Sýnir færslur með efnisorðinu Kvikmyndir. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu Kvikmyndir. Sýna allar færslur

sunnudagur, 28. september 2008

Sofia Coppola og T-2

Margir klóra sér eflaust í hausnum yfir fyrirsögninni á þessari grein. Heiðurinn að henni á Hannes, betur þekktur undir poppnafni sínu, Rock Kid, enn betur þekktur undir uppistandsnafninu Rock Chris, jafnvel betur þekktur undir sprengjunafninu H-Bomb, enn fleiri þekkja hann undir nördanafninu LHC (Large Hannes Collider).

Þegar H-Man stakk upp á þessu umfjöllunarefni, var ég vægast sagt efins. Hvað gætu kvikmyndin Terminator 2: Judgment Day og leikkonan/leikstýran Sofia Coppola: Judgment Daughter átt sameiginlegt? Mér til mikillar furðu tókst mér að grafa upp heilan helling af fróðleik sem IMDb hefur reynt að halda frá almenningi. Það sem á eftir fylgir, eru staðreyndir. Miklu hefur verið fórnað til að færa þessar staðreyndir fram í dagsljósið, en það er mitt verkefni í lífinu að uppljóstra siðblindu, uppræta illsku og uppfræða almenning.



Árið 1990 voru kvikmyndafrömuðir og ímyndarmógúlar Amblin Entertainment á kafi í því, að búa til framhald hinnar geysivinsælu kvikmyndar, The Terminator frá 1984. Allir voru tilbúnir, Arnold hafði nýlokið upprifjunarkúrsi í ensku og Linda Hamilton hafði ekkert borðað nema glerbrot og gaddavír seinustu þrjá mánuði. Þá handleggsbrotnaði James Cameron skyndilega þegar hann féll ofan af bílskúr.

"Það var ógeðslega vont," sagði hann á blaðamannafundi daginn eftir.

Áður en framleiðendurnir náðu að bregðast við, bauðst sjálfur Francis Ford Coppola til að stíga í skarðið. Hann var þá nýbúinn að ljúka tökum á Godfather 3 og framleiðendurnir hugsuðu sér gott til glóðarinnar. Maðurinn var jú viðurkenndur snillingur. Hvers vegna entist hann þá bara í einn dag sem leikstjóri T2? Hvers vegna samþykkti James Cameron að leikstýra 137 mínútna kvikmynd með handlegginn í gifsi?

Nú hrópa flest ykkar á tölvuskjáinn: "Vegna þess að hann vildi láta Sofiu Coppola leika Söruh Connor!"

Það er vissulega rétt í sjálfu sér, en þetta gerðist áður en Godfather 3 kom út og mannkynið hafði ekki enn orðið fyrir leikhæfileikum Sofiu. Nei, það var Francis Ford sem var vandamálið.

Fyrsta tökudaginn mætti FFC nefnilega með nýtt handrit undir arminum. Hér eru nokkrir úrdrættir sem eflaust útskýra ákvörðun mógúlanna:

(Myndin hefst á því að Arnold kíkir út gegnum rimlagluggatjöld.)

Arnold (hugsar):

The future. Shit. I´m still only in the future.

Every time I think I'm going to wake up back in the past. When I was home after my first tour, it was worse. I'd wake up and there'd be nothing. I hardly said a word to my wife until I said yes to a divorce. When I was here I wanted to be there. When I was there, all I could think of was getting back into the past.

I've been here a week now. Waiting for a mission, getting softer. Every minute I stay in this room I get weaker. And every minute John Connor squats in the past he gets stronger. Each time I look around the walls move in a little tighter.

Everyone gets everything he wants. I wanted a mission, and for my sins they gave me one. Brought it up to me like room service.

Framleiðendurnir urðu strax mjög skeptískir eftir þessar allra fyrstu línur. Á spássíuna skrifuðu þeir tvær spurningar:

Hefurðu séð fyrri myndina?

og

Hefurðu séð Apocalypse Now?

En það átti bara eftir að versna:



John Connor: This is weird. The other robot sent me fish in the mail.

Arnold: Your fosterparents are dead.


Spássíurnar eru útkrotaðar af athugasemdum og spurningum fram að síðu 30, en þá virtust þeir hafa gefist upp.

Póstmaður: I´ve got a delivery for Mr John Connor from Mr T-1000.

John Connor: What is it?


Póstmaður: It´s a freezer box full of fish.


Arnold (þrífur í Póstmanninn): What kind of fish?


Póstmaður: Halibut.

Arnold (snýr sér að John Connor): Your fosterparents are dead.

John Connor: I know.


Seinna:



Arnold: What is wrong with your eyes?

John Connor (með tárvot augu): Nothing.


Arnold: They are malfunctioning. Let me squeese them out of your skull and replace them with small rocks.

John Connor: No, don't. I´m just crying. Don´t terminators ever cry?


Arnold: Negative. We tuhminate.


John Connor: Then what do you do when you feel blue and just want to crawl up under a blanket and watch a sad movie.


Arnold: I tuhminate.


John Connor (öskrar): What kind of a machine are you? Don´t you have any feelings at all?


Arnold: You seem to be experiencing psychological problems. Let me squeese out your brain and replace it with a rock.


T-1000 (vonda) vélmennið er álíka vel gefið og brauðrist og JC og Arnold tekst að tefja það með því að stilla því fyrir framan spegil.

T-1000: What´re you looking at? Talkin' to me? I said, are you talkin' to me? I don't see anyone else here. You talkin to me, huh?



Seinna:

Sarah Connor (Sofia Coppola): He´s the terminator, too.

John Connor: I know.

Seinasta atriðið:

Arnold: I know now why humans cry.

Sarah Connor (grátandi): You do?


