laugardagur, 24. nóvember 2007

There can be only one!


Þau ykkar sem aldrei hafa séð kvikmyndina Highlander frá árinu 1986 eruð heppin. Ykkur gefst færi á því að sjá hana í allra fyrsta sinn. Ég öfunda ykkur virkilega af því, enda er Highlander (ekki Highlander 3 eða Highlander: Endgame og alls alls alls ekki Highlander 2) sennilega mín uppáhaldskvikmynd.

Hvers vegna?

Jú, einfaldlega vegna almenns frábærleika. En svona til að brjóta þetta niður á skýran og skilmerkilegan máta, hef ég gert lítinn lista af öllu því sem er frábært við þessa mynd (þó ekki megi gleyma þeim undirliggjandi frábærleika sem tengir þessa þætti saman).

Sagan í stuttu máli:

Um allan heim finnast ódauðlegir menn. Sumir eru hundrað ára, aðrir mörg þúsund ára gamlir. Það eina sem getur svipt þá lífi, er að missa höfuðið í bardaga. Að öðru leyti bítur ekkert á þá. Þegar sagan hefst, árið 1985, eru þeir fjórir seinustu komnir saman í New York þar sem þeir munu berjast þar til aðeins einn stendur eftir. Eða eins og þeir segja sjálfir:

There can be only one!




1. Upphafstextinn

Þessu er slengt framan í okkur á allra fyrstu sekúndu myndarinnar. Blóðrauður texti fyllir skjáinn og James Bond les:

From the dawn of time we came, moving silently down through the centuries. Living many secret lives, struggling to reach the time of the gathering, when the few who remain will battle to the last. No one has ever known we were among you ... until now.

Strax á fyrstu sekúndunum er tónninn sleginn. Inngangsorðin skipta engu máli fyrir söguna, heldur er tilgangur þeirra fyrst og fremst að vera kúl.

Og svo hverfur textinn...

2. Byrjunarstefið

... og Queen sprengir í manni heilann með rokkslagara með því eitursvala nafni Princes of the Universe. Þess má geta að Queen samdi alla tónlistina við myndina.

Á sama tíma fylgjumst við með Connor MacLeod þar sem hann situr í áhorfandaskara og fylgist með fjölbragðaglímu. Glímukapparnir eru einstaklega skemmtilega fáránlegir þar sem þeir hæðast hver að öðrum í slómósjon. Inn á milli fær Connor (sem er frábærlega leikinn af Christopher Lambert) flassbakk til Skotlands á miðöldum þar sem hann sjálfur er staddur í miðjum bardaga.

Ótrúlega svalt.

3. Fyrsti bardaginn

Í bílastæðahúsinu undir glímuhöllinni hittir Connor eldri mann með sólgleraugu. Hann heitir Faziel. Sá dregur upp sverð og Connor dregur sitt eigið sverð innan úr frakkanum sínum. Síðan skylmast þeir. Þetta er svo sem ekkert í frásögur færandi, enda er þetta allt í anda hins gegnumgangandi svalleika sem þessi mynd býr yfir. Það er samt tvennt sem ég hef alltaf sérstaka unun af þegar ég horfi á þetta atriði.

Í fyrsta lagi eru það skórnir hans Connors. Hann er allur mjög dempaður í klæðnaði, í gráum rykfrakka og bláum gallabuxum. Hann lítur út eins og venjulegur gaur. Og svo er hann í skjannahvítum strigaskóm.

Þetta stingur svolítið í stúf við restina af klæðnaðnum, sem er einstaklega lágstemmdur og er þetta eiginlega stílbrot. En við nánari umhugsun spyr maður sig: hvernig skó myndi ég velja mér ef ég ætti von á því að ráðist yrði á mig hvert sinn sem ég færi úr húsi? Jú, auðvitað myndi ég velja bestu íþróttaskóna sem völ væri á. Skór sem væru góðir til hlaupa, auk þess að vera hljóðlátir. Og ef þeir fást bara í hvítu, verður bara að hafa það. Þannig að það er í rauninni óhjákvæmilegt að hann skuli ganga í skjannahvítum strigaskóm.
Það eru svona smáatriði sem gera það að algjörri unun að sjá þessa mynd aftur og aftur.

Hitt atriðið er þegar Faziel hörfar undan Connor á handahlaupum. Hann hefði alveg eins geta hlaupið (og sennilega komist hraðar yfir) en hann ákvað að gera það sem svalara þótti.

4. Í yfirheyrslu á lögreglustöðinni

Garfield: You talk funny Nash. Where you from?

Connor (sem gengur undir nafninu Russell Nash): Lots of different places.

Garfield (rannsóknarlögga): Are you a faggot, Nash?

Connor: Why, Garfield? Cruisin' for a piece of ass?

Garfield: I'll tell you what happened, Russell. You went down to that garage for a blow job. But you didn't want to pay for it.

Connor: You´re sick. Wanna hear another theory?

Frank Moran (líka rannsóknarlögga): Uh-huh.

Connor: This Faziel was so upset about the lousy wrestling tonight, that he went down to the garage and in a fit of depression cut off his own head.

5. Sean Connery í seinasta góða hlutverkinu sínu.

Sean Connery er án efa einn ofmetnasti leikari samtímans. Hann var góður sem James Bond. Hann var góður í The Man who would be King og The Name of the Rose. Og loks í þessari frábæru mynd. Síðan þá hefur hann verið fastur í sama sporinu seinustu tuttugu árin. Það er sama í hvaða mynd hann er, hann er annaðhvort aldraður James Bond, eða skoskur ofurhönk með siginn gamlakarlapung. Oftast hvort tveggja.



En í Highlander er hann lærimeistari Connors MacLeods. Hann fræðir Connor um eigin hæfileika og kennir honum að skylmast í dramatískri skoskri náttúru. Hann kynnir Connor líka fyrir sverðinu sem mun einn góðan veðurdag verða hans. Ótrúlega svalt 2000 ára gamalt japanskt samúræjasverð með fílabeinsskafti.

En hvers vegna er hann að þjálfa Connor? Væri ekki best að drepa hann bara strax. Nei, vegna þess að Ramirez (Sean Connery) er að undirbúa hálendinginn undir að berjast við...

6. The Kurgan!

Það er einungis einn vondi karl í allri kvikmyndasögunni sem á skilið titilinn Svalasti og vondasti vondikall allra tíma. Darth Vader, Freddy Kruger, Hannibal Lecter og Bono eru eins og ljúfir kettlingar með keleríáráttu í samanburði við konung illskunnar. Hvorki fyrr né síðar hefur jafn illt eintak prýtt hvíta tjaldið. Sannkallaður trúboðasleikjari.

