokkur innlegg og munu þau hafa forgang. Annars hef ég grafið upp margt misjafnt um þekkta siðvillinga og hlakka til að deila þeim upplýsingum með umheiminum.

Það hvarflaði að mér, að það gæti kannski verið ansi sjálfhverft og siðlaust að láta fólk kíkja inn á síðuna daglega í leit að einhverri lífsfyllingu en þurfa síðan að hverfa frá, tómhent. Þess vegna get ég sent þeim sem vilja, tölvupóst í hvert sinn sem ég gef út nýtt innlegg. Skráið ykkur bara í kommentakerfið, ég hef póstföngin hjá flestum þannig að þið þurfið ekki að deila þeim með umheiminum frekar en þið viljið.