Arnold: Affirmative. It has something to do with smell.


Sarah Connor: Why do you say that?


Arnold: Because your acting stinks.

(Arnold og John Connor háfimma hvorn annan.)


Francis Ford hefur ávallt staðið vörð um frammistöðu Sofiu í Godfather 3 og sagt hana vera vanmetna og að hún hafi betri skilning á persónunni en almenningur og gagnrýnendur. Hér er þó sjaldséð heimild um gremju Francisar í garð dóttur sinnar.

Framleiðendurnir hringdu umsvifalaust í James Cameron og lásu nokkrar línur fyrir hann. James beið ekki boðanna, heldur var hann mættur í vinnuna daginn eftir. Handritinu var fleygt ofan í djúpan pytt þar sem það lá óhreyft í 18 ár. Francis snéri sér hins vegar að heillavænlegra verkefni, en það var Bram Stoker´s Dracula.

Það er þó ekki þar með sagt, að sagan endi hér. Árið 2002 tókst Sofu Coppola að lauma sér bakdyramegin upp í leikstjórasætið við myndina Terminator 3: Rise of the Machines. Nokkrum dögum seinna var hún vinsamlega beðin um að hypja sig. Í staðinn fékk hún að leikstýra Lost in Translation, en þessar myndir voru báðar frumsýndar 2003.



Hvers vegna vildu framleiðendurnir ekki Sofiu við taumana? Kíkjum aðeins á handritið:

John Connor og Claire Danes sitja í aftursæti bíls meðan Arnold keyrir. Þau eru á flótta undan vonda vélmenninu. JC og CD stara út um bílrúðurnar, borgir og náttúra líða hjá.

Claire Danes: Do all robots have the same haircut?

John Connor: That´s a good question.

Tíminn líður og þau reyna að drepa tímann í aftursætinu. John Connor tekur fram ferðaskáksett (með segulmögnuðum taflmönnum).

John Connor: Sometimes I wish my feet were magnetic, so I could stay still for one moment.

Claire Danes: I know what you mean.



Eftir að hafa keyrt alla nóttina staldra þau við á bensínstöð. Arnold dælir á bílinn meðan hin teygja úr sér. Arnold sest inn í bílinn.

John Connor: Come on, we have to keep moving.

Claire Danes: I don´t think I can come with you.

John Connor (hikar): I understand what you mean.

Claire Danes: I know you do.

Þau kveðjast ekki, heldur standa þögul og stara á hvort annað í hálfa mínútu. Arnold ræskir sig á vélrænan hátt. John Connor sest upp í bílinn og þeir keyra af stað. Við sjáum hvar Claire Danes fjarlægist inn í myrkrið þar til hún er alveg horfin og John Connor horfir á næturljósin sem líða framhjá, eitt af öðru.


Þeim sem efast um að þetta hefði orðið afar leiðinleg hasarmynd, er bent á, að þetta var ekki úrdráttur.

Þetta var handritið í heild sinni.

laugardagur, 2. ágúst 2008

Hvor myndi vinna, Batman eða Highlander?

Þetta blogg hefur eignast enn eina hetjuna, en það er Batman!



Hann hefur reyndar verið persónuleg hetja mín lengi, en með nýjustu mynd sinni hefur hann hlotið varanlegan heiðurssess í þessu bloggi. Máli mínu til stuðnings bendi ég á gamla grein um hið meinta góðmenni Móður Teresu.

Þessu bloggi hefur einnig áskotnast viðhafnarútgáfa af kvikmyndinni Highlander. Ber hún undirtitilinn The Immortal Edition og kemur í stálhulstri. Eins og flestir vita, endist stál að eilífu meðan plast endist bara í fimmtíu þúsund ár og byrjar þá að brotna niður, hægt en örugglega. Í tilefni af þessari útgáfu hefur Manowar samið lagið Box of Steel. Því miður er það ekki að finna á disknum, en þarna eru þrjár heimildarmyndir, einkaviðtal við Cristopher Lambert og umfjöllun (commentary) í boði leikstjórans, Russell Mulcahy. Sá var að ljúka tökum á kvikmyndinni Zen in the Art of Slaying Vampires, en hún lofar víst góðu ef eitthvað er að marka titilinn.

Annars er allt að verða vitlaust í Þriðjudagsgátunni. Jóhannes og Hannes standa hnífjafnir. Hvor um sig búnir að geta eitt hinna þriggja orða sem mynda titil spilunarlistans. Sá eða sú sem getur upp á þriðja orðinu og púslar öllu saman, mun fara með sigur af hólmi. Það er til mikils að vinna og þess vegna ekki ólíklegt að sveittir fingur muni gegnbleyta lyklaborð næstu daga og nætur.

fimmtudagur, 7. febrúar 2008

Total

Hi, I´m Jane. Who are you?

I´m Total.

Total?

Yeah, I changed it from Maximum.

Ég er byrjaður að vinna að kvikmynd. Hún á að fjalla um svaka töffara sem heitir Total. Hann er harður í horn að taka og lætur ekki hafa sig að fífli. Myndin hefst á því, að hann situr fyrir utan kaffihús við fjölfarna götu í bandarískri stórborg og les bók. Af og til stoppa gangandi vegfarendur til að spyrja hann að hinu og þessu:

1.
Eldri kona: Excuse me, is this seat taken?

Total: Yes it is. You got a problem with that?

2.
Gangandi vegfarandi: Excuse me, do you know what time it is?

Total: Yeah, it´s half past two. You got a problem with that?

3.
Túristi: Pardon me sir, could you please tell me where I can find this address?

(Túristinn sýnir honum blaðsnepil.)

Total (án þess að líta upp úr bókinni): Sure, it´s just around the corner. You got a problem with that?

