sunnudagur, 13. janúar 2008
Clint Eastwood
Hvað hefur þessi maður eiginlega gert til að vera kallaður frábær? Athugum aðeins málið.
Hann lék í spagettívestrunum (1964-66). Þar var hann vissulega svalur. Góður leikari? Nei, eiginlega ekki. Þessi hlutverk kröfðust núll leikhæfileika. Það þurfti bara mann með rétta lúkkið.
Svo lék hann í einhverjum vestrum næstu árin. Vestrar eru sjálfkrafa afskrifaðir enda eru þeir allir hundleiðinlegir.
Árið 1971 leikur hann svo Dirty Harry í myndinni Dirty Harry. Hún fjallar ekki um barnaperra, heldur löggu sem er svaka töffari. Hún átti upprunalega að heita Dirty Boy, en þeir breyttu nafninu á seinustu stundu í óþökk Clints (!). Ekkert gáfulegt við það.
Sýnir hann leikhæfileika? Er þessi karakter að einhverju leyti frábrugðinn kúrekanum í spagettívestrunum? Nei, Clint bara pírir augun og fer með línurnar eins og rosa hörkutól. Eru það hæfileikar eða færni? Það væri hægt að setja vélmenni í þetta hlutverk, búa til Clint Eastwood búning handa því og enginn myndi sjá muninn.
Árið 1978 leikur hann í sinni skástu mynd, en það er Every which way but loose þar sem hann leikur á móti órangútan-apa. Og apinn er trúverðugri sem manneskja en Clint.
Ári seinna lék hann í Escape from Alcatraz. Ég hef ekki séð hana enda er frekar augljóst hvað gerist í myndinni. Tilfinningalaust vélmenni flýr frá Alcatraz-fangelsi. Þarf ekki að eyða tíma í að glápa á þannig vitleysu.
Síðan leikur hann í helling af myndum þar til, loksins, árið 1989, þegar hann breytir til og tekur að sér hlutverk samkynhneigðs leigubílstjóra í myndinni Pink Cadillac. Eastwood sá þó fljótt eftir að hafa tekið að sér hlutverkið og lét breyta handritinu þannig, að karakterinn hans var ekki lengur hommi heldur einkaspæjari sem átti harma að hefna (og var dauður í sálinni og brosti bara sálarlausu brosi sem varð til þess að börn hlupu úr bíó, hágrátandi). Þess í stað tókst þeim að breyta kádiljáknum í homma. Ekkert smá afrek það.
Síðan lék hann kúrekann Wild Bill Unforgiven í myndinni Unforgiven árið 1992. Það er vestri og þar af leiðandi hef ég ekki séð mér fært að sjá hana ennþá. Clint leikur þar kúreka sem er gamall. Punktur.
Í In the Line of Fire leikur hann lífvörð forsetans sem vorkennir sjálfum sér rosa mikið, en er að öðru leyti eins og kaldur þorskur vafinn í saltar þangtægjur.
Til að útkljá veðmál ákvað hann að gera myndina A Perfect World (1993) þar sem almenningur gat gert það upp við sig hvor væri ömurlegri, hann eða Kevin Costner. Hann hafði reynt slíkt hið sama nokkrum árum áður með myndinni The Rookie (1990), þar sem hann lék á móti Charlie Sheen, en enginn sá þá mynd.
Af titlinum að dæma er þetta mynd sem fjallar um aldraðan garðyrkjumann sem ákveður að láta æskudrauminn rætast og gerast lögga áður en hann deyr. Hann kemst gegnum inntökuprófin og lögregluskólann með hjálp vina og stera og þarf því næst að kljást við nýja félaga sinn. Sá er heitur tappi sem gengur illa að vinna með öðrum. Sá er illa leikinn af Charlie Sheen sem deyr næstum því í lok myndarinnar en verður þess í stað betri manneskja. Í stuttu máli sagt: ömurleg mynd. Held ég.
Árið 1995 krossvendur Clint kvæði sínu og tekur að sér hlutverk ungrar konu í myndinni Bridges of Madison County. Eftir það missti hann sitt svala viðurnefni The Clint og var því breytt í Clint með óákveðnum greini, eða A Clint. Sumir gengu svo langt að kalla hann The Clit, en þar sem snípurinn er miðstöð örvunar og sælu væri varla hægt að hugsa sér fáránlegra rangnefni.
Til þess að afgreiða Bridges of Madison County nægir að segja, að Clint var gjörsamlega ótrúverðugur sem kvenmaður. Meryl Streep hefur viðurkennt það, að hún hafi verið svo djúpt á kafi í dópinu, að hún hafi haldið að hana hefði dreymt þetta allt. Þetta hafi bara verið ein löng martröð. Þegar hún sá myndina loks í bíó dró hún sprautuna úr innanverðu augnlokinu og ákvað að leita sér hjálpar.
Blað brotnaði í leiklistarsögu Clints með þessari mynd. Honum tókst að kreista fram nokkur krókódílatár þegar það var augljóst hversu mikið botnlaust helvíti þessi ræma yrði. Hann hafði ekki lesið handritið þegar hann samþykkti að leikstýra henni. Hann hélt að hún fjallaði um hóp bandarískra hryðjuverkamanna sem ákveða að sprengja allar brýrnar í Madison-sýslu til að tefja framgang breska nýlenduhersins. En svo var ekki.
Í Absolute Power (1997) leikur hann gamlan kall sem brýst inn í Hvíta húsið í upphafi myndarinnar. Það er svo heimskulegt að mér líður eins og ég sé uppdópaður þegar ég reyni að ímynda mér hvað gerist í restinni af myndinni.
