sunnudagur, 2. september 2007

Hversdagsleg siðblinda - 1. hluti (Inngangur)

Siðblinda er skeytingarleysi gagnvart óskrifuðum reglum samfélagsins og virðingarleysi gagnvart meðborgurum sínum og tilfinningum þeirra. Fullkomnlega siðblindur einstaklingur hefur enga samúð með neinum nema sjálfum sér og er ófær um að mynda félagsleg tengsl. Þegar fólk heyrir minnst á siðblindu verður flestum hugsað til raðmorðingja, barnaníðinga og Bono.
En siðblinda einskorðast ekki við einstaklinga, heldur þrífst hún þar sem margir koma saman.
















Það er eins og hið illa felist í fjöldanum, að hver og einn taki með sér snefil af illsku sem svo magnast upp þar til einhver gerir eitthvað gjörsamlega siðlaust, án þess að hugsa sig tvisvar um.

Ungur maður rífur umbúðir af súkkulaðistykki og hendir á gangstéttina. Samt er ruslatunnan beint fyrir framan hann, í seilingarfjarlægð. Myndi hann gera þetta heima hjá sér? Fyrir framan einhvern sem hann virðir eða þykir vænt um?























Nei, því hann er ekki siðblindur. Hann er bara heltekinn af einhverri illsku sem læðist um í fjöldanum. Þessir demonar siðblindu þrífast best í borgum, þar sem fólk nýtur frelsis í skjóli nafnleysis.
En hvers konar frelsi fylgir ábyrgð.

Tilgangurinn með þessari greinaröð er að minna fólk á þessa ábyrgð.
Eins og Special Agent Dale Cooper, hef ég ákveðið að berjast gegn hinu illa sem býr innra með okkur öllum. Það er ekki nóg að bæla niður ofbeldishneigðina og öfuguggaháttinn, heldur verður að rífa meinið burt með rótum. Í þeim tilgangi hef ég hafist handa á greinaröð sem útskýrir hvernig hin myrku öfl leka inn í okkar veruleika án þess að nokkur kippi sér upp við það. Handan þessa heims eru nefnilega skuggaverur og ófreskjur sem bera með sér mengunarslys í hverri vörtu og hnerra kjarnorkusprengjum.

Þeirra þrælar eru fólkið sem ypptir öxlum.

Fólkið sem segir: Þetta er ekki mitt vandamál.

Tíminn er kominn til að frelsa þessa þræla. Skína dagsljósi í andlit þeirra sem bakast hægt og örugglega í sjónvarpsbjarmanum. Vegna þess að þetta er faraldur.

Siðblindufaraldur.

2 ummæli:

Thor sagði...

Hlakka til að þú bjargir mér úr viðjum siðblinduskrattans.

Guðmundur Jón sagði...

Fyrsta skrefið er að átta sig á því, að siðblinduskrattinn býr innra með þér. Þú munt aldrei losna við hann, heldur verðurðu að temja hann.

Langt síðan maður hefur annars heyrt í þér. Það var nú lítið að græða á þessu bloggi þínu (til hamingju með afmælið), hvað er að frétta?