Túristi: Which corner, please?

Total: Don´t push your luck.

Þetta byrjunaratriði setur tóninn fyrir restina af myndina. Total er harður í horn að taka. Hann er atvinnulaus heimspekingur sem dregst óvænt inn í heim ósvífinna þorpara og glæsikvenda. Söguþráðurinn er ekki alveg kominn á hreint, en hann mun vafalaust snúast kringum það, hvað Total er ótrúlega svalur. Nokkur dæmi:

1.
X: You´re such a dick.

Total: No I´m not. You´re just confused cause your dick tries so hard to be like me.

2.
Total: Have you ever seen those pre-operative trans-sexuals? You know, the ones that look exactly like chicks except they´ve still got all the bits and pieces dangling between their legs.

X: Uh, sure, shemales. Why?

Total: You look like the exact opposite of that.


3.
X: What time is it?

Total: It´s nine thirty.

X: How do you know? You didn´t even look at your watch.

Total: I don´t own a watch. You got a problem with that?


4.
X: What are you doing?

Total: I´m beating the crap out of the last person that asked me a stupid question.

X: No, you´re not.

Total: I know. I just like to think two steps ahead.


5.
Total: This reminds me of something Socrates once said.

X: What was that?

Total: That your mom should´ve had an abortion.

Dömurnar munu dýrka Total:

6.
Total: Whoah! Did you piss your pants or are you just pleased to see me?

7.
Total: You shouldn´t carry anything heavy while you´re pregnant. The strain might make the baby shoot out of you and break it´s skull on the pavement.

Y: Will you help me, then?

Total: Do I look like your bitch?

8.
X: Who the fuck are you and what the fuck are you doing in my house?

Total: I´m Total and I just gave your wife a multiple orgasm.

X: What?!

Total: Listen pal, you don´t want to test my patience. I´ve got a black belt in explaining stupid crap to dumb shits.

Að lokum kemur að því að hann þarf að kljást við vonda kallinn, en hann er algjört illbermi og ómenni:

9.
Vondi kall: You think you´re pretty hot shit, don´t you?

Total: Where there´s smoke, there´s hot shit.

Vondi kall: Fuck you, asshole! You can suck my dick!

Total: What, like, with my mouth? That sounds disgusting. You´re sick.

En hver ætti að leika Total? Og hvað á myndin að heita? Mér hefur bara dottið eitt nafn í hug, Awesome: The Total Story.

Allar tillögur eru vel þegnar.

þriðjudagur, 29. janúar 2008

Í tilefni Óskarsverðlaunanna

Í kvikmyndunum um Austin Powers lék Mike Myers mörg af aðalhlutverkunum. Þetta hefur gerst í þónokkrum öðrum myndum og vekur yfirleitt gífurlega lukku meðal bíógesta og gagnrýnenda. Þess vegna spái ég því, að einhvern tíma muni verða gerð frábær mynd þar sem einn leikari fer með öll hlutverkin og hlýtur Óskarsverðlaunin í öllum átta flokkum.

John Travolta er ömurlegur. Ég skrifa það aftur: ömurlegur.



Hvað er hann að gera við aumingja Kirk Douglas? Skemmtileg tilviljun (?) að Kirk var sá sem kom því í tísku að vera með rassgat í hökunni, en Travolta hefur hagnast mikið á því. Það er kannski þess vegna sem þeir eru að vefja tungum?

Steven the Seagal er hins vegar svalur. Í hvert sinn sem ég geng edrú inn á bar, rembist ég við að herma eftir þessari senu, en fæ aldrei réttu viðbrögðin. Það fer sérstaklega í taugarnar á fólki þegar ég fer aftur fyrir barinn og byrja að hrinda barþjónunum.

Er það ímyndun í mér, eða fer hann inn á bar og lemur helling af fólki í hverri einustu mynd? Fyrir utan Under Seagal, en hún fjallar um mann sem á ekki efni á hægindastól, heldur lemur þess í stað fólk og sest á það.


fimmtudagur, 17. janúar 2008

Cuba Gooding jr.

Ég ætla nú ekki að tjá mig mikið um þennan vægast sagt ofmetna leikara. Það er bara eitt sem kitlar mig svo rosalega varðandi þetta fáránlega nafn hans: Cuba Gooding jr.

Junior.

Pabbi hans hét sem sagt Cuba Gooding og fannst það bara fínt nafn handa syni sínum.

Ég sé skírnina fyrir mér:
Prestur: Og hvað á barnið að heita?

C. G. senior: Hann á að heita það sama og ég.

Prestur: ...ertu viss?

C. G. senior: Já. Ég hata hann.

OMFG! It´s Shaq! Quick, take my picture!

Þrátt fyrir þetta fáránlega nafn, hef ég ekki fundið nein merki þess að hann sé siðblindur. Þess vegna hef ég þetta ekki lengra.

En, í alvöru, hvers vegna er hann að árita körfubolta?

miðvikudagur, 16. janúar 2008

The Hoffer

Ég hef fundið enn eina aðferðina til að koma auga á hálfvita. Þessi aðferð er óskeikul og er einhvern veginn á þessa leiðina:

Þú kíkir inn á myndbandaleigu og stendur þar kyrr í dálítinn tíma. Reyndu að blanda þér sem mest inn í umhverfið (þú getur t.d. lesið Myndir mánaðarins) og hleraðu samtöl fólksins kringum þig. Fyrr en síðar muntu heyra eitthvað þessu líkt:

A: Hvað segirðu um þessa?
B: Kannski. Hverjir eru í henni?
A: Nigel Cunningsforth, Rachel Bloner og Henry Aceton.
B: Hmm ... ég veit ekki...
A: Já, og svo er Dustin Hoffman líka í henni.
B: Nú, er það? Hoffman er alltaf góður.