Enginn veit hvað hann heitir. Hann kemur frá rússnesku steppunum, stríðsmaður úr ætt Kurgana. Í þorpi hans henti fólkið ungabörnum fyrir úlfa sér til skemmtunar. Þegar leiðir hans og hálendingsins mætast í fyrsta sinn er The Kurgan málaliði sem ferðast um heiminn í leit að fólki til að slátra.

Topp þrjár ástæður fyrir því að Kurgan er besti vondikall allra tíma:

a) Lúkkið hæfir persónunni fullkomnlega.

Við kynnumst The Kurgan fyrst á miðöldum. Þá er hann stoltur yfir getu sinni í bardaga og er upptekinn af því að hræða líftóruna úr andstæðingnum með klæðnaði sínum, enda er algjör óþarfi fyrir hann að vera íklæddur brynju, hann lifir allt af.

En þvílíkur hjálmur!





Síðan fylgjumst við með því hvernig útlitinu hrakar með árunum, hann verður náhvítur, klæðist leðurlörfum og geislar einhverri fornri, ódauðlegri illsku.



b) Sverðið

Einn af grunnþáttum þessara myndar eru sverðin. Þau eru hvert öðru svalara. En sverðið hans Kurgans hlýtur óneitanlega vinninginn.



c) Hann er svo algjörlega vondur.

Kurgan varð ekki vondur vegna þess að pabbi hans kitlaði hann á óviðeigandi stöðum þegar hann var krakki. Hann fæddist vondur og var alinn upp af vondu fólki. Hann hatar ekki fólk. Fólk eru maurar í hans augum. Myndbrotið hér fyrir neðan útskýrir kannski eitthvað. Þarna hittast MacLeod og Kurgan í kirkju. Eina reglan sem hinir ódauðlegu fylgja, er sú, að bannað er að slást á heilagri grund.



Þvílík illska. Þvílík rödd. Þvílíkur töffari. Ég vil vera eins og hann ef líf mitt fer einhvern tíma til fjandans og ég ákveð að snúa mér að fólskuverkum.

7. Sagan hefur fallegan boðskap.

Boðskapur þessarar myndar er einfaldur og auðvelt að meðtaka: Ef vondur karl nauðgaði konunni þinni fyrir 400 árum síðan og ætlar að höggva af þér hausinn, þá skaltu passa þig.



8. Tónlistin.

Engin önnur mynd hefur jafn mikið af Queen tónlist (fyrir utan Flash!!! A-aaa!!! Saviour of the Universe!!! að sjálfsögðu). Hér ber helst að nefna lög eins og áðurnefnt Princes of the Universe, Gimme the Prize, One Year of Love, Don´t Lose Your Head, A Kind of Magic og síðast en þó allra síst Who Wants to Live Forever. Síðan taka þeir líka sína útgáfu af New York, New York. Án tónlistarinnar væri myndin hvorki fugl né fiskur, enda setur hún virkilega tóninn fyrir töffaraskapinn og svalleikann.

Ég held ég láti þetta nægja. Eitthvað verð ég að skilja eftir fyrir ykkur sem eruð þegar komin í skóna á leið ykkar út á myndbandaleiguna.

Þið hin sem enn eruð efins, getið skoðað þetta og látið sannfærast:

föstudagur, 23. nóvember 2007

Nóttin var dimm og drungaleg...


Er þetta forsíðan á íslensku útgáfunni af Dracula, eða er þetta útsýnið út um heimreiðina okkar?

laugardagur, 10. nóvember 2007

Draumur um inúíta.

Mig dreymdi um daginn tvo inúíta sem sátu á ísnum og dorguðu. Annar þeirra var mjósleginn og hávaxinn, hinn var lítill og svolítið kringlóttur.

Sá hávaxni lítur upp frá veiðarfærunum og segir við þann litla:

Það er farið að hlýna talsvert.

Jamm, svarar hinn á móti.

Kannski verðum við á árabát á sama tíma að ári.

Jamm, segir hinn, kannski.

Trúir þú á gróðurhúsaáhrifin?

Sá þögli ypptir bara öxlum.

Síðan sitja þeir á ísnum drykklanga stund og stara ofan í vökina. Allt í einu sprettur sá hávaxni á fætur og hrópar:

Af hverju heitir þetta land ennþá Grænland?! Af hverju?! Það er ekkert grænt á þessu landi! Ekkert! Allt er hvítt! Hvítt!

Sá litli kippir sér ekkert upp við þetta og situr sem fastast. Sá hávaxni róast að lokum niður og sest aftur við veiðarnar. Eftir smá stund spyr hann þann litla:

Sástu leikinn?

Nei, ég á ekki sjónvarp.

Já, alveg rétt. Ekki ég heldur. Ég gleymi því stundum að ég er eskimói.

Inúíti, meinarðu.

Já ... alveg rétt ... inúíti.

Þetta er ekki afsökunarbeiðni

Vildi bara kíkja hingað inn til tilbreytingar. Búinn að fá fjölda kvartana seinustu dagana fyrir óæskilega fjarveru. Reyni að bæta úr því. En í millitíðinni getið þið kíkt á myspace-síðu áströlsku pönkhljómsveitarinnar The Kualaroos. Þeir eru það stærsta í Ástralíu um þessar mundir (stærri en Neighbours og kengúrur samanlagt) og hafa meira að segja samið lag um hvalveiðar Íslendinga. Allt á áströlsku, náttúrulega, en það kemur ekki að sök.

laugardagur, 27. október 2007

Merkilegt fólk

Ég var að koma frá tónleikum þar sem hljóðfæraleikarar á aldrinum 7-14 ára léku listir sínar. Það er svo sem ekkert í frásögur færandi, krakkarnir stigu á stokk hver af öðrum og spiluðu eftir bestu getu.

Þegar langt var liðið á tónleikana þurfti ég að bregða mér á salernið. Þegar ég kom fram á gang blöstu við mér tveir þéttskipaðir bekkir þar sem sátu hágrátandi börn með foreldrum sínum. Mér fannst þetta ansi merkileg sýn, en í þann mund sem ég var að smeygja mér inn á salernið bar ég kennsl á einn krakkann og fattaði, að þetta væru allt krakkar sem voru búnir að stíga á svið. Mér fannst blessuð börnin taka þessu fullalvarlega. En það þarf náttúrulega lítið til eyðileggja veröld viðkvæmra sála. Ef þau bara vissu, hversu lítinn áhuga fullorðna fólkið hafði á þeirra getu...

