laugardagur, 27. október 2007

Merkilegt fólk

Ég var að koma frá tónleikum þar sem hljóðfæraleikarar á aldrinum 7-14 ára léku listir sínar. Það er svo sem ekkert í frásögur færandi, krakkarnir stigu á stokk hver af öðrum og spiluðu eftir bestu getu.

Þegar langt var liðið á tónleikana þurfti ég að bregða mér á salernið. Þegar ég kom fram á gang blöstu við mér tveir þéttskipaðir bekkir þar sem sátu hágrátandi börn með foreldrum sínum. Mér fannst þetta ansi merkileg sýn, en í þann mund sem ég var að smeygja mér inn á salernið bar ég kennsl á einn krakkann og fattaði, að þetta væru allt krakkar sem voru búnir að stíga á svið. Mér fannst blessuð börnin taka þessu fullalvarlega. En það þarf náttúrulega lítið til eyðileggja veröld viðkvæmra sála. Ef þau bara vissu, hversu lítinn áhuga fullorðna fólkið hafði á þeirra getu...

Þegar ég var svo á leiðinn til baka í sætið, varð mér hins vegar litið ofan í stílabók sem einn af fullorðnu gestunum hafði í fanginu. Þar hafði hann skrifað:

Nr 11 (klarinett)
Framkoma: Viðvaningsleg
Spilageta: Hlægileg
Klæðnaður: Viðeigandi

Nr 12 (píanó)
Framkoma: Barnaleg
Spilageta: Fyrir neðan allar hellur (verstur af sjö ára krökkunum)
Klæðnaður: Eins simpansi í smókingjakka

Nr 13 (píanó)
Framkoma:
Spilageta:
Klæðnaður: Dræsulegur, mjög óviðeigandi

(Hann var að skrifa eitthvað í spilagetu á sömu stundu og ég gekk framhjá)

Hver gerir svona? Og hvers vegna? Var þetta kannski blaðamaður?

Hann minnti mig á annan furðufugl sem ég rakst á í matvöruverslun hér um daginn. Það var músagrár, úfinn, miðaldra maður með augabrúnir eins og tvö lítil fuglshreiður. Hann er týpan sem gengur um með málband í vasanum öllum stundum og notar bílinn sinn sem einn stóran verkfærakassa. Dóttir hans kemur til hans með tvo geisladiska og réttir honum án þess að segja neitt. Þá tekur hann upp málband (aha!) og mælir lengd, breidd og hæð á báðum geisladiskum áður en hann segir: Ókei.

Ég hef aldrei séð neitt jafn merkilegt allt mitt líf. Þetta voru ósköp venjuleg geisladiskahulstur. Í nákvæmlega sömu hlutföllum og öll önnur geisladiskahulstur. Af hverju, af hverju, af hverju þurfti hann að mæla þau? Og hvers vegna þurfti hann að mæla þau hvert fyrir sig? Hann hlýtur að hafa séð að þetta voru jafnstór hulstur. Eða er þetta spurning um millimetra? Mig langar svo að vita það. Ég hefði átt að spyrja hann. Þetta heldur fyrir mér vöku.

Sem minnir mig á þriðja merkilega atburðinn. Ég stend í biðröð. Fyrir framan mig stendur ungt par á mínum aldri. Strákurinn talar í síma:
Hann: Já, já, allt í lagi, bless
(Leggur á)
Hún: Var þetta Marie?
Hann: Já.
Hún: Bað hún að heilsa mér?
Hann: Nei.
Hún: Hún vissi samt að ég stend við hliðina á þér.
Hann: Já, ég minntist á það strax í byrjun.
Hún: Týpískt.

???

5 ummæli:

Seth sagði...

Hey Mr. Arason, how much I would like to be able to read icelandic! I can get about 20% of the meaning. But I fear the humour all passes me by.

I would love to come to your moving-in party, but I won't be back in Norway until Janiary 1st. I guess it's happening before that? I would very much like to come out to visit you next year, though.

Palli sagði...

Alltaf gaman af blogginu þínu GJA!

Guðmundur Jón sagði...

Ég gæti sagt það sama um kommentin þín PRP!

Fyrir þetta færðu kannski hlekk yfir á síðuna þína.

Guðmundur Jón sagði...

Sem minnir mig á það...ég þarf að blogga meira.

Jói Ben sagði...

Já, hvernig væri það nú?