Ef þú heyrir þessa síðustu línu, þá ertu búinn að finna hreinræktaðan hálfvita. Dustin Hoffman er nefnilega ekki alltaf góður. Hann er vondur og hefur verið það frá blautu barnsbeini.



Hoffman sló í gegn í myndinni The Graduate árið 1967. Það fór lítið fyrir honum í upphafi ferilsins en í kjölfar þess að hann var tilnefndur til Óskarsverðlauna fyrir hlutverk sitt í Midnight Cowboy tveim árum seinna, fóru sögur að kvisast út um hans skítlega eðli.

Midnight Cowboy átti upprunalega að fjalla um spastískan einbúa sem hefur einangrað sig frá umheiminum en kynnist góðhjörtuðum farandsölumanni sem lýsir upp eymdarlega tilveru hans. Jon Voight átti upprunalega að leika einbúann, en Hoffman farandsölumanninn. Það var hins vegar hið rotna innræti Hoffarans sem varð til þess að myndinni var breytt svo gjörsamlega. Jon Voight segir svo frá:

"Ég hafði æft mig í því að leika spastískan einstakling í marga mánuði, fór meira að segja í sérstakar þjálfunarbúðir til að búa mig undir hlutverkið. Ég hélt að ég væri vel undirbúinn. Síðan hófust tökur og ég hitti The Hoffer í fyrsta sinn. Hann virti mig varla viðlits, horfði ekki framan í mig meðan hann talaði við mig.

Svo, þegar ég byrjaði að leika í mínum fyrstu atriðum, þar sem ég var einn í íbúð öryrkjans, þá varð ég var við einhverja hreyfingu út undan mér. Það var Hoffman. Hann stóð þarna í myrkrinu bak við myndavélarnar og var að herma eftir mér. Það var eins og hann væri að gera grín að mér. Þetta truflaði mig alveg rosalega, sérstaklega hvað hann brosti djöfullega, honum fannst þetta svo rosa fyndið, að trufla mig.

Ég sagði John (leikstjóranum) frá þessu og í næstu töku fylgdist hann með Hoffman. En John varð svo hrifinn af frammistöðu Hoffmans, að hann gaf honum hlutverkið mitt! Ég varð náttúrulega öskureiður enda búinn að æfa mig lengi fyrir þetta hlutverk. Það var boðað til neyðarfundar þar sem ég, John, framleiðendurnir, handritshöfundarnir og helvítis Hoffman áttum að ræða framhaldið.

Fundurinn var ekki einu sinni hafinn, við vorum bara nýsestir og vorum að hella kaffi í bolla og svona, þegar Hoffman leggur það til að ég verði látinn leika karlhóru. Og öllum fannst það bara frábær hugmynd! Ég hélt það væri verið að grínast eitthvað í mér en þeir sökktu sér strax í það að endurskrifa handritið og hugmyndirnar flugu manna á milli. Ég þaut hins vegar út og skellti á eftir mér.

Ég mætti á settið daginn eftir enda hafði ég ekki efni á því að ganga frá þessu verkefni. Þá var komið splunkunýtt handrit. Hoffman hafði krafist þess að ég gengi í kúrekafötum! Í New York! Um miðjan vetur!

Ég hef aldrei fyrirgefið honum þetta. Hann hló og gerði grín að mér allan tökutímann. Líf mitt var algjört helvíti. Mér var farið að líða eins og ég væri í raun karlhóra, aðhlátursefni heimsins. Við vorum báðir tilnefndir til Óskarsverðlaunanna og ég segi það satt, hefði hann unnið þau, þá hefði ég drepið hann. Ég hefði hlaupið upp á svið og barið hann til dauða með Óskarsstyttunni.

Vissulega fékk myndin Óskarinn sem mynd ársins og þetta varð grundvöllurinn fyrir mínum ferli, en ég mun bera þess merki alla ævi að hafa leikið á móti þessum mannandskota."



Í kjölfarið lék Hoffman í fleiri vinsælum myndum, t.d. All the President´s Men (1976) og Kramer vs. Kramer (1979). Í þeirri síðarnefndu leikur hann föður sem stendur í skilnaði. Mestan hluta myndarinnar lék hann á móti hinum barnunga Justin Henry. Sá treysti sér ekki út á leiklistarbrautina eftir þessa mynd, enda lagði Hoffman hann í vægðarlaust einelti meðan á tökum stóð. Meryl Streep minntist á það í framhjáhlaupi í viðtali árið 1995, þegar liðin voru nákvæmlega tíu ár frá því að Justin Henry svipti sig lífi:

"The Hoffer var alltaf að endurtaka allt sem strákurinn sagði. Ef hann fór rangt með línurnar, þá hló Hoffman hátt og klappaði. Síðan var hann alltaf að setja út á klæðnaðinn á stráknum. Fékk því meira að segja framgengt að hann yrði klæddur í kúrekabúning hluta myndarinnar. Sá hluti var reyndar klipptur út, en þetta hafði mikil áhrif á barnið, það fór ekki á milli mála.

Hann mætti yfirleitt þrútinn og rauður á tökustað hvern morgunn, greinilega búinn að gráta alla nóttina. Mér blöskraði náttúrulega meðferðin á drengnum, en ég held að Hoffman hafi gert þetta til þess að hjálpa mér að setja mig í spor móðurinnar, sem svínvirkaði náttúrulega. Í myndinni var ég nefnilega að berjast fyrir forræði yfir stráknum og þetta gaf mér nauðsynlega tengingu við veruleikann. Við fengum bæði Óskarsverðlaun og strákurinn var tilnefndur, bara átta ára gamall. Þetta kallar maður ekki illsku, heldur snilligáfu."