Þegar ég var svo á leiðinn til baka í sætið, varð mér hins vegar litið ofan í stílabók sem einn af fullorðnu gestunum hafði í fanginu. Þar hafði hann skrifað:

Nr 11 (klarinett)
Framkoma: Viðvaningsleg
Spilageta: Hlægileg
Klæðnaður: Viðeigandi

Nr 12 (píanó)
Framkoma: Barnaleg
Spilageta: Fyrir neðan allar hellur (verstur af sjö ára krökkunum)
Klæðnaður: Eins simpansi í smókingjakka

Nr 13 (píanó)
Framkoma:
Spilageta:
Klæðnaður: Dræsulegur, mjög óviðeigandi

(Hann var að skrifa eitthvað í spilagetu á sömu stundu og ég gekk framhjá)

Hver gerir svona? Og hvers vegna? Var þetta kannski blaðamaður?

Hann minnti mig á annan furðufugl sem ég rakst á í matvöruverslun hér um daginn. Það var músagrár, úfinn, miðaldra maður með augabrúnir eins og tvö lítil fuglshreiður. Hann er týpan sem gengur um með málband í vasanum öllum stundum og notar bílinn sinn sem einn stóran verkfærakassa. Dóttir hans kemur til hans með tvo geisladiska og réttir honum án þess að segja neitt. Þá tekur hann upp málband (aha!) og mælir lengd, breidd og hæð á báðum geisladiskum áður en hann segir: Ókei.

Ég hef aldrei séð neitt jafn merkilegt allt mitt líf. Þetta voru ósköp venjuleg geisladiskahulstur. Í nákvæmlega sömu hlutföllum og öll önnur geisladiskahulstur. Af hverju, af hverju, af hverju þurfti hann að mæla þau? Og hvers vegna þurfti hann að mæla þau hvert fyrir sig? Hann hlýtur að hafa séð að þetta voru jafnstór hulstur. Eða er þetta spurning um millimetra? Mig langar svo að vita það. Ég hefði átt að spyrja hann. Þetta heldur fyrir mér vöku.

Sem minnir mig á þriðja merkilega atburðinn. Ég stend í biðröð. Fyrir framan mig stendur ungt par á mínum aldri. Strákurinn talar í síma:
Hann: Já, já, allt í lagi, bless
(Leggur á)
Hún: Var þetta Marie?
Hann: Já.
Hún: Bað hún að heilsa mér?
Hann: Nei.
Hún: Hún vissi samt að ég stend við hliðina á þér.
Hann: Já, ég minntist á það strax í byrjun.
Hún: Týpískt.

???

þriðjudagur, 23. október 2007

Leyndardómar himingeimsins

Það skiptir ekki máli hversu lengi þú þarft að vinna, vertu viss um að eyða tíma með fjölskyldunni. Góð stund í faðmi hennar læknar allt.

Það er göfugt að halda sig við áætlun - nema þegar hún er hreint og beint heimskuleg. Sem betur fer ertu sveigjanlegur og vitur.

Þú sendir frá þér skilaboð. Gerir þú þér grein fyrir hver þau eru? Dagurinn færir þér dýpri skilning á sjálfum þér. Það má alltaf breyta skilaboðunum.

Þú ert hamingjusamur hvar sem þú ert. Það að dvelja veldur þér vandræðum. Skipuleggðu þig heima fyrir og haltu áfram að vinna.
Þetta eru allt dæmi úr stjörnuspá dagsins af mbl.is.

Lengi vel velti ég því fyrir mér hver læsi eiginlega stjörnuspána (og tæki mark á henni). Það hlýtur að vera talsverður fjöldi fólks, enda hefur þetta verið fastur liður í Mogganum síðan ég man eftir mér. Spáin þykir nógu mikilvæg til að eiga fastastað á netsíðunni, þótt hún sé morandi í stafsetningarvillum.

En í dag spurði ég sjálfan mig:

Hver semur stjörnuspána?

Ég sé höfundinn fyrir mér sem úfinn prófessor sem situr við risavaxinn stjörnukíki tímunum saman og hrópar svo allt í einu upp yfir sig:

Jeremías mildi!
Svo klifrar hann í hasti niður stigann og hleypur að skrifborði þar sem hann byrjar að hamast á mors-sendi:

Ljón: Forðastu að taka stórar ákvarðanir sem gætu haft langtímaáhrif á þig og fjölskyldu þína. Það gæti haft alvarlegar afleiðingar. Ég endurtek: Alvarlegar afleiðingar!
Lukkutölur: 4, 76 og 342.
Segjum sem svo að forstjóri einhvers fyrirtækis réði stjörnufræðing sem rekstrarráðgjafa. Með hliðsjón af spánni fyrir fiskana í dag,

Hugur þinn skýtur myndum og minningum út í loftið á milljón kílómetra hraða. Þú þarfnast penna og blaðs stöðugt til að koma snilli þinni niður á blað.
myndi stjörnuspekingurinn ráðleggja forstjóranum að setja alla sem fæddir eru í fiskamerkinu saman í eitt herbergi þar sem þeir ættu að breinstorma nýjar hugmyndir fyrir rekstur fyrirtækisins? Væri það ekki frekar lógískt?

En ég spyr aftur: Hver semur þetta? Trúir hann/hún þessu sjálf(ur)? Getur hann/hún séð í stjörnukortinu að allir þeir sem eru fæddir milli 20. janúar og 18. febrúar ættu að hugleiða að taka sér pásu frá sambandinu?

Ég endurtek: Allir þeir sem fæddir eru í vatnsberamerkinu ættu að hugleiða að taka sér frí frá maka sínum. Af hverju? Jú vegna þess að:

Gerður er úlfaldi úr mýflugu.
Þótt ekki sjáist til botns í gruggugum pollum, er ekki þar með sagt að þeir séu djúpir.

Plastpoki segir meira en þúsund orð

Plastpoki frá matvörukeðjunni ICA:



Athugum þetta aðeins nánar:


Og hvað skyldi vera í pokanum?

Frosin pizza...


... og flaska af Farris (sódavatn).

Við lifum á merkilegum tímum þegar plastpokar geta hæðst að lífi okkar og fyllt okkur sjálfshatri.

sunnudagur, 21. október 2007

Saman gegn siðblindu

Hér er sjaldséð auglýsing sem berst gegn siðblindu. Mæli með því að fólk taki boðskapinn til sín.

Ljótt og merkingarlaust málfar?

Geggjuð hárgreiðsla, félagi!

Takk, melur. Ég fékk hana á Rakarastofu Egils og Arnar.

Hún hlýtur að hafa kostað sinn skildinginn, kumpáni.

Nei, brósi. Hún kostaði skít á priki.
Hversu oft höfum við ekki heyrt táninga taka svona til orðs? Við notum svona málfar jafnvel sjálf án þess að hugsa okkur tvisvar um. Þess vegna er löngu orðið tímabært að einhver spyrji:

Hvaðan er orðatiltækið skítur á priki komið?

