Í kjölfar þessa atburðar fór ég að hugsa alvarlega um tannkrem.
Þegar ég var lítill var alltaf keypt Colgate og ég burstaði tennurnar með því. Síðan þá hef ég prófað hinar ýmsu tegundir (Solidox og Aquafresh koma fyrst upp í hugann, þó þær hafi verið fleiri) auk þess að hafa smakkað fjölmargar undirtegundir Colgate. Þetta hef ég gert í algjöru hugsunarleysi í mörg ár. Á morgnana, þegar heilinn er ekki vaknaður, og á kvöldin, þegar hann er búinn að slökkva á sér.
En þar sem ég stóð þarna um miðjan dag, með lófafylli af tannkremi á vinstri kinninni hugsaði ég með mér: Er einhver munur á öllum þessum tannkremstegundum? Hef ég nokkurn tíma prófað nýtt tannkrem og hugsað með sjálfum mér:
Vá, þetta er tegundin fyrir mig! Tennurnar mínar hafa aldrei verið svona hvítar. Ef Mikjáll hefði svona hvítar tennur myndi enginn sjá fallega brosið hans!eða
Uss, þetta tannkrem stenst engan veginn kröfur. Tennurnar mínar eru næstum því brúnar og matarleifarnar eru farnar að mynda grýlukerti í jöxlunum. Þetta er skandall á stærð við Watergate. Þetta er Colgate-gate!Á sínum tíma var það gífurleg bylting í tannhirðu og gómheilsu þegar Dr. Calvin Colgate markaðssetti tannkrem í túpum, fyrstur manna. Þar áður hafði fólk notast við duft sem blanda þurfti með vatni svo úr varð krem. Þetta var tímafrekt og dýrt, fólk kaus frekar að láta tennurnar rotna og fá sér gervitennur í staðinn. En Dr. Colgate, sem var efnafræðingur með plast sem sérfræðisvið, hannaði plasttúpu sem hægt var að loka þannig að súrefni kæmist aldrei að kreminu, en þá myndi það harðna og eyðileggjast.
Þannig að Colgate fann í rauninni bara upp tannkremstúpuna.
Tannkremið er mun eldri uppgötvun og var vinsælt meðal ýmissa suður-evrópskra sérvitringa á 17. og 18. öld. Þegar spænski landkönnuðurinn Piaro uppgötvaði Choxzul indíanana við Mexíkó-flóa, komst hann að því, að þeir notuðu tannkrem sem steypu til að festa saman múrsteina, en húsagerð þeirra má rekja alla leið aftur til miðalda.
Til að gera indjánana að athlægi, bað hann þá um að blanda fyrir sig smáræði af steypu og notaði það svo til að bursta tennurnar. Hann varð þá sjálfur að athlægi þegar tannkremið harðnaði og læsti munninum. Liðsmenn hans reyndu árangurslaust að bleyta upp í steypunni í meira en viku og neyddust að lokum til að brjóta úr honum allar tennurnar svo hann gæti matast, en hann var þá orðinn ansi illa haldinn af hungri.
Það kom í ljós að þótt steypa indjánanna væri lík hinu vestræna tannkremi, þá reyndist efnablanda indjánanna mun sterkari og munaði þar mestu um lím sem þeir bjuggu til úr pálmaberki.
Eftir þetta varð Piaro meiriháttar brandari í heimalandi sínu og hlaut viðurnefnið Piaro tannlausi sem þótti einstaklega fyndið (en þá var ekki enn búið að uppgötva hnyttni). Piaro féll úr náð við hirðina, tapaði aleigunni og ráfaði um Spán í meira en tíu ár þar til hann gekk fram á klaustur og gerðist munkur.
Í klaustrinu lærði hann grunnatriði málarakúnstinnar og varð fljótt einstaklega hæfur trúarlegur málari. Piaro sérhæfði sig í myndum af Jósefi þar sem hann eyddi smá quality time með syni sínum. Meðal frægustu verka hans voru: Jesú og Jósef í eltingarleik, Feluleikur í Getsemane-garði og Hinir heilögu feðgar smíða kofa. Hann hlaut þó ekki viðurkenningu fyrir list sína fyrr en hann var allur.
Michelangelo sagði um hann: Piaro var ágætur. Fyrir þau orð var Michelangelo dreginn fyrir rannsóknarréttinn, enda var túlkun Piaros á hinum týndu árum Krists ekki vinsæl meðal kardínálanna. Michelangelo var þvingaður til að taka orð sín tilbaka, en á leiðinni úr réttarsalnum heyrðist hann muldra með sjálfum sér: Hann var nú samt ágætur.
En, já, tannkrem.
Það hefur sem sagt bara verið ein raunveruleg bylting í heimi tannkremsins, þ.e.a.s. tannkremstúpan. Ég legg til að næsta bylting verði í formi tannfroðu. Hún virkar eins og rakfroða sem maður sprautar upp í sig, þannig að munnurinn, hver einasta hola og skora, fyllist af tannhreinsiefni. Í þessu kremi eru svo nanóvélmenni sem breyta matarleifum í munnskol og tannstein í tannþráð. Maður leyfir nanóvélmennunum að vinna sína vinnu í tvær mínútur meðan maður smyr sér nesti og svo skyrpir maður kreminu út og skolar munninn. Búið.
Einhvern veginn þykir mér ólíklegt að við sjáum þessa tæknibyltingu á markaðnum næstu árin síðan flestir stærstu tannkremsframleiðendurnir selja líka tannbursta.
Já, líkt og ástin geta fjármálasamsæri verið blind - SIÐBLIND.
2 ummæli:
Væri ekki hentugra að búa til sjálfhreinsandi tennur, og notast bara við þær.
Maður setur inn comment, og svo þarf maður að bíða í marga daga eftir að þau birtist.
Wazzup with that?!?
Skrifa ummæli