The Hoffman hlaut sín næstu Óskarsverðlaun fyrir kvikmyndina Rain man (1988). Sú mynd átti upprunalega að vera létt gamanmynd um tvo vitleysinga í anda Dumb & dumber og átti hún að heita Idiot & Idiot-savant. Handritið gekk undir stórfelldar breytingar meðan á tökum stóð, enda neitaði Hoffman að fara með sínar línur, heldur endurtók bara línurnar hans Tom Cruise og hermdi eftir honum. Byrjaði hann þá hverja línu yfirleitt á orðunum "Sjáið mig, ég heiti Tom Cruise og ..." og svo fylgdi línan í kjölfarið.

Þetta gekk mjög nærri Tom, sem sá sér ekki fært að hella sér út í gamanhlutverk. Honum fannst Hoffman hafa drepið í sér barnslegu einlægnina, sakleysið. Þá var myndinni breytt í drama og fjallaði hún nú af nærgætni um mann sem þjáist af Asperger-heilkenni. Hoffman hlaut Óskarsverðlaunin fyrir frammistöðu sína, en Tom Cruise beið þess aldrei bætur.

Í upprunalegu útgáfu myndarinnar voru þónokkrar nektarsenur en þær voru allar klipptar út vegna þess að enginn hafði hemil á háðsglósum Hoffmans. Hann skemmdi nánast hverja einustu töku með framíköllum og hljóp iðulega á eftir Cruise með blautt handklæði. Þetta andlega og líkamlega ofbeldi (þá sérstaklega háðsglósurnar) leiddi til þess að Tom Cruise fór í sína fyrstu punglyftingu, þá aðeins 26 ára gamall.

Kvikmyndin Outbreak (1995) átti upprunalega að fjalla á nærgætinn hátt um dauðvona alnæmissjúkling sem nýtur stuðnings af góðhjörtuðum lækni leiknum af Hoffman. Skoðanir hans á samkynhneigðum og alnæmi urðu þó til þess að handritinu var breytt daglega og undir lokin var myndin orðin óþekkjanleg. Alnæmissjúklingurinn samkynhneigði var nú orðinn að litlum, veirusýktum apa frá Afríku sem Hoffman lagði allt í sölurnar til að klófesta og drepa. Hann barðist lengi fyrir lokaatriði þar sem hann klæddist kúrekafötum og riði með flokki vopnaðra vísindamanna á eftir apanum þar sem hundahópur myndi loks góma hann og rífa í sundur. Það atriði var hins vegar klippt út úr endanlegu útgáfunni í óþökk Hoffmans.

Það vita það ekki margir, en í upphafi tíunda áratugarins gaf Hoffman frá sér plötu sem hét The Hoffman Cometh. Þar rappaði hann á fornensku og það dylst engum sem les lagalistann, að hér er sjúk sál á ferð. Þar gefur að líta titla á borð við: Darest thou say no, woman?, Up thine, Pope John Paul, auk eina lagsins sem naut einhverra vinsælda, Do the Hoffman. Texti þess lags er með öllu óskiljanlegur, þótt hann sé sá eini sem ekki er saminn á fornensku. Smá brot:
Livin is the flippin, trippin, clippin and the snippin
chippin in the true spot blowjob, quickrob
ribbin in the tripjob, trippin in the slipknot, buying up the cruise - NOT!
rubble in the bubble, I´m down in the trouble
with a couple for the double, don´t be a tubble
pitch off man
ditch cough man
do the Hoffman!
Ef einhverjum tekst að grafa einhverja merkingu upp úr þessari vitleysu, látið mig vita.



Svo við snúum okkur aftur að upprunalegu samræðunum:

A: Já, og svo er Dustin Hoffman líka í henni.
B: Nú, er það? Hoffman er alltaf góður.
C: Nei! Hann er vondur!

Hann er raðníðingur.

Hann er eineltari.

Hann er með kúreka á heilanum.

Hann er búinn að vera lengi á mínum lista.

Hann er siðblindur!

sunnudagur, 13. janúar 2008

Clint Eastwood



Hvað hefur þessi maður eiginlega gert til að vera kallaður frábær? Athugum aðeins málið.

Hann lék í spagettívestrunum (1964-66). Þar var hann vissulega svalur. Góður leikari? Nei, eiginlega ekki. Þessi hlutverk kröfðust núll leikhæfileika. Það þurfti bara mann með rétta lúkkið.

Svo lék hann í einhverjum vestrum næstu árin. Vestrar eru sjálfkrafa afskrifaðir enda eru þeir allir hundleiðinlegir.

Árið 1971 leikur hann svo Dirty Harry í myndinni Dirty Harry. Hún fjallar ekki um barnaperra, heldur löggu sem er svaka töffari. Hún átti upprunalega að heita Dirty Boy, en þeir breyttu nafninu á seinustu stundu í óþökk Clints (!). Ekkert gáfulegt við það.
Sýnir hann leikhæfileika? Er þessi karakter að einhverju leyti frábrugðinn kúrekanum í spagettívestrunum? Nei, Clint bara pírir augun og fer með línurnar eins og rosa hörkutól. Eru það hæfileikar eða færni? Það væri hægt að setja vélmenni í þetta hlutverk, búa til Clint Eastwood búning handa því og enginn myndi sjá muninn.

Árið 1978 leikur hann í sinni skástu mynd, en það er Every which way but loose þar sem hann leikur á móti órangútan-apa. Og apinn er trúverðugri sem manneskja en Clint.

Ári seinna lék hann í Escape from Alcatraz. Ég hef ekki séð hana enda er frekar augljóst hvað gerist í myndinni. Tilfinningalaust vélmenni flýr frá Alcatraz-fangelsi. Þarf ekki að eyða tíma í að glápa á þannig vitleysu.