Í True Crime (1999) leikur þessi has been leikari has been blaðamann sem er á seinasta sjens hjá yfirmanni sínum, James Woods. Það er bara einn góður punktur í allri myndinni. Þá er James Woods að skamma Clint. Segir að borgarstjórinn vilji fá rassinn hans Clint:
Look, if he comes to me for your ass, I'm going to have to give it to him. Then you'll just be a hole, with no ass around it.
Clint ákvað svo að fagna árinu 2000 með því að leika kúreka enn eina ferðina. Kúreka í geimnum. Með kúrekavinum sínum, Donald Sutherland, Tommy Lee Jones og gaur sem ég gæti flett upp á IMDb, en enginn þekkir hann hvort eð er, þannig að ég ætla að spara mér ómakið. Hét þessi mynd einhverju fyrirsjáanlegu eins og Cowboys in Space? Nei, hún hét Space Cowboys. Eyði ekki fleiri orðum í þetta.
Og svo seinast lék hann í Million Dollar Baby árið 2004. Þessi mynd ber sennilega ábyrgð á fleiri dvd-diskum á öskuhaugum heimsins en allar Police Academy myndirnar samanlagt. Í þessari mynd þjálfar hann konu til að boxa, beitir svona tough love, svo hálsbrotnar hún og hann hjálpar henni að deyja. Hann hefði getið stytt myndina um tvo klukkutíma með því að taka upp mynd af sjálfum sér þar sem hann segir áhorfendunum um hvað sagan fjallar. Svo gæti Morgan Freeman komið inn í myndina og faðmað Clint og sagt eitthvað krúttlegt og verið sætur eins og alltaf. Þegar hann hverfur af skjánum, hvíslar Clint til áhorfendanna: Hann er alnæmissjúkur.
Þetta er semsagt leikferill Clints Eastwood í hnotskurn. Leikstjórnarferill hans hefur verið með þvílíkum eindæmum slappur að ég hef ákveðið að myndirnar hans munu héðan í frá heita Fíaskó 1, 2, 3, ... 30. Ég tek glaðlega á móti hverjum þeim mótrökum sem lesendur hafa fram að færa, þó þeim fylgi náttúrulega sá sleggjudómur að viðkomandi hljóti að vera blindur og heyrnarlaus auk þess að þjást af sníkjudýrum í heila.
Hvaða niðurstöður má draga af þessari upptalningu?
The Eastwood hefur ekki leikið í góðri mynd seinustu fjörutíu árin.
Hann hefur jafn fjölbreytt litróf svipbrigða og manneskja sem er að jafna sig eftir heilablóðfall.
Hvað myndi gerast ef hann félli í beljandi stórfljót? Myndi hann hrópa á hjálp? Hefur hann einhvern tíma hrópað? Getur hann hrópað? Myndi hann kannski bara píra augun og hvísla hásum rómi: I´m over here, dammit.
Nei, það vefst engum sem hefur smávægilegan vott af mannlegum tilfinningum og innsæi, að The Clintster er siðblindur. Hann notar sennilega Óskarsstytturnar sínar sem líflausa áhorfendur í brengluðum kynlífsleikjum með sebrahestum, mormónum, Charlize Theron, Cuba Gooding jr., Faye Dunaway og öðrum leikurum sem heita asnalegum nöfnum.
Clint, þú ert kominn á listann minn.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
5 ummæli:
ég hef nú heyrt að letters from iwo jima eigi að vera mjög góð
Skynja ég einhverja úlfúð í garð Clints?
Hvað hefur hann gert þér annað en að lifa sínu lífi og leika og stýra?
Það liggur við að mig langi að ritskoða þessi komment til þess að verja mannorð ykkar beggja.
Hannes, ef ég kenndi simpansa að tala fingramál og kenndi honum að segja að honum þyki Fíaskó 30 vera frábær, þá gæti ég líka sagst hafa heyrt að hún sé mjög góð.
Bjarni, þín rök ná ekki nokkurri átt. Hvað gerði Hitler annað en að vinna vinnuna sína? Ef barnaníðingar og raðnauðgarar stofna með sér stéttarfélag, munu þeir þá vera hafnir yfir alla gagnrýni vegna þess að þeir eru bara að vinna vinnuna sína? Ef þú svarar já við báðum þessum spurningum, ertu siðblindur og kominn á listann minn.
Ég spyr ykkur báða: Getið þið bent mér á einhverja góða mynd sem Clint hefur leikið í seinustu 40 árin? Er eitthvað sem bendir til þess að hann sé ekki siðblindur?
Guðmundur Jón,
ég er ekki að sjá hvernig mislukkaðar tilraunir Clints til að leika í og leikstýra myndum sem þér hugnast, endurspegla siðferðiskennd eða siðblindu hans. Þú hefur fullan rétt á að gagnrýna hann.
En þarf það að þér líki ekki vinna hans að þýða að hann sé siðblindur?
Nei, auðvitað ekki. En þetta snýst ekki um það, hvað mér finnist um hans verk. Þetta snýst um þann kulda sem stafar af þessum manni, sama hvaða hlutverk hann er að leika. Svo er það líka augnaráðið. Það er auðvelt að sjá hann fyrir sér lemja lítið barn, er það ekki?
Ég þekki manninn náttúrulega bara gegnum verkin og þau bera honum bara ekki nógu góða söguna. Sá sem ekki lætur neitt gott af sér leiða, hlýtur að vera vondur. Eða hvað finnst þér?
Skrifa ummæli