Þótti það einhvern tíma við hæfi að greiða fyrir vörur eða þjónustu með því að skíta á prik?

Í hverju felst notagildi skíts á priki? (Fjölnota áburður sem hægt væri að flytja milli blómapotta?)

Hver er munurinn á skít á priki og kúk og kanel?

Erum við að tala um einn kúk og eina dós af kanel, eða er kanelnum stráð yfir kúkinn?

Af hverju myndi einhver strá kanel yfir kúk? Af hverju?!

Mig langar að komast til botns í þessu máli. Það þýðir ekki að slengja svona ljótu málfari kringum sig án þess að það hafi einhverja þýðingu. Hversu mikils virði er skítur á priki? Er hann dýrari eða ódýrari en kúkur og kanell?

Hvar er hægt að fá svar við þessum spurningum?

Svar: Á Ebay. Ef einhver er tilbúinn að gera þessa tilraun mun sá/sú hljóta æðsta virðingarvott þessarar vefsíðu: Ég mun hneigja mig á (einstaklega) þýðingarmikinn hátt, sérsniðnum að einstaklingnum.

Afsökunarbeiðni

Ég biðst velvirðingar á fjarveru minni frá þessu bloggi, en ég hef verið önnum kafinn við hitt og þetta í nýja húsinu mínu. Ég mun reyna að vera virkari héðan í frá, síðan það versta er yfirstaðið.

miðvikudagur, 10. október 2007

Af köttum og kossum

Mest lesna fréttin á mbl.is ber yfirskriftina: Vakin með kossi fimm að morgni. Ég smellti á hana og komst að því að þetta var grein um konu sem er víst vakin af nágrannakettinum á hverjum morgni. Eða, reyndar er hún alltaf komin á fætur þegar kötturinn kemur í heimsókn og gefur henni koss. Þannig að fyrirsögnin á með öðrum orðum engan rétt á sér.

Ég las nú ekki lengur en fyrstu efnisgreinina, en ég efast einhvern veginn um að fréttin hafi orðið bitastæðari eftir því sem á leið. Er virkilega svona lítið í fréttum?

Það sem er fáránlegast við þetta allt saman er sú einfalda staðreynd, sem virðist gjörsamlega fara fram hjá fréttamanni Morgunblaðsins, að kettir geta ekki kysst. Eingöngu dýr sem hafa varir (eins og menn og dvergar) geta kysst.

Fyrir nokkrum árum sannreyndi ég þessa tilgátu á Ingólfstorginu. Þá gekk ég upp að körlum og konum og kyssti þau fyrirvaralaust á kinnina. Viðbrögðin sem ég fékk voru nánast alltaf þau sömu:

Hættu að kyssa mig, ógeð.

Eftir rúman klukkutíma af kossaflensi prófaði ég að kyssa án þess að nota varirnar. Sá fyrsti sem varð fyrir þeirri upplifun var, af einskærri tilviljun, Guðlaugur Þór Þórðarson (en hann þykir vera einstaklega kyssilegur í mínum vinahópi). Þegar ég nuddaði samanherptum vörunum að honum gretti hann sig og spurði:

Hvað ertu eiginlega að gera?

Ég er að kyssa þig, sagði ég.

Þetta var ekki koss, svaraði hann á móti. Þetta er koss, sagði hann og skellti einum rennblautum beint á túlann. Það fór um mig fiðringur.

Þegar ég set á laggirnar mína eigin stjórn eftir byltinguna mun Guðlaugur vera munúðarráðherra, en hann verður þá fyrst að skipta um nafn. Hann mun heita Kyssinger.

mánudagur, 8. október 2007

The Master, það er ég.

Ég hef verið syndsamlega fjarverandi undanfarið, en geri mitt besta til að bæta úr því. Einn helsti tímaþjófurinn þessa dagana er minn eiginn lærlingur í vinnunni. Hann er átján ára og, líkt og jafnaldrar hans, finnst ekki ein sjálfstæð hugsun í kollinum á blessuðum drengnum. Hann er ágætur, ég vil ekki vera vondur við hann enda hefur hann hjartað á réttum stað, en déjoð getur verið þreytandi að segja sömu fimm-sex hlutina mörgum sinnum á dag.

Ég veit hversu leiðinlegt það er að lesa um annarra manna vinnu, þannig að ég ætla ekki að drepa ykkur úr leiðindum með smáatriðum, heldur birta nokkra samtalsbúta í algebruformi:

Fyrsta dæmi:

Ég: Ekki gera B, C eða D. Gerðu A.
Strákur: Allt í lagi.

(Fimm mínútur líða. Strákurinn gerir B.)

Ég: Nei, ekki gera B. Gerðu A.
Strákur: Allt í lagi.

(Fimm mínútur líða.)

Strákur: Á ég að gera C?
Ég: Nei. A. Bara A. Ekki gera neitt annað en A.
Strákur: Á ég alltaf að gera A?
Ég: Já, alltaf. Ekki hugsa um hitt. Gerðu bara A.

Daginn eftir kem ég í vinnuna hálftíma eftir stráknum og þá er hann búinn að gera B, C, D og Q (!) af fullum krafti allan morguninn.

Annað dæmi:

(Ég reyni að einbeita mér að einhverju, strákurinn eirðarlaus í bakgrunninum.)

Strákur: Hvað viltu að ég geri núna?
Ég: Þú þarft ekki að gera neitt, við erum alveg að verða búnir. Ég þarf bara að ganga frá þessu...
Strákur: Get ég ekki hjálpað þér eitthvað?
Ég: Nei takk, þetta er að klárast.

(35 sekúndur líða)

Strákur: Viltu að ég hjálpi þér með eitthvað?
Ég: Nei takk, vinurinn.
Strákur: Hvað með C? Viltu að-
Ég (á barmi þolinmæðismissis): Allt í lagi, þú getur tekið C og flokkað í stórt annars vegar og smátt hins vegar.
Strákur: Jibbí!

(Nokkrum andartökum síðar)

Strákur: Á ég að flokka þetta í stórt og smátt?
Ég: Já.
Strákur: Hvað á ég að setja það í marga bunka?
Ég: Andvarp.
Strákur: Ha?
Ég: Ekkert, var bara að tala smá íslensku. Tvo bunka, vinurinn. Einn fyrir stórt og einn fyrir smátt.
Strákur: Allt í lagi.

(Mínútu síðar)

Strákurinn: Er þetta hérna stórt eða lítið?
Ég: ...
Strákurinn: ?
Ég: Þér er alvara?
Strákurinn: Ha? Hvað sagðirðu?
Ég: Andvarp.
Strákurinn: Heyrðu, ég skil eiginlega ekki íslensku.