Síðan leikur hann í helling af myndum þar til, loksins, árið 1989, þegar hann breytir til og tekur að sér hlutverk samkynhneigðs leigubílstjóra í myndinni Pink Cadillac. Eastwood sá þó fljótt eftir að hafa tekið að sér hlutverkið og lét breyta handritinu þannig, að karakterinn hans var ekki lengur hommi heldur einkaspæjari sem átti harma að hefna (og var dauður í sálinni og brosti bara sálarlausu brosi sem varð til þess að börn hlupu úr bíó, hágrátandi). Þess í stað tókst þeim að breyta kádiljáknum í homma. Ekkert smá afrek það.



Síðan lék hann kúrekann Wild Bill Unforgiven í myndinni Unforgiven árið 1992. Það er vestri og þar af leiðandi hef ég ekki séð mér fært að sjá hana ennþá. Clint leikur þar kúreka sem er gamall. Punktur.

Í In the Line of Fire leikur hann lífvörð forsetans sem vorkennir sjálfum sér rosa mikið, en er að öðru leyti eins og kaldur þorskur vafinn í saltar þangtægjur.

Til að útkljá veðmál ákvað hann að gera myndina A Perfect World (1993) þar sem almenningur gat gert það upp við sig hvor væri ömurlegri, hann eða Kevin Costner. Hann hafði reynt slíkt hið sama nokkrum árum áður með myndinni The Rookie (1990), þar sem hann lék á móti Charlie Sheen, en enginn sá þá mynd.
Af titlinum að dæma er þetta mynd sem fjallar um aldraðan garðyrkjumann sem ákveður að láta æskudrauminn rætast og gerast lögga áður en hann deyr. Hann kemst gegnum inntökuprófin og lögregluskólann með hjálp vina og stera og þarf því næst að kljást við nýja félaga sinn. Sá er heitur tappi sem gengur illa að vinna með öðrum. Sá er illa leikinn af Charlie Sheen sem deyr næstum því í lok myndarinnar en verður þess í stað betri manneskja. Í stuttu máli sagt: ömurleg mynd. Held ég.

Árið 1995 krossvendur Clint kvæði sínu og tekur að sér hlutverk ungrar konu í myndinni Bridges of Madison County. Eftir það missti hann sitt svala viðurnefni The Clint og var því breytt í Clint með óákveðnum greini, eða A Clint. Sumir gengu svo langt að kalla hann The Clit, en þar sem snípurinn er miðstöð örvunar og sælu væri varla hægt að hugsa sér fáránlegra rangnefni.
Til þess að afgreiða Bridges of Madison County nægir að segja, að Clint var gjörsamlega ótrúverðugur sem kvenmaður. Meryl Streep hefur viðurkennt það, að hún hafi verið svo djúpt á kafi í dópinu, að hún hafi haldið að hana hefði dreymt þetta allt. Þetta hafi bara verið ein löng martröð. Þegar hún sá myndina loks í bíó dró hún sprautuna úr innanverðu augnlokinu og ákvað að leita sér hjálpar.



Blað brotnaði í leiklistarsögu Clints með þessari mynd. Honum tókst að kreista fram nokkur krókódílatár þegar það var augljóst hversu mikið botnlaust helvíti þessi ræma yrði. Hann hafði ekki lesið handritið þegar hann samþykkti að leikstýra henni. Hann hélt að hún fjallaði um hóp bandarískra hryðjuverkamanna sem ákveða að sprengja allar brýrnar í Madison-sýslu til að tefja framgang breska nýlenduhersins. En svo var ekki.

Í Absolute Power (1997) leikur hann gamlan kall sem brýst inn í Hvíta húsið í upphafi myndarinnar. Það er svo heimskulegt að mér líður eins og ég sé uppdópaður þegar ég reyni að ímynda mér hvað gerist í restinni af myndinni.

Í True Crime (1999) leikur þessi has been leikari has been blaðamann sem er á seinasta sjens hjá yfirmanni sínum, James Woods. Það er bara einn góður punktur í allri myndinni. Þá er James Woods að skamma Clint. Segir að borgarstjórinn vilji fá rassinn hans Clint:

Look, if he comes to me for your ass, I'm going to have to give it to him. Then you'll just be a hole, with no ass around it.


Clint ákvað svo að fagna árinu 2000 með því að leika kúreka enn eina ferðina. Kúreka í geimnum. Með kúrekavinum sínum, Donald Sutherland, Tommy Lee Jones og gaur sem ég gæti flett upp á IMDb, en enginn þekkir hann hvort eð er, þannig að ég ætla að spara mér ómakið. Hét þessi mynd einhverju fyrirsjáanlegu eins og Cowboys in Space? Nei, hún hét Space Cowboys. Eyði ekki fleiri orðum í þetta.



Og svo seinast lék hann í Million Dollar Baby árið 2004. Þessi mynd ber sennilega ábyrgð á fleiri dvd-diskum á öskuhaugum heimsins en allar Police Academy myndirnar samanlagt. Í þessari mynd þjálfar hann konu til að boxa, beitir svona tough love, svo hálsbrotnar hún og hann hjálpar henni að deyja. Hann hefði getið stytt myndina um tvo klukkutíma með því að taka upp mynd af sjálfum sér þar sem hann segir áhorfendunum um hvað sagan fjallar. Svo gæti Morgan Freeman komið inn í myndina og faðmað Clint og sagt eitthvað krúttlegt og verið sætur eins og alltaf. Þegar hann hverfur af skjánum, hvíslar Clint til áhorfendanna: Hann er alnæmissjúkur.



Þetta er semsagt leikferill Clints Eastwood í hnotskurn. Leikstjórnarferill hans hefur verið með þvílíkum eindæmum slappur að ég hef ákveðið að myndirnar hans munu héðan í frá heita Fíaskó 1, 2, 3, ... 30. Ég tek glaðlega á móti hverjum þeim mótrökum sem lesendur hafa fram að færa, þó þeim fylgi náttúrulega sá sleggjudómur að viðkomandi hljóti að vera blindur og heyrnarlaus auk þess að þjást af sníkjudýrum í heila.

Hvaða niðurstöður má draga af þessari upptalningu?

The Eastwood hefur ekki leikið í góðri mynd seinustu fjörutíu árin.

Hann hefur jafn fjölbreytt litróf svipbrigða og manneskja sem er að jafna sig eftir heilablóðfall.

Hvað myndi gerast ef hann félli í beljandi stórfljót? Myndi hann hrópa á hjálp? Hefur hann einhvern tíma hrópað? Getur hann hrópað? Myndi hann kannski bara píra augun og hvísla hásum rómi: I´m over here, dammit.

Nei, það vefst engum sem hefur smávægilegan vott af mannlegum tilfinningum og innsæi, að The Clintster er siðblindur. Hann notar sennilega Óskarsstytturnar sínar sem líflausa áhorfendur í brengluðum kynlífsleikjum með sebrahestum, mormónum, Charlize Theron, Cuba Gooding jr., Faye Dunaway og öðrum leikurum sem heita asnalegum nöfnum.

Clint, þú ert kominn á listann minn.

laugardagur, 24. nóvember 2007

There can be only one!


Þau ykkar sem aldrei hafa séð kvikmyndina Highlander frá árinu 1986 eruð heppin. Ykkur gefst færi á því að sjá hana í allra fyrsta sinn. Ég öfunda ykkur virkilega af því, enda er Highlander (ekki Highlander 3 eða Highlander: Endgame og alls alls alls ekki Highlander 2) sennilega mín uppáhaldskvikmynd.

Hvers vegna?

Jú, einfaldlega vegna almenns frábærleika. En svona til að brjóta þetta niður á skýran og skilmerkilegan máta, hef ég gert lítinn lista af öllu því sem er frábært við þessa mynd (þó ekki megi gleyma þeim undirliggjandi frábærleika sem tengir þessa þætti saman).

Sagan í stuttu máli:

Um allan heim finnast ódauðlegir menn. Sumir eru hundrað ára, aðrir mörg þúsund ára gamlir. Það eina sem getur svipt þá lífi, er að missa höfuðið í bardaga. Að öðru leyti bítur ekkert á þá. Þegar sagan hefst, árið 1985, eru þeir fjórir seinustu komnir saman í New York þar sem þeir munu berjast þar til aðeins einn stendur eftir. Eða eins og þeir segja sjálfir:

There can be only one!




1. Upphafstextinn

Þessu er slengt framan í okkur á allra fyrstu sekúndu myndarinnar. Blóðrauður texti fyllir skjáinn og James Bond les:

From the dawn of time we came, moving silently down through the centuries. Living many secret lives, struggling to reach the time of the gathering, when the few who remain will battle to the last. No one has ever known we were among you ... until now.

Strax á fyrstu sekúndunum er tónninn sleginn. Inngangsorðin skipta engu máli fyrir söguna, heldur er tilgangur þeirra fyrst og fremst að vera kúl.

Og svo hverfur textinn...

2. Byrjunarstefið

... og Queen sprengir í manni heilann með rokkslagara með því eitursvala nafni Princes of the Universe. Þess má geta að Queen samdi alla tónlistina við myndina.

Á sama tíma fylgjumst við með Connor MacLeod þar sem hann situr í áhorfandaskara og fylgist með fjölbragðaglímu. Glímukapparnir eru einstaklega skemmtilega fáránlegir þar sem þeir hæðast hver að öðrum í slómósjon. Inn á milli fær Connor (sem er frábærlega leikinn af Christopher Lambert) flassbakk til Skotlands á miðöldum þar sem hann sjálfur er staddur í miðjum bardaga.

Ótrúlega svalt.

3. Fyrsti bardaginn

Í bílastæðahúsinu undir glímuhöllinni hittir Connor eldri mann með sólgleraugu. Hann heitir Faziel. Sá dregur upp sverð og Connor dregur sitt eigið sverð innan úr frakkanum sínum. Síðan skylmast þeir. Þetta er svo sem ekkert í frásögur færandi, enda er þetta allt í anda hins gegnumgangandi svalleika sem þessi mynd býr yfir. Það er samt tvennt sem ég hef alltaf sérstaka unun af þegar ég horfi á þetta atriði.

Í fyrsta lagi eru það skórnir hans Connors. Hann er allur mjög dempaður í klæðnaði, í gráum rykfrakka og bláum gallabuxum. Hann lítur út eins og venjulegur gaur. Og svo er hann í skjannahvítum strigaskóm.

Þetta stingur svolítið í stúf við restina af klæðnaðnum, sem er einstaklega lágstemmdur og er þetta eiginlega stílbrot. En við nánari umhugsun spyr maður sig: hvernig skó myndi ég velja mér ef ég ætti von á því að ráðist yrði á mig hvert sinn sem ég færi úr húsi? Jú, auðvitað myndi ég velja bestu íþróttaskóna sem völ væri á. Skór sem væru góðir til hlaupa, auk þess að vera hljóðlátir. Og ef þeir fást bara í hvítu, verður bara að hafa það. Þannig að það er í rauninni óhjákvæmilegt að hann skuli ganga í skjannahvítum strigaskóm.
Það eru svona smáatriði sem gera það að algjörri unun að sjá þessa mynd aftur og aftur.