Þriðja dæmi:

Strákurinn: Fáum við borgað aukalega fyrir yfirvinnu?
Ég (þreyttur eftir 11 tíma vinnudag): Ertu að kalla mig hálfvita?

Svona var seinasta vika í hnotskurn. Svo ég sé nú ekki algjör vondikall, þá verð ég að taka það fram, að undir lokin var hann farinn að skilja að maður eigi alltaf að gera A, aldrei B.

(Sumum finnst kannski skrýtið að ég skuli segja andvarp þegar ég andvarpa. Þeim finnst sennilega enn skrýtnara að ég skuli segja rooop þegar ég ropa og hnerr! þegar ég hnerra. Ég hef lengi reynt að segja geisp þegar ég geispa, en það er nánast ómögulegt.)

sunnudagur, 7. október 2007

Fyrir þau sem hafa yndi af góðu bloggi

Vil bara mæla snöggvast með þessu bloggi. Tvímælalaust næstskemmtilegasta bloggið á internetinu (fjórða skemmtilegasta í öllum flokkum).

miðvikudagur, 26. september 2007

Krem

Það er svo margt í þessu lífi sem maður gerir umhugsunarlaust. Um daginn var ég næstum farinn að raka mig með tannkremi. Þá varð mér hugsað til þess, þegar ég var krakki og var næstum búinn að bursta tennurnar með rakkremi. Þetta þótti mér merkileg og ljóðræn speglun og hugsaði með mér: svona snýst lífið hring eftir hring.

Í kjölfar þessa atburðar fór ég að hugsa alvarlega um tannkrem.



Þegar ég var lítill var alltaf keypt Colgate og ég burstaði tennurnar með því. Síðan þá hef ég prófað hinar ýmsu tegundir (Solidox og Aquafresh koma fyrst upp í hugann, þó þær hafi verið fleiri) auk þess að hafa smakkað fjölmargar undirtegundir Colgate. Þetta hef ég gert í algjöru hugsunarleysi í mörg ár. Á morgnana, þegar heilinn er ekki vaknaður, og á kvöldin, þegar hann er búinn að slökkva á sér.

En þar sem ég stóð þarna um miðjan dag, með lófafylli af tannkremi á vinstri kinninni hugsaði ég með mér: Er einhver munur á öllum þessum tannkremstegundum? Hef ég nokkurn tíma prófað nýtt tannkrem og hugsað með sjálfum mér:
Vá, þetta er tegundin fyrir mig! Tennurnar mínar hafa aldrei verið svona hvítar. Ef Mikjáll hefði svona hvítar tennur myndi enginn sjá fallega brosið hans!
eða
Uss, þetta tannkrem stenst engan veginn kröfur. Tennurnar mínar eru næstum því brúnar og matarleifarnar eru farnar að mynda grýlukerti í jöxlunum. Þetta er skandall á stærð við Watergate. Þetta er Colgate-gate!
Á sínum tíma var það gífurleg bylting í tannhirðu og gómheilsu þegar Dr. Calvin Colgate markaðssetti tannkrem í túpum, fyrstur manna. Þar áður hafði fólk notast við duft sem blanda þurfti með vatni svo úr varð krem. Þetta var tímafrekt og dýrt, fólk kaus frekar að láta tennurnar rotna og fá sér gervitennur í staðinn. En Dr. Colgate, sem var efnafræðingur með plast sem sérfræðisvið, hannaði plasttúpu sem hægt var að loka þannig að súrefni kæmist aldrei að kreminu, en þá myndi það harðna og eyðileggjast.

Þannig að Colgate fann í rauninni bara upp tannkremstúpuna.



Tannkremið er mun eldri uppgötvun og var vinsælt meðal ýmissa suður-evrópskra sérvitringa á 17. og 18. öld. Þegar spænski landkönnuðurinn Piaro uppgötvaði Choxzul indíanana við Mexíkó-flóa, komst hann að því, að þeir notuðu tannkrem sem steypu til að festa saman múrsteina, en húsagerð þeirra má rekja alla leið aftur til miðalda.

Til að gera indjánana að athlægi, bað hann þá um að blanda fyrir sig smáræði af steypu og notaði það svo til að bursta tennurnar. Hann varð þá sjálfur að athlægi þegar tannkremið harðnaði og læsti munninum. Liðsmenn hans reyndu árangurslaust að bleyta upp í steypunni í meira en viku og neyddust að lokum til að brjóta úr honum allar tennurnar svo hann gæti matast, en hann var þá orðinn ansi illa haldinn af hungri.

Það kom í ljós að þótt steypa indjánanna væri lík hinu vestræna tannkremi, þá reyndist efnablanda indjánanna mun sterkari og munaði þar mestu um lím sem þeir bjuggu til úr pálmaberki.

Eftir þetta varð Piaro meiriháttar brandari í heimalandi sínu og hlaut viðurnefnið Piaro tannlausi sem þótti einstaklega fyndið (en þá var ekki enn búið að uppgötva hnyttni). Piaro féll úr náð við hirðina, tapaði aleigunni og ráfaði um Spán í meira en tíu ár þar til hann gekk fram á klaustur og gerðist munkur.

Í klaustrinu lærði hann grunnatriði málarakúnstinnar og varð fljótt einstaklega hæfur trúarlegur málari. Piaro sérhæfði sig í myndum af Jósefi þar sem hann eyddi smá quality time með syni sínum. Meðal frægustu verka hans voru: Jesú og Jósef í eltingarleik, Feluleikur í Getsemane-garði og Hinir heilögu feðgar smíða kofa. Hann hlaut þó ekki viðurkenningu fyrir list sína fyrr en hann var allur.

Michelangelo sagði um hann: Piaro var ágætur. Fyrir þau orð var Michelangelo dreginn fyrir rannsóknarréttinn, enda var túlkun Piaros á hinum týndu árum Krists ekki vinsæl meðal kardínálanna. Michelangelo var þvingaður til að taka orð sín tilbaka, en á leiðinni úr réttarsalnum heyrðist hann muldra með sjálfum sér: Hann var nú samt ágætur.

En, já, tannkrem.

Það hefur sem sagt bara verið ein raunveruleg bylting í heimi tannkremsins, þ.e.a.s. tannkremstúpan. Ég legg til að næsta bylting verði í formi tannfroðu. Hún virkar eins og rakfroða sem maður sprautar upp í sig, þannig að munnurinn, hver einasta hola og skora, fyllist af tannhreinsiefni. Í þessu kremi eru svo nanóvélmenni sem breyta matarleifum í munnskol og tannstein í tannþráð. Maður leyfir nanóvélmennunum að vinna sína vinnu í tvær mínútur meðan maður smyr sér nesti og svo skyrpir maður kreminu út og skolar munninn. Búið.

Einhvern veginn þykir mér ólíklegt að við sjáum þessa tæknibyltingu á markaðnum næstu árin síðan flestir stærstu tannkremsframleiðendurnir selja líka tannbursta.

Já, líkt og ástin geta fjármálasamsæri verið blind - SIÐBLIND.

fimmtudagur, 20. september 2007

sunnudagur, 16. september 2007

Lítill hluti af heildarmyndinni


Mér finnst skemmtilegt hvað hann horfir illilega á aumingja barnið.

Elsku enska dóp

It is better to have loved and lost than to never have loved at all.

Þessi enski málsháttur hefur í gegnum aldirnar verið notaður til að réttlæta hin ýmsu mistök hjartans. En hefur fólk einhvern tíma krufið hann, komist að raunverulegri merkingu hans? Þessi málsháttur hvetur nefnilega til eiturlyfjaneyslu.

Hvernig?

Jú, vegna þess að það er betra að byrja í dópinu og hætta en að hafa aldrei prófað. Þinn reynsluheimur stækkar og þú finnur hamingju um stund. Svo hættirðu í dópinu og gengur gegnum fráhvarfseinkenni. Af og til fellurðu í sama gamla farið, en eftir því sem þú þroskast, skilurðu að dópið/konan gerir þér ekkert gott og að þú munir aldrei finna þessa hamingju sem þú upplifðir í upphafi.

En þetta bara stenst ekki. Að sprauta sig með dópi er eins og að dæla siðblindu beint inn í æðarnar og er á engan hátt sambærilegt því að vera ástfanginn.

Betra væri að útrýma þessum ljóta málshætti og notast frekar við þennan:

It is better to have loved and lost than to be a junkie scumbag.


Orð okkar eru eins og múrsteinar sem nýtast jafnt til að byggja heimili og sundrungarmúra. Gætum þess vegna tungu okkar. Hún getur verið helsta vopn hins illa.

miðvikudagur, 12. september 2007

þriðjudagur, 11. september 2007

Morgunglaðningur

Ég mun ekki sakna þess að lifa í kjallara. Þegar ég fór á fætur í morgun fann ég þetta lík sem hafði kramist undir sofandi líkama mínum:
Ætli hún hafi skriðið upp í rúm til að deyja og hafi þegar verið látin er ég velti mér á hana? Eða er nakinn líkami minn kynþokkafull hraðbraut fyrir köngulær og skordýr næturinnar? Mér var fljótlega hugsaði til annarar köngulóar sem fannst í bökunarskálinni okkar fyrr í sumar:

Skyldu svona kvikindi skríða yfir andlitið mitt á hverri nóttu án þess að ég taki eftir því? Hversu mörg skordýr hef ég gleypt gegnum árin? Ef Köngulóarmaðurinn er að lesa þetta, þá má hann kommenta.

mánudagur, 10. september 2007

Smekkleysa




Þetta er svo sem ekkert merkilegt veggspjald en það var eitt orð þarna sem vakti athygli mína: Voldtektsdager. Nauðgunardagar. Orðið minnti mig á auglýsingu sem ég heyrði á Bylgjunni fyrir nokkrum árum.

Ofurhress rödd:
Jájájá, nú er komið að því! Við hitum upp fyrir Verslunarmannahelgina. Alla þess viku eru Nauðgunardagar í Kringlunni. Af því tilefni verður sérstakur hnífamarkaður á þriðju hæðinni og allar lambhúshettur á hálfvirði. Við bjóðum upp á fjölbreytta skemmtidagskrá frá mánudegi til fimmtudags. Strákarnir í Skítamóral munu koma öllum í réttu stemmninguna og Raggi Reip skemmtir þeim yngstu. Auk þessa munu fimmtíu fyrstu viðskiptavinirnir hvern dag fá tveggja metra langan reipisbút gefins í Byggt og búið!
Kíktu í Kringluna, það er þess virði.


Dýpri rödd:
Kringlan.
Nauðgar Smáralindinni í (blíííp).


Ég man vel eftir þessari auglýsingu. Mér fannst hún einstaklega ósmekkleg. Að jafnalvarlegt málefni skuli vera gert að markaðsvöru er forkastanlegt. Sannkölluð siðblinda.

sunnudagur, 9. september 2007

Drekinn í Flórens

Flott plötuumslög

Var að hreinsa til í bókamerkjunum mínum og fann þessa síðu. Uppáhaldið mitt er It´s me, Mum! Brosið er eitthvað svo einlægt og svo heitir líka eitt lagið Don´t send my mother to prison.

laugardagur, 8. september 2007

Móðir Teresa



Hvað var eiginlega svona merkilegt við Móður Teresu? Hún hlaut friðarverðlaun Nóbels fyrir að helga líf sitt því, að hjálpa götubörnum í Calcutta. Það er gott og blessað, en hvernig gat hún gefið líf sem hún hafði þegar gefið Guði?

Þegar hún gerðist nunna gaf hún alla rokkstjörnudrauma sína upp á bátinn, sagði skilið við veraldlegar eigur og holdlega ást. Var það svo mikil fórn að hjálpa einhverjum öðrum í leiðinni? Þessi kvöld sem hún vann frameftir á skrifstofunni án þess að fá borgað, skiptu þau í rauninni einhverju máli? Hún átti engin börn sem biðu eftir mömmu sinni, það var ekkert annað á dagskránni, nema kannski bænastund fyrir svefninn. Að hvaða leyti er hennar gjöf meiri og betri en fórn hinnar venjulegu nunnu? Með hliðsjón af Móður Teresu hlýtur maður að spyrja sig: af hverju eru ekki allar nunnur eins og hún? Er ekki eigingjarnt af þeim að nýta sinn tíma til annars en að hjálpa öðrum?
Svarið er: kannski.

Þeirra tími er nefnilega ekki þeirra eigin. Það er Guðs tími. Hinn himinborni kvennabúrsstjóri er nefnilega mjög gamaldags.
Guð má eiga eins margar konur og honum sýnist.
Þær verða að klæða sig samkvæmt hans óskum.
Þær mega ekki nota farða.
Þær mega ekki fá sér vinnu.
Þær mega ekki eignast börn.
Þær mega ekki eiga sér neitt veraldlegt líf.
Og, já, þær verða að þakka honum fyrir mörgum sinnum á dag.

Hvaða þýðingu hefur það þá, að Móðir Teresa skuli hafa hlotið friðarverðlaun Nóbels? Ég hef tvær kenningar:

1) Nóbelsnefndin vildi skamma nunnur heimsins, fá þær til að gera eitthvað raunverulegt gagn í stað þess að kveikja kerti og ... allt hitt sem nunnur taka sér fyrir hendur. Þetta hafi sem sagt verið alvarleg áminning.

2)Nefndin vildi gefa Guði verðlaunin og Móðir Teresa var eini fulltrúi hinnar einu sönnu kirkju sem hafinn er yfir gagnrýni. Í augum margra er grein eins og þessi jafngildi þess að löðrunga ömmu sína með blautri gólftusku. Svo heilög er hún orðin í hugum fólks. En á Guð skilið að hljóta friðarverðlaun Nóbels? Eftir að hafa lesið nokkra úrdrætti úr Biblíunni er ég vægast sagt skeptískur.

Mín niðurstaða er þessi: Móðir Teresa gaf ekki neitt sem hún hafði ekki kastað frá sér mörgum árum áður. Hennar fórn var engu stærri en fórn þeirra þúsunda kvenna sem ganga í klaustur. Hún hjálpaði ekki fólki af gjafmildi. Hún var bara að drepa tímann milli bænastunda. Sem þjónn hinnar kaþólsku kirkju hefði hún vissulega getið drepið tímann á annan hátt. Hún hefði getað staðið fyrir mótmælagöngum gegn hjónaböndum samkynhneigðra. Barist gegn innrás smokksins í Afríku.

Nú er unnið að því að koma henni í dýrlingatölu, sem ýtir bara stoðum undir mínar grunsemdir varðandi hennar fyrirætlanir. Á okkar tímum hafa bara tvö önnur verið nefnd við dýrlingastatus: Díana prinsessa og Bono. Ég mun taka þau skötuhjúin fyrir í komandi færslum.

Ímynd nunnunar er kerfisbundið fegruð af siðblindum prestum innan kaþólsku kirkjunnar.

Það eru eflaust ófáir sem spyrja: Ef Móðir Teresa var ekki góð, hver er þá raunverulega góður? Nefndu einhvern sem hefur gefið meira.
Ekkert mál.
Bruce Wayne.

Á daginn vinnur milljónamæringurinn Bruce Wayne hörðum höndum við að safna peningum í sjóði sem nýtast til að bæta lífið í Gotham-borg auk þess sem hann veitir þúsundum manna atvinnu. Á næturna (í sínum frítíma) leggur hann líf sitt að veði svo íbúarnir geti gengið óhultir um götur borgarinnar án þess að óttast bófa, þrjóta, þorpara og aðra kóna.

Í stað þess að nota frítímann í að keyra flotta bíla, tæla súpermódel, sniffa kókaín, kaupa stærsta smoothie-blandara í heimi, fylla hann af kavíar, sushi og hárlausum dvergum og allt hitt sem venjulegir milljónamæringar taka sér fyrir hendur, nýtir hann sinn einkatíma til að þjálfa sig andlega og líkamlega til að berjast gegn siðblindustu þorpurum plánetunnar. Bruce Wayne er, ólíkt Móður Teresu, frjáls maður. Frjálsari en flestir, þökk sé peningunum. Engu að síður er hann...

BATMAN!


Og enginn hefur lagt til að gefa honum friðarverðlaunin eða taka hann í dýrlingatölu.

Sanngjarnt?

Vigelandsparken


Hef hingað til alltaf haft það á tilfinningunni að þetta séu feðgar en nú er ég búinn að horfa svo mikið á Oz, að ég sé bara nýnasista plotta í sturtunni.

fimmtudagur, 6. september 2007

Kaffivísindi

Nýleg rannsókn leiddi í ljós að kaffi hefur jákvæð áhrif á heila eldri kvenna. Hugsun þeirra er skarpari og þær eru meira en 50% líklegri til að komast að skynsamlegri niðurstöðu. Könnunin sýndi engan mun á eldri körlum.

En hvað með kvenlega karla? Voru þeir með í könnuninni?


Þeir sem hafa áhuga á þessari rannsókn ættu að kíkja á þetta.

Slátrarinn í Nemi



þriðjudagur, 4. september 2007

Hversdagsleg siðblinda - 2. hluti

Múrarnir sem skilja okkar veröld frá botnlausa hyldýpinu, eru gamlir og hrörnandi. Á stöðum sést inn í steypujárnið, kaldur dragsúgur hvín í gegn og myrkrið leitar inn. Myrkur sem þefar uppi sálar, vill gleypa allt sem þykir yndislegt og fagurt. Á þess konar stöðum er vinsælt að reisa kvikmyndahús.

Það er ekki svo erfitt að sjá tengsl bíóhúsa við myrku hliðina. Þar eru engir gluggar. Ljósin eru einatt slökkt nema rétt á meðan fórnarlömbum er smalað inn og út úr salnum. Flestar kvikmyndirnar eru augljóslega gerðar af djöfladýrkendum (meira um það í annarri grein) og þar eiga sér stað táknrænar bókabrennur þegar miðinn (hið eina ritaða mál sem finnst í allri byggingunni) er rifinn sundur af einkennisklæddum verði.

Þessi illska endurspeglast svo í fólkinu sem stígur inn fyrir dyr bíósins. Dula er dregin fyrir andlit þeirra og þau siðblindast í myrkrinu. Þegar þau yfirgefa salinn eru gólfin klístruð og poppkornspokar og sælgætisbréf liggja á víð og dreif. Út úr myrkrinu lympast náhvítir draugar sem píra augun í dagsljósinu.
Já, í bíó á sér stað mikil illskumessa, sannkölluð siðblinduorgía.
Það sem ég hef þó einna helstan meinbug á varðandi bíóferðir, er fólkið sem (í tímabundinni siðblindu) finnur hjá sér yfirþyrmandi löngun til að gefa frá sér hljóð. Þetta fólk hef ég flokkað eftir demonum:

-Fólk sem svarar í farsíma meðan á sýningunni stendur (og tilbiðja þar með Mobilox, hinn myrka prins pirrandi hringitóna og skapara Crazy Frog).
Helst grunaðir:
Táningar.
Siðblindir slökkviliðsmenn á bakvakt.


-Fólk sem þjáist af allt of algengum sálrænum kvilla sem verður til þess að það ruglar saman kvikmyndahúsum og kaffihúsum.
Þetta lýsir sér fyrst og fremst í því, að viðkomandi finnur hjá sér þörf til að spjalla um daginn og veginn, ræða stjórnmál og heimspeki, án þess að láta Dolby/THX græjurnar trufla sig. Þetta fólk tilbiður Linguon, demon hinnar iðandi tungu.
Helst grunaðir:
Táningar.
Blint og heyrnarlaust fólk sem hefur aldrei stigið fæti inn á kaffihús.
Fólk sem situr beint fyrir aftan mig.


-Fólk sem hlær vitlaust (Amusikon, hinn myrki fursti fimmaurabrandarans og hornsófi Spaugstofunnar).

Undirflokkar:
Fólk sem hlær hátt og endurtekur línuna sem þeim fannst svo fyndin (HAHAHA! Would you like some shut the fuck up with your coffee? HAHAHA!).
Helst grunaðir:
Fólk sem situr beint fyrir aftan mig.
Handritshöfundurinn.

Fólk sem hlær augljósum gervihlátri.
Helst grunaðir:
Ungmenni á stefnumóti.
Þessi leikstjóri er akkúrat á minni bylgjulend. Þess vegna finnst mér þessi tiltekni brandari (sem hefði einungis valdið hinum vægasta kipp í munnvikinu hefði hann komið fram í einhverri annarri mynd) svo stórkostlegur, ég fattaði hann betur en allir hinir í salnum, að ég verð bara að hlæja örlítið hærra en venjulega. HAHAHA. Ég er jafn svalur og persóna úr Tarantino-mynd. -týpan.
(Þeir sem vilja sýnishorn af þessari týpu, er bent á að sjá Grindhouse-myndirnar í bíó)
Skáld sem hefur af einskærri forvitni villst inn á bandaríska gamanmynd og þjáist undan þeirri hrópandi mótsögn, að það sé ætlast til þess að hann hlæi að einhverri lágkúru sem hreyfir ekki við sálinni, minnir ekki á gleði og léttleika æskunnar. Í örvæntingu sinni gefur hann frá sér holan, vélrænan hlátur sem smámsaman magnast í grátur og hleypur svo skælandi út úr salnum. Seinna um kvöldið, þegar hann hefur kíkt á kaffihús til að rétta sig við, semur hann ljóð til heiðurs hinum sanna hlátri, hinni sönnu gleði trúðsins. Nákvæmlega tíu árum seinna kaupir hann sér jeppa.


Niðurstöður:
Kvikmyndahús eru musteri villimennskunnar. Ef það væri leyfilegt að hafa með sér hunda í bíó, myndu eigendurnir þrífa upp eftir þá? Ég held ekki. Það myndi frekar leiða til þess að aðrir bíógesti gengju örna sinna undir sætunum. Það er mín kenning.
En hvað getur maður gert þegar maður verður fyrir svo vægðarlausri siðblindni? Einfalt. Þú snýrð þér umsvifalaust að þeim sem truflar þína bíóupplifun og segir: Ég elska þig.
Við högum okkur nefnilega alltaf betur kringum þau sem elska okkur. Það er staðreynd.

Blóð í tröppunum

Í stigagangi einum fann ég þetta skilti,




og í þrepunum voru vissulega blóðdropar!




Þetta fannst mér einstaklega skemmtilegur fundur, en jafnframt furðulegur. Í kjölfarið sóttu á mig nokkrar vangaveltur.

Spurningin er ætluð einhverjum sem gæti útskýrt tilkomu blóðsins. Á sá bara að skrifa svarið aftan á blaðið?

Sú sem skrifaði skilaboðin (mig grunar að það sé kona) hefur greinilega áhyggjur af þessu máli. Hvers vegna elti hún ekki blóðslóðina og spurðist fyrir í eigin persónu? Blóðeigandanum hefur kannski blætt út í íbúðinni sinni. Nei, það virðist ekki vera svo mikið áhyggjuefni. Ég held að sú sem skrifaði skilaboðin hafi nefnilega verið sú sem þreif sameignina seinast og var frekar pirruð yfir því að einhver skuli hafa látið sér blæða yfir nýskúruðu þrepin.

Það sem mér finnst samt allra skemmtilegast við þetta skilti, eru blóðrauðu stafirnir. Var þetta meðvituð ákvörðun? Af hverju notaði hún ekki svartan túss? Bláan kúlupenna?

Og að lokum: Hvaðan kom blóðið? Voru þetta blóðnasir, áverkar eftir helgardrykkju eða slefandi vampíra?

mánudagur, 3. september 2007

sunnudagur, 2. september 2007

Hversdagsleg siðblinda - 1. hluti (Inngangur)

Siðblinda er skeytingarleysi gagnvart óskrifuðum reglum samfélagsins og virðingarleysi gagnvart meðborgurum sínum og tilfinningum þeirra. Fullkomnlega siðblindur einstaklingur hefur enga samúð með neinum nema sjálfum sér og er ófær um að mynda félagsleg tengsl. Þegar fólk heyrir minnst á siðblindu verður flestum hugsað til raðmorðingja, barnaníðinga og Bono.
En siðblinda einskorðast ekki við einstaklinga, heldur þrífst hún þar sem margir koma saman.
















Það er eins og hið illa felist í fjöldanum, að hver og einn taki með sér snefil af illsku sem svo magnast upp þar til einhver gerir eitthvað gjörsamlega siðlaust, án þess að hugsa sig tvisvar um.

Ungur maður rífur umbúðir af súkkulaðistykki og hendir á gangstéttina. Samt er ruslatunnan beint fyrir framan hann, í seilingarfjarlægð. Myndi hann gera þetta heima hjá sér? Fyrir framan einhvern sem hann virðir eða þykir vænt um?























Nei, því hann er ekki siðblindur. Hann er bara heltekinn af einhverri illsku sem læðist um í fjöldanum. Þessir demonar siðblindu þrífast best í borgum, þar sem fólk nýtur frelsis í skjóli nafnleysis.
En hvers konar frelsi fylgir ábyrgð.

Tilgangurinn með þessari greinaröð er að minna fólk á þessa ábyrgð.
Eins og Special Agent Dale Cooper, hef ég ákveðið að berjast gegn hinu illa sem býr innra með okkur öllum. Það er ekki nóg að bæla niður ofbeldishneigðina og öfuguggaháttinn, heldur verður að rífa meinið burt með rótum. Í þeim tilgangi hef ég hafist handa á greinaröð sem útskýrir hvernig hin myrku öfl leka inn í okkar veruleika án þess að nokkur kippi sér upp við það. Handan þessa heims eru nefnilega skuggaverur og ófreskjur sem bera með sér mengunarslys í hverri vörtu og hnerra kjarnorkusprengjum.

Þeirra þrælar eru fólkið sem ypptir öxlum.

Fólkið sem segir: Þetta er ekki mitt vandamál.

Tíminn er kominn til að frelsa þessa þræla. Skína dagsljósi í andlit þeirra sem bakast hægt og örugglega í sjónvarpsbjarmanum. Vegna þess að þetta er faraldur.

Siðblindufaraldur.