Hitt atriðið er þegar Faziel hörfar undan Connor á handahlaupum. Hann hefði alveg eins geta hlaupið (og sennilega komist hraðar yfir) en hann ákvað að gera það sem svalara þótti.

4. Í yfirheyrslu á lögreglustöðinni

Garfield: You talk funny Nash. Where you from?

Connor (sem gengur undir nafninu Russell Nash): Lots of different places.

Garfield (rannsóknarlögga): Are you a faggot, Nash?

Connor: Why, Garfield? Cruisin' for a piece of ass?

Garfield: I'll tell you what happened, Russell. You went down to that garage for a blow job. But you didn't want to pay for it.

Connor: You´re sick. Wanna hear another theory?

Frank Moran (líka rannsóknarlögga): Uh-huh.

Connor: This Faziel was so upset about the lousy wrestling tonight, that he went down to the garage and in a fit of depression cut off his own head.

5. Sean Connery í seinasta góða hlutverkinu sínu.

Sean Connery er án efa einn ofmetnasti leikari samtímans. Hann var góður sem James Bond. Hann var góður í The Man who would be King og The Name of the Rose. Og loks í þessari frábæru mynd. Síðan þá hefur hann verið fastur í sama sporinu seinustu tuttugu árin. Það er sama í hvaða mynd hann er, hann er annaðhvort aldraður James Bond, eða skoskur ofurhönk með siginn gamlakarlapung. Oftast hvort tveggja.



En í Highlander er hann lærimeistari Connors MacLeods. Hann fræðir Connor um eigin hæfileika og kennir honum að skylmast í dramatískri skoskri náttúru. Hann kynnir Connor líka fyrir sverðinu sem mun einn góðan veðurdag verða hans. Ótrúlega svalt 2000 ára gamalt japanskt samúræjasverð með fílabeinsskafti.

En hvers vegna er hann að þjálfa Connor? Væri ekki best að drepa hann bara strax. Nei, vegna þess að Ramirez (Sean Connery) er að undirbúa hálendinginn undir að berjast við...

6. The Kurgan!

Það er einungis einn vondi karl í allri kvikmyndasögunni sem á skilið titilinn Svalasti og vondasti vondikall allra tíma. Darth Vader, Freddy Kruger, Hannibal Lecter og Bono eru eins og ljúfir kettlingar með keleríáráttu í samanburði við konung illskunnar. Hvorki fyrr né síðar hefur jafn illt eintak prýtt hvíta tjaldið. Sannkallaður trúboðasleikjari.

Enginn veit hvað hann heitir. Hann kemur frá rússnesku steppunum, stríðsmaður úr ætt Kurgana. Í þorpi hans henti fólkið ungabörnum fyrir úlfa sér til skemmtunar. Þegar leiðir hans og hálendingsins mætast í fyrsta sinn er The Kurgan málaliði sem ferðast um heiminn í leit að fólki til að slátra.

Topp þrjár ástæður fyrir því að Kurgan er besti vondikall allra tíma:

a) Lúkkið hæfir persónunni fullkomnlega.

Við kynnumst The Kurgan fyrst á miðöldum. Þá er hann stoltur yfir getu sinni í bardaga og er upptekinn af því að hræða líftóruna úr andstæðingnum með klæðnaði sínum, enda er algjör óþarfi fyrir hann að vera íklæddur brynju, hann lifir allt af.

En þvílíkur hjálmur!





Síðan fylgjumst við með því hvernig útlitinu hrakar með árunum, hann verður náhvítur, klæðist leðurlörfum og geislar einhverri fornri, ódauðlegri illsku.



b) Sverðið

Einn af grunnþáttum þessara myndar eru sverðin. Þau eru hvert öðru svalara. En sverðið hans Kurgans hlýtur óneitanlega vinninginn.



c) Hann er svo algjörlega vondur.

Kurgan varð ekki vondur vegna þess að pabbi hans kitlaði hann á óviðeigandi stöðum þegar hann var krakki. Hann fæddist vondur og var alinn upp af vondu fólki. Hann hatar ekki fólk. Fólk eru maurar í hans augum. Myndbrotið hér fyrir neðan útskýrir kannski eitthvað. Þarna hittast MacLeod og Kurgan í kirkju. Eina reglan sem hinir ódauðlegu fylgja, er sú, að bannað er að slást á heilagri grund.



Þvílík illska. Þvílík rödd. Þvílíkur töffari. Ég vil vera eins og hann ef líf mitt fer einhvern tíma til fjandans og ég ákveð að snúa mér að fólskuverkum.

7. Sagan hefur fallegan boðskap.

Boðskapur þessarar myndar er einfaldur og auðvelt að meðtaka: Ef vondur karl nauðgaði konunni þinni fyrir 400 árum síðan og ætlar að höggva af þér hausinn, þá skaltu passa þig.



8. Tónlistin.

Engin önnur mynd hefur jafn mikið af Queen tónlist (fyrir utan Flash!!! A-aaa!!! Saviour of the Universe!!! að sjálfsögðu). Hér ber helst að nefna lög eins og áðurnefnt Princes of the Universe, Gimme the Prize, One Year of Love, Don´t Lose Your Head, A Kind of Magic og síðast en þó allra síst Who Wants to Live Forever. Síðan taka þeir líka sína útgáfu af New York, New York. Án tónlistarinnar væri myndin hvorki fugl né fiskur, enda setur hún virkilega tóninn fyrir töffaraskapinn og svalleikann.

Ég held ég láti þetta nægja. Eitthvað verð ég að skilja eftir fyrir ykkur sem eruð þegar komin í skóna á leið ykkar út á myndbandaleiguna.

Þið hin sem enn eruð efins, getið skoðað þetta og látið